fimmtudagur, 27. febrúar 2014

náttúrulega bastkistan mín

Þessa náttúruleg efni færslu skrifa ég í samvinnu við Wovenhill, enskt fyrirtæki í Stratford-upon-Avon sem sérhæfir sig í garðhúsgögnum úr basti. Þau sendu mér þessa bastkistu sem ég nota sem hliðarborð í setustofunni.


Ég hafði verið að leita að hliðarborði fyrir setustofuna, einhverju sem væri praktískt og létt og helst einhverju sem væri um leið góð hirsla. Þessi bastkista var akkúrat það sem mig vantaði. Eins og sést á myndinni þá er hún ansi stór. Ég get geymt í henni teppi og aðrar vefnaðarvörur og líka hluti sem við erum ekki að nota dagsdaglega. Ofan á lokinu geymi ég lampa og bækur (ekki með á myndinni er bakki sem ég tylli á lokið þegar ég fæ mér kaffi í setustofunni).

Wovenhill býður upp á fjórar gerðir af bastkistum, Hatton, Marlow, Twyford og Walton, sem eru fáanlegar í þremur stærðum: mið, stór og extra-stór (þau eru með fleiri tegundir af kistum, ekki bara úr basti). Málin á kistunum eru mismunandi eftir hvaða tegund er valin og allar þær upplýsingar er að finna á vefsíðu þeirra. Kisturnar eru líka seldar í settum. Fáanlegir litir eru náttúrulegur, brúnn, mokka og hvítþveginn - fer bara eftir því hvaða tegund er valin.

• höldur í hliðunum og lok sem hægt er að fjarlægja
• beinhvítt bómullaráklæði sem hægt er að fjarlægja
• náttúrulegt efni: bast (rattan)

Ég tók þessa mynd til að sýna ykkur áferðina á bastkistunni.

WOVENHILL
Wovenhill er fyrirtæki með aðsetur í bænum Stratford-upon-Avon (fæðingarstaður William Shakespeare) í Warwickshire, sem sérhæfir sig í garðhúsgögnum úr basti og býður líka upp á gott úrval af hirslum og öðrum vörum sem hjálpa til við skipulag á heimilinu - körfur, einingar og þvottakörfur sem unnar eru úr basti, sægrasi eða vatnahýasintum (water hyacinth).

Wovenhill | Unit 17, Goldicote Business Park, Banbury Road, Stratford upon Avon, Warwickshire, CV37 7NB
Sími: +44 1789 741935 | Netfang: sales@wovenhill.co.uk

myndir:
Lísa Hjalt | í samvinnu við Wovenhill (orð og skoðanir alfarið mín eigin)


mánudagur, 24. febrúar 2014

vorstemning í boði Ikea Livet Hemma


Ég hef nú þegar minnst á að það er kominn vorhugur í mig. Krókusar og páskaliljur eru í blóma
í garðinum og margar aðrar plöntur sem ég kann ekki nöfnin á eru að undirbúa sig fyrir vorið. Núna
í morgun sá ég hvar brumið er að stækka hratt á magnólíutré eins nágrannans. Þetta minnti mig á
þessar myndir sem ég hef safnað saman af vefsíðunni Ikea Livet Hemma, en á blogginu þeirra er
oft að finna skemmtilega stíliseringu sem veitir innblástur.


Þar sem við fluttum hingað í nóvember þá höfum við bara séð garðinn í blóma á myndum og það
er ekki alveg að marka. Það verður gaman að sjá hvernig garðurinn raunverulega lítur út þegar
allt er í blóma (ég lofa myndum). Ég efast um að ég komi til með að planta nokkru sjálf í beðin en
hér er stór og góð hellulögð verönd og á henni er nóg pláss fyrir blómaker. Það eru nokkur ker á
veröndinni en ég þekki ekki allar plönturnar í þeim. Ég er að velta því fyrir mér hvort það geti verið
að kirsuberjatré sé að vaxa í tveimur - það væri nú dásamlegt! Eftir að hafa verið með kirsuberja-,
plómu- og eplatré í garðinum í Luxembourg þá finnst mér svona falleg blómstrandi tré ómissandi
á vorin. Ef þetta er eitthvað annað sem er að vaxa í kerunum þá bara kaupi ég kirsuberjatré.


Ég verð að bæta við hvað mér finnst þetta útieldhús á neðstu myndinni einfalt og flott. Ég væri til í
svona. Í einu horni garðsins er pergóla (mér finnst stundum erfitt að finna gott íslenskt orð á þetta;
klifurgrind hljómar alltaf eins og leiktæki og svo hef ég séð laufþak sem er kannski betra orð) sem
er ekki jafn stór og þessi, en þar eru tvö grill og núna þrjú með okkar eigin grilli. Ég er því með eins
konar útieldhús, bara ekki svona flott hillupláss og vask.


myndir:
af IKEA Livet Hemma - 1: Ragnar Ómarsson / 2: Nina Broberg / 3: Nina Broberg / 4: Anders Jungermark | stílisering:
Johanna Laskey / 5: úr bókinni Kliv Utfimmtudagur, 20. febrúar 2014

needthrow-ecru ábreiða frá Tine K Home

Eins og ég sagði ykkur í síðustu viku þá er búið að vera ansi skýjað. Mig langaði að sýna ykkur horn á mínu eigin heimili en ég þarf meiri birtu til að taka myndir af því. Það bara gengur ekki að birta hálf dimmar myndir af nýjum hlut sem mig langaði að deila með ykkur. Kannski verður heppnin með mér í næstu viku. Þessa dagana er ég að hugsa um vorið og þegar ég sá Tine K Home kynna nýjar needthrow-ábreiður í vikunni þá vissi ég að ég yrði að deila einni í náttúruleg efni seríunni.

Needthrow-ábreiðurnar frá Tine K Home eru úr bómull sem er ofin á sérstakan máta. Ég kann ekki að útskýra það á íslensku en á ensku kallast það jacquard weave. Ég er sérstaklega hrifin af ábreiðunni í ljósa eða hvíta litnum sem kallast Needthrow-ecru. Ábreiðan er einnig fáanleg í bláum og gráum lit.

stærð 140 x 200 cm

Ég hef ekki meðhöndlað needthrow-ábreiðurnar og veit því ekki hver áferðin er, en af myndunum að dæma líta þær út fyrir að vera léttar, sem er kjörið fyrir vorið og sumarið. Mig langar að kaupa nokkra nýja hluti fyrir heimilið í vor og ég hafði hugsað mér ábreiður í hlutlausum lit sem passa við púðana sem ég á nú þegar.

TINE K HOME
Tine K Home er danskt merki, stofnað árið 1999 af Tine Kjeldsen og eiginmanni hennar Jacob Fossum. Aðsetur fyrirtækisins er í Óðinsvéum en vörur þeirra eru seldar í mörgum löndum. Þið getið kynnt ykkur söguna hér.

Línurnar frá Tine K Home samanstanda af
ástríðu Tine fyrir fallegum munum, ljúfum minningum, ólíkum menningarheimum, og góðum sögum. [Þær innihalda] textíl, húsgögn og muni fyrir heimilið sem eru þeirra eigin hönnun eða eitthvað sem þau finna á ferðum sínum um Víetnam, Marokkó, Indland, o.s.frv. Ástríðu sína á ,köldum' litum sameinar hún skandinavískum einfaldleika í handgerðum munum og heillandi hlutum frá ólíkum menningarheimum sem saman skapa hlýlegt og notalegt andrúmsloft.
Tine segir að sér líki „munir sem hafa sögu, sem eru handgerðir og öðruvísi,“ en slíka hluti finni hún yfirleitt ekki í Danmörku.

mynd:
Tine K Home


miðvikudagur, 19. febrúar 2014

rýmið 54

- fallegt horn í svefnherbergi í íbúð í hjarta Kaupmannahafnar
- ég veit ekkert um hönnuðinn en ég pinnaði myndina af borðstofunni sem sést glitta í

mynd:
Line Klein fyrir Elle Decoration DK af blogginu My Scandinavian Home


þriðjudagur, 18. febrúar 2014

innlit: glæsivilla í Montecito II

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ég deili myndum af þessari glæsivillu í Montecito í Kaliforníu á blogginu (sjá hér) en hún er núna í eigu sjónvarpskonunnar Ellen DeGeneres og maka hennar Portia De Rossi. Þessi innlit eru að vísu ekki ný þannig að innbúið er ekki þeirra og því óþarfi að fara í smáatriði í þeim efnum. Arkitektinn John Saladino er hönnuður þessar eignar og eins og sjá má þá er hún öll hin glæsilegasta, svo ekki sé minnst á garðinn.

Þess má svo geta að þær stöllur eru tiltölulega nýbúnar að kaupa enn eina eignina í Los Angeles, svokallað Brody House sem var hannað af arkitektinum A. Quincy Jones, sem ég deili kannski síðar.

Kannski kannast einhverjir líka við myndina hér að neðan - dásamleg sumarstemning í henni - en ég póstaði svo til alveg eins mynd í einni Eftirminnilegt sumar færslu í ágúst.

myndir:
Alexandre Bailhache fyrir House & Garden af síðunni AD DesignFile


fimmtudagur, 13. febrúar 2014

Chevron Grande sængurver frá AURA

Í dag í nýju bloggseríunni, náttúruleg efni ætlaði ég að leyfa ykkur að gægjast inn á mitt eigið heimili, sýna ykkur hlut sem ég eignaðist nýverið. Það er bara búið að vera svo skýjað undanfarið að ég var engan veginn sátt við birtuna í myndunum sem ég tók. Í staðinn ætla ég að sýna ykkur sængurver með chevron-mynstri frá AURA, áströlsku fyrirtæki sem sérhæfir sig í rúmfötum og annarri vefnaðarvöru fyrir heimilið.

Ef sængurver úr náttúrulegum efnum höfða til ykkar en þið viljið líka hafa vissan stíl á hlutunum, þ.e. ekki bara velja einlit ver og hlutlaus, þá ættuð þið að skoða úrvalið á vefsíðu AURA. Sængurver sem þau kalla Chevron Grande í svörtu (chevron má lýsa sem aflöngu v-laga mynstri) er faldað með sterkum svörtum borða og því er einnig hægt að snúa á rönguna og hafa alveg svart. Sængurverið er úr 55% líni og 45% bómull og eins og sést á myndinni er hliðin með chevron-mynstrinu með mildum hlutlausum tón á móti þessum svarta. Verið er einnig fáanlegt í lit sem kallast neon kóral, en ég kýs að nota hlutlausa liti í svefnherberginu.

HUGMYNDAFRÆÐI OG STEFNA AURA
Tracie Ellis er stofnandi AURA. Í hennar huga þá er ekki nóg að falleg hönnun gleðji augað heldur þarf áferð vörunnar að vera þægileg viðkomu. Hver lína frá AURA er innblásin af ferðalögum hennar um framandi menningarheima. AURA selur vörur sem eru hannaðar með siðferðilegri ábyrgð og sjálfbærni í huga. AURA-teymið vinnur náið með birgjum og samstarfsaðilum og gengur úr skugga um að starfsfólk þeirra búi við góð vinnuskilyrði, sé ekki undir aldri og að því sé sýnd virðing í starfi.

mynd:
AURA by Tracie Ellis


miðvikudagur, 12. febrúar 2014

tískuvikan í New York: haust/vetur 2014

Tískuvikan í New York er í fullum gangi en henni lýkur á morgun og næst tekur við tískuvikan í London, sem hefst 14. febrúar. Ég get ekki sagt að ég sé búin að liggja yfir þessu því ég er spenntari fyrir tískuvikunum í Mílanó og París. Ég hlakka til dæmis mikið til að sjá hvað Nicolas Ghesquière gerir fyrir Louis Vuitton, en fyrir ykkur sem fylgist kannski ekki með þá tók hann við af Marc Jacobs sem listrænn stjórnandi tískuhússins, eftir fimmtán farsæl ár hjá Balenciaga. En aftur til New York því í dag kynnir Michael Kors sína línu - alltaf gaman að sjá hvað hann kynnir - og á morgun fáum við að sjá hvað Ralph Lauren ætlar að bjóða upp á í haust. Ég ákvað að setja saman í færslu nokkrar af mínum uppáhaldsflíkum hingað til frá Suno, Altuzarra, Rag & Bone og Victoria Beckham (ef þið viljið fylgjast með þá pinna ég alltaf einni og einni flík).

Ég myndi líklega seint flokka SUNO sem mitt uppáhaldsmerki en það sem mér líkaði við haustlínu Erin Beatty og Max Osterweis fyrir 2014 var hvað fötin virtust laus í sniðum og þægileg. Buxurnar hér að ofan eru mér að skapi - þetta er liturinn minn - og síða vestið hér að neðan er ein af þessum tímalausu flíkum sem passar svo til við allt; gallabuxur upp á hversdagslegra útlit og t.d. svartar buxur ef tilefnið er fínna.

Það er ekki bara litapalettan fyrir haustið sem höfðar til mín heldur eru það allir jakkarnir og kápurnar sem sjást á tískupöllunum sem heilla. Ég féll kylliflöt fyrir þessari köflóttu kápu sem þeir Marcus Wainwright og David Neville hjá RAG & BONE sýndu fyrir haustið og þess vegna birti ég eina nærmynd líka.

Talandi um kápur. Joseph ALTUZARRA bauð svo til upp á jakka- og kápuveislu fyrir næsta haust. Þessi blái litur á jakkanum og kápunni finnst mér ákaflega fallegur og flott hvernig hann brýtur útlitið upp með öðrum tón á beltinu. Kápuna sýndi hann til dæmis líka í fallegum dökkgrænum lit eingöngu.

VICTORIA BECKHAM er fyrir löngu búin að sanna sig fyrir mér; hún er alveg komin til að vera. Ég verð samt að segja að haustlínan hennar í heildina er kannski ekki mín uppáhalds til þessa. En það sem mér líkar við hana er hvað fötin virka þægileg; þau eru víðari en venjulega. Litapalettan var aðallega svört og hvít og dressið hér að neðan heillaði mig sérstaklega, sennilega vegna þess að það kom mér svolítið á óvart. Það er einhver bóhemstíll á því sem mér líkar og átti ekki von á frá frú Beckham.

myndir:
1-2: Suno / 3-4: Rag & Bone / 5-6: Altuzarra / 7: Victoria Beckham haust 2014 af vefsíðu Vogue US


mánudagur, 10. febrúar 2014

innlit: hvítt og náttúrulegt í Lombardia á Ítalíu

Þetta fallega heimili, sem er líka vinnustofa, er í eigu þýska hönnuðarins og listakonunnar Katrin Arens, sem gerði það upp. Upphaflega var húsið mylluhús sem síðar var breytt í klaustur og það var svo Arens sem breytti því í heimili og vinnustofu. Húsið stendur á landareign í Lombardia á Ítalíu (stutt frá Mílanó) og eins og sést á myndunum sem teknar eru utandyra þá er náttúrufegurð allt um kring. Á ensku útgáfu bloggsins í dag var ég með innlit á sama heimili en þær myndir komu úr annarri átt og sýndu aðra vinkla (fyrir nokkrum árum póstaði ég enn öðru innliti í sama hús - sjá hér). Það er hrái stíllinn á öllu sem heillar mig - allur þessi grófi viður er svo skemmtilegur - og náttúrulegu heimilimunirnir gera heimilið enn persónulegra. Arens sjálf hannaði flest öll húsgögnin og þið getið skoðað fleiri á heimasíðu hennar.

myndir:
Jordi Canosa fyrir Habitania af blogginu French By Design


föstudagur, 7. febrúar 2014

góða helgi


Fyrir ykkur sem hafið ekki fylgst með blogginu frá upphafi þá hef ég þann vana á að pósta alltaf blómum á föstudögum. Peoníur eða bóndarósir eru í miklu uppáhaldi. Nú fer vorið bráðum að koma og þegar líða tekur á vorið þá fara þær að sjást á blómamörkuðum.

mynd:
Artsocial af síðu Elizabeta LKanta/Pinterest


fimmtudagur, 6. febrúar 2014

Georgia O'Keeffe-innblásið borðhald


Fyrir ykkur sem lesið ensku útgáfu bloggsins þá ætti þessi póstur ekki að koma á óvart. Í fyrradag deildi ég Georgia O'Keeffe-innblásnum tískuþætti og í dag var ég með innlit í hús listakonunnar í Abiquiu í New Mexico, en því hefur verið haldið við síðan hún lést árið 1986. Mig langaði til að vera með eitthvað Georgia O'Keeffe-tengt á íslenska blogginu líka og mundi þá eftir myndaþættinum ,South by Southwest' sem birtist í tímaritinu Gourmet fyrir nokkrum árum síðan. Stílisering var í höndum Ruth Cousineau og ljósmyndarinn Mikkel Vang festi herlegheitin á filmu. Hrái stíllinn og hlutlausu litirnir í bland við bláu tónana eru mér að skapi. Hauskúpur dýrana gætu ekki verið meira O'Keeffe. Þær voru innblástur að mörgum verka hennar, en hún safnaði þeim ásamt beinum og steinum í göngutúrum sínum í stórbrotinni náttúru New Mexico-ríkis.

myndir:
Mikkel Vang fyrir Gourmet | stílisering: Ruth Cousineau af blogginu One Part Gypsy


miðvikudagur, 5. febrúar 2014

rýmið 52

Ég vildi að ég gæti sagt ykkur nánar frá þessu baðherbergi en því miður veit ég ekkert um það nema það litla sem birtist í myndatextanum. Mig langar í þessa þykku eikarplötu!

mynd:
Elle Decor Italia, apríl 2011 af Tumblr


þriðjudagur, 4. febrúar 2014

veggvasi frá Herman Cph

Velkomin á nýja seríu á blogginu þar sem ég kem til með að einblína á hvers kyns muni fyrir heimilið sem eru framleiddir úr náttúrulegum efnum. Ég er búin að vera að safna efni í töluverðan tíma og nýja serían verður blanda af heimilismunum, ráðum um stíliseringu, stuttum viðtölum við hönnuði (ég er þegar með þrjá í takinu) og bókaumfjöllunum, til að gefa ykkur einhverjar hugmyndir um það sem koma skal. Skandinavísk hönnun er mér að skapi og það er ánægjulegt að hefja seríuna með veggvasa (wall pocket) frá Herman Cph, sem er danskt hönnunarfyrirtæki með aðsetur í Frederiksberg í Kaupmannahöfn. Hugmyndafræði þeirra er mér að skapi.
Veggvasinn er stílhrein lausn til að koma í veg fyrir uppsöfnun hluta á heimilinu eða til að geyma muni sem eiga ekki að vera sýnilegir. Vasinn er gerður úr húsgagnaáklæði (60% bómull og 40% lín) og er með leðuról með koparhnöppum. Hann er festur á vegg með viðarbita úr eik og skrúfum (áklæðið felur skrúfurnar sem fylgja með).
breidd 36 cm x hæð 47 cm

Mér finnst veggvasinn einnig frábær lausn fyrir þröng eða lítil rými þar veggpláss fyrir hillur er takmarkað. Minn áhugi á vasanum vaknaði með nýju forstofunni okkar. Hún er sæmilega rúmgóð en frá henni er gengið inn í önnur rými hússins og beggja megin við útidyrahurðina eru gluggar. Það er sem sagt ekki gert ráð fyrir fataskáp, bara fatastandi. Ég sé veggvasann fyrir mér á einum vegg til að geyma vettlinga og aðra aukahluti. Yngri dóttirin spurði hvort hún mætti raða mörgum veggvösum á vegg í sínu herbergi undir alla bangsana. Mér finnst sú hugmynd að vísu frábær en miðað við hvað hún á marga þá þarf ég að byrja að leggja til hliðar!

HUGMYNDAFRÆÐI HERMAN CPH
Við höfum þá sýn að hanna og framleiða einföld gæðahúsgögn og fylgja hönnuninni eftir frá teikniborðinu til fullunninnar vöru.
Hjá Herman Cph eru þau bæði hönnuðir og framleiðendur vörunnar; það ferli hefst á vinnustofu þeirra í Frederiksberg. Framleiðslan sjálf er í samvinnu við danska undirverktaka en þau hjá Herman Cph hafa yfirumsjón með öllu, alveg niður í minnstu smáatriði. Hugmyndafræði þeirra endurspeglast í fallegu handbragðinu.

Herman Cph | Rahbeks Allé 6, 1801 Frederiksberg, Danmörk
Sími: +45 26 22 21 54 | Netfang: jonas@hermancph.dk

myndir:
Herman Cph