þriðjudagur, 13. mars 2018

Lestrarkompan 2017: japanskar bókmenntir I

Lestrarkompan 2017: japanskar bókmenntir I · Lísa Hjalt


Á næstu vikum ætla ég að gera mitt besta til að klára Lestrarkompufærslur ársins 2017 og í dag deili ég áliti mínu á þeim bókum sem var að finna á fyrsta listanum mínum með japönskum bókmenntum eingöngu. Það gleður mig alltaf þegar ég heyri frá blogglesendum sem nota listana til að velja sér lestrarefni; enn meira þegar þeir njóta lestursins. Ég hef þegar verið spurð að því hvenær ég ætli að deila næsta japanska lista en ástæðan fyrir því að ég frestaði honum er sú að ég hef ekki klárað The Tale of Genji (sjá neðar). Á þeim lista verður bókin The Pillow Book eftir Sei Shonagon, annað klassískt verk eftir japanska hirðdömu, og mig langar að klára Genji áður en ég les hana. Þetta þýðir að lesendur bloggsins þurfa að bíða aðeins lengur.

№ 9 bókalisti:

· First Snow on Fuji eftir Yasunari Kawabata. Á meðan lestrinum stóð fékk ég það á tilfinninguna að takmörkuð þekking mín á japanskri menningu stæði í vegi fyrir að ég nyti þessara smásagna betur. Mér fannst líka eins og ég hefði fyrst þurft að lesa skáldsögur eftir Kawabata (ein verður á næsta japanska lista, og mér finnst líklegt að einn daginn lesi ég þetta sögusafn aftur). Það voru aðallega þrjár sögur sem höfðuðu til mín: „Silence“, „Nature“ og sú sem gefur bókinni titil sinn, „First Snow on Fuji“. Fuji-sagan er í uppáhaldi, en hún fjallar um tvo fyrrum elskendur sem fara saman í ferðalag þar sem þau sjá fjallið út um lestargluggann. (Ensk þýðing: Michael Emmerich.)

· The Temple of the Golden Pavilion eftir Yukio Mishima. Þegar ég deildi listanum var ég um það bil hálfnuð með bókina og sagði ykkur frá, að því er mér fannst, fráhrindandi söguhetjunni. Mishima moðaði skáldsögu úr sögunni um munkinn sem kveikti í Gullna hofinu árið 1950. Ég man ekki eftir því að hafa fundist nokkur söguhetja eins fráhrindandi. Ég fann ekki nokkra samúð með gæjanum og þegar leið á söguna varð hann sífellt meira ógeðfelldari. Sennilega er það snilldin við bókina. Ég get ekki sagt að hún hafi verið skemmtilestur. Það væri betra að lýsa lestrarupplifuninni sem áhugaverðri. (Ensk þýðing: Ivan Morris.)

· Some Prefer Nettles eftir Jun'ichirō Tanizaki. Stutt skáldsaga um menningarlega togstreitu, þar sem gamla og nýja Japan mætast. Bókin veitir innsýn í heim japansks brúðuleikhúss. Fyrir utan tvíræðan endirinn líkaði mér bókin, mér líkaði prósinn, en mæli ekki með að fólk lesi þessa fyrst ef það hefur aldrei lesið bók eftir Tanizaki. The Makioka Sisters er enn mín uppáhaldsbók eftir hann, og ein af mínum allra uppáhaldsbókum. (Ensk þýðing: Edward G. Seidensticker.)

· The Tale of Genji eftir Murasaki Shikibu. Á bókalistanum voru tvær þýðingar og ég keypti þá eftir Edward G. Seidensticker, sem Everyman's Library gaf út. Eins og ég nefndi áður þá hef ég ekki lokið lestrinum. Ekki það að mér líki ekki bókin, heldur fannst mér eins og þyrfti einhvers konar kennslubók til að skilja þann heim sem hún lýsir. Fyrir löngu síðan skráði ég mig í kúrs um heimsbókmenntir í gegnum netið, sem ég náði aldrei að klára, og á honum var einmitt Genji tekin fyrir. Ég áttaði mig á því að ég hafði enn aðgang að fyrirlestrunum og efninu á netinu og ákvað því að taka lestrarpásu. Því miður fer kúrsinn ekki í gegnum bókina kafla fyrir kafla en fyrirlestrarnir hjálpuðu mér að fá betri innsýn í þennan heim. Núna kýs ég að lesa einn til tvo kafla í einu og velta þeim fyrir mér áður en ég held áfram. Bókin er blanda af prósa og ljóðum og lýsir fornri japanskri menningu (Heian-tímabilið), pólitík og samfélagi keisarahirðarinnar. Siðir hennar voru mér framandi en núna finnst mér ég skilja verkið betur. Ég er heilluð af því hvernig sögupersónurnar eiga samskipti með því að skiptast á ljóðum - aðallega elskuhugar - og hlutverki skrautskriftar. Í verkinu er stöðugt verið að vísa í plöntur og ég stend sjálfa mig að því að fletta myndum af þeim upp á netinu.

· My Neighbor Totoro: The Novel eftir Tsugiko Kubo. Þessi dásamlega bók fyrir börn (á öllum aldri) inniheldur upprunalegu teikningar leikstjórans Hayao Miyazaki (bókin er gerð eftir teiknimyndinni frá Studio Ghibli). Ef þið eruð þreytt á því sem ég kýs að kalla hávaðasamar barnabækur þá vil ég trúa því að þessi komi ykkur á óvart og kæti. Hún fjallar um hina ellefu ára gömlu Satsuki og systur hennar Mei og hvernig þær uppgötva Totoro, skógarveru sem býr yfir göldrum. (Ef hávaðasamar teiknimyndir fá ykkur til að missa trúna á mannkyninu þá get ég mælt með teiknimyndinni, My Neighbour Totoro (1988).)

Þeir sem fylgja mér á Instagram kunna að hafa tekið eftir nokkrum nýjum bókum. Ég deili bráðum № 14 bókalistanum; ég þarf bara að komast á háskólabókasafnið í Bremen áður og grípa þar tvö verk sem ég vil hafa á honum. Til að segja eins og er held ég að sterkar líkur séu á því að ég missi alla sjálfstjórn og fái fleiri bækur að láni á safninu.


miðvikudagur, 7. mars 2018

Ritdómur: Stay with Me eftir Ayobami Adebayo

Ritdómur: Stay with Me eftir Ayobami Adebayo · Lísa Hjalt


Nú þegar verkið Stay with Me, frumraun skáldkonunnar Ayobami Adebayo, er komið út í kiljubroti þá er kominn tími til að deila ritdómnum sem ég hafði lofað (útgefandi er Canongate; á № 12 bókalistanum mínum). Í sannleika sagt er ég ekki mikill aðdáandi nútímaskáldverka, og fyrir utan þetta með tíu árin hneigist ég til að vera sammála rithöfundinum Karl Ove Knausgård, sem nýlega lét hafa eftir sér í viðtali: „I think contemporary fiction is extremely overrated, but I can’t start to name, because I’m also a part of the hype. I think there are maybe one or two great books every 10 years“ (Guardian, 11. feb. 2018). Fallega hönnuð bókarkápan (eftir Rafaela Romaya) laðaði mig að skáldsögunni en ég var efins um að viðfangsefnið höfðaði sérstaklega til mín: hjónaband sem ógnað er af ófrjósemi. Einnig var ég eilítið á verði gagnvart góðu dómunum sem bókin hafði hlotið og hélt að kannski væri á ferðinni enn ein bólan. Hrifning mín af skrifum Chimamanda Ngozi Adichie var ástæða þess að ég las bókina; ég var forvitin að kynnast öðrum hæfileikaríkum rithöfundi frá Nígeríu.

Stay with Me er fallega skrifuð saga sem snerti mig djúpt. Því miður, vegna efniviðarins, eru í henni einum of margir harmleikir, sem truflaði mig ekki að lestri loknum, einungis á meðan á honum stóð. Vegna söguþráðarins, hversu mikilvægt það er að forðast að upplýsa nokkuð um hann, er ekki auðvelt að gagnrýna verkið. En svona hljómar sögulýsingin á kápunni: „Yejide vonast eftir kraftaverki, eftir barni. Það er allt sem eiginmaður hennar þráir, allt sem tengdamóðir hennar þráir, og hún hefur reynt allt - erfiðar pílagrímsferðir, læknisráðgjöf, bænir til Guðs. En þegar ættingjarnir krefjast þess að eiginmaðurinn taki sér aðra konu reynist það Yejide um megn. Afleiðingarnar eru afbrýðisemi, svik og örvinglun.“ Örvinglun er lykilorðið. Það er harmþrungið að fylgjast með öfgafullum tilburðum Yejide að verða barnshafandi.

Sögusviðið er aðallega ólgandi Nígería níunda áratugarins. Sögumennirnir eru tveir, hin barnalega Yejide, sem er komin út á ystu brún í örvæntingu sinni að eignast barn, og eiginmaður hennar Akin. Aðrar mikilvægar persónur eru Dotun, bróðir Akin, og móðir þeirra Moomi (sem ýtti á alla takkana mína; hún minnti mig á tengdamóðurina í Half of a Yellow Sun eftir Adichie) og Funmi, eiginkona númer tvö. Það sem fékk mig til að fletta síðum skáldsögunnar af ákafa var að í hvert sinn sem ég hélt að söguþráðurinn væri orðinn fyrirsjáanlegur þá kom rithöfundurinn mér á óvart með óvæntum viðsnúningi, sem ég sá aldrei í aðsigi. Til að gera það svona meistaralega þá þurfti hún tvo sögumenn, Yejide og Akin.

Hjónaband þeirra byggist á lygi og hvort þú, lesandinn, trúir sögu þeirra ræðst af vilja þínum til að samþykkja þessa lygi þegar hún opinberast (að koma með vísbendingu um hana myndi eyðileggja lestarupplifunina). Þrátt fyrir allar raunirnar í verkinu fletti ég síðunum af spenningi, en verð að viðurkenna að ég staldraði aðeins við þessa lygi og efaðist. Svo las ég áfram og sannfærði mig um að Yejide væri einfaldlega svona auðtrúa því hún hefði verið alin upp móðurlaus („I had watched them arrive and evolve in my father's house, all those different mothers who were not mine“).

Þrátt fyrir erfiðleikana sem persónurnar standa frammi fyrir er heilmikil fegurð í skáldsögunni, og gamansamar aðstæður. Enn mikilvægara, nígerísk menning og þjóðsögur. Fornar sögur, trú og hjátrú sem fær augabrúnir Vesturlandabúa til að rísa. Eitt dæmi er sena þar sem Yejide klifrar upp „the Mountain of Jaw-Dropping Miracles“, sem á íslensku gæti kallast Kraftaverkafjallið sem fær mann til missa kjálkana, þar sem hún dansar við geit - og setur hana á brjóst! - í örvæntingarfullri von um kraftaverk („I needed a miracle fast. The only way I could save myself from polygamy was to get pregnant before Funmi“). Maður getur ekki annað en velt því fyrir sér hvernig koma hefði mátt í veg fyrir óþarfa sársauka og þjáningar ef Yejide og Akin hefðu bara sest niður og rætt málin af alvöru.

Þegar uppi er staðið erum við öll mennsk og þurfum að glíma við þær væntingar sem samfélagið gerir til okkar. Við höfum val um láta þær stjórna lífi okkar eða að finna okkar eigin leið. Til að uppgötva hvað Yejide ákveður að lokum að gera þarftu að lesa bókina. Á meðan þú gerir það mun ég bíða eftir tilkynningu um næstu skáldsögu Adebayo. Ný, hæfileikarík skáldkona er stigin á bókmenntasviðið.


Stay with Me
Eftir Ayobami Adebayo
Canongate
Innbundin, 304 blaðsíður
KAUPA


þriðjudagur, 30. janúar 2018

Edinburgh: Waterstones bókabúðin & Calton Hill

Edinburgh: Waterstones bókabúðin & Calton Hill · Lísa Hjalt


Eftir að hafa skellt okkur nokkrum sinnum til Edinburgh síðasta sumar þá finnst mér ég þegar geta tengt við upplifun Alan Rickman heitins af skosku höfuðborginni: „I always feel that when I come to Edinburgh in many ways I am coming home“ (heimild). Við vorum í Edinburgh á meðan Fringe-listahátíðin stóð yfir, þegar borgin iðar af lífi og menningu, og sköpuðum ógleymanlegar minningar. Waterstones á Prince Street, West End-útibúið þeirra, rataði á lista okkar yfir heimili að heiman: Bókabúðin, sem er á fjórum hæðum, er Fyrirheitna land bókaunnandans með frábært úrval bóka og afslappandi andrúmsloft, svo ekki sé minnst á kaffihúsið, W Café, með stórkostlegu útsýni yfir til Kastalahæðarinnar.

Edinburgh: Waterstones bókabúðin & Calton Hill · Lísa Hjalt
Kastalahæðin séð frá W Café

Til að forðast mannmergðina á götunum gengum við í gegnum Princes Street-garðana á leið okkar frá Waverley-stöðinni út í Waterstones, nutum veitinga og dvöldum lengur en við ætluðum okkur - við gáfum okkur tíma fyrir Waterstones í hverri ferð. Á bak við bygginguna, samhliða Princes St og George St, liggur hin heillandi Rose Street, sem er þröng gata, laus við umferð, þar sem má finna allt að því óteljandi veitingahús og krár.

Edinburgh: Waterstones bókabúðin & Calton Hill · Lísa Hjalt

Edinburgh: Waterstones bókabúðin & Calton Hill · Lísa Hjalt
W Café, bókakaffi Waterstones

Victoria Street, í gamla borgarhlutanum, Old Town

Í Edinburgh gengum við út um alla miðborgina: upp að Kastalanum og niður á Grassmarket, upp hina frægu götu Victoria Street, meðfram Royal Mile (High St), þar sem við skoðuðum ýmsa króka hennar og kima, og þaðan í áttina að Calton Hill. Upp þrepin að hæðinni fórum við til að njóta glæsilegs útsýnis yfir borgina. Við lögðum það meira að segja á okkur að labba upp þrepin í Nelson Monument. Það var þess virði.

Princes Street séð frá Calton Hill

Edinburgh: Calton Hill · Lísa Hjalt
Kastalinn frá Calton Hill, og til hægri, Scott Monument, minnisvarði í gotneskum stílmiðvikudagur, 17. janúar 2018

Textíll og Persar

Schuyler Samperton Textiles · Lísa Hjalt


Ég kann að hafa lokkað ykkur hingað á bloggið á fölskum forsendum því þessi færsla hefur ekkert með persneskan textíl að gera heldur var það Persinn okkar, sem sagt kötturinn, sem stalst inn í myndarammann þegar ég var að ljósmynda efni frá Schuyler Samperton Textiles. Þetta var á rólegum degi, sólin var í felum en öðru hvoru lýsti hún upp bókahornið okkar, og yfir allt kaffiborðið hafði ég dreift bókum, tímaritum og textílprufum. Að sjálfsögðu var kaffibollinn minn þarna líka.

Ákveðin litapaletta hafði myndast í hausnum á mér og skyndilega áttaði ég mig á því hversu fallega hún small saman við forsíðuna á The World of Interiors, janúartölublaðinu 2018. Ég valdi textílprufurnar sem ég þurfti, greip myndavélina og hafði kannski smellt af fjórum eða fimm myndum þegar persneski prinsinn minn mætti á svæðið ... og lét ekki hagga sér (ég hefði átt að vita það, honum finnst gott að sofa inn á milli bókanna minna). Ég reyndi að vinna í kringum hann en hann var alltaf að birtast í rammanum. Síðasta myndin sýnir hvernig þetta endaði: hann fékk sínu fram og ég þurfti að kalla þetta gott.

Schuyler Samperton Textiles · Lísa Hjalt
Caledonia, Doshi og Firefly mynstur frá Schuyler Samperton Textiles

Aftur að litapalettunni. Ég valdi þrjú mynstur frá Schuyler Samperton Textiles. Blómamynstrið með fuglamótífinu kallast Caledonia, sem sést hér í litunum Peony (sjá í forgrunni að ofan) og Imperial (undir bollanum). Efnið með lauslega prentuðu blómunum er Doshi, í Hibiscus og Aubergine. Á milli þeirra er efnið Firefly í litnum Plum. Sá blái kallast Deep End.


Persneskur köttur mætir á svæðið.

The World of Interiors & Schuyler Samperton Textiles · Lísa Hjalt
Mynd af svefnherbergi úr tímaritinu The World of Interiors, janúar 2018/Simon Upton

Forsíða tímaritsins The World of Interiors, janúar 2018, var tekin af ljósmyndaranum Simon Upton. Innlitið er á heimili Roberto Gerosa, listræns stjórnanda í Mílanó, sem umbreytti vöruhúsi í heimili og vinnustofu. Svefnherbergið er textílhimnaríki.
Sofandi persi og Schuyler Samperton Textiles · Lísa Hjalt


Allt er gott sem endar vel.


sunnudagur, 31. desember 2017

Nýjar bækur | Gleðilegt nýtt ár

Nýjar bækur · Lísa Hjalt


Á þessum síðasta degi ársins sit ég við tölvuna með mynstraðan túrban á höfðinu, jólabjór í glasi og tortilla-flögur í skál; steikin er á hægeldun í ofninum, gengið mitt er að horfa á Hobbitann og ekkert betra fyrir mig að gera en að blogga um nýjar bækur. Ég ætlaði að deila þessari færslu fyrr í desember en vegna tímaleysis ýtti ég henni til hliðar. Um jólin fór hún að leita á mig og þar sem flestar bækurnar á listanum, skáldverk og kaffiborðsbækur, voru gefnar út árið 2017 þá fannst mér ég eiginlega þurfa að deila henni áður en nýja árið gengi í garð. Ég er ekkert að eyða tíma í athugasemdir við hverja bók þar sem allir tenglarnir fyrir utan einn leiða ykkur á síðu Book Depository, þar sem þið finnið stutta kynningu á þeim öllum. Ég geri ráð fyrir því að allar bækurnar á listanum fyrir ofan smámyndirnar muni einn daginn rata á bókalista hér á blogginu því mig langar að lesa þær allar. Ég óska ykkur friðar á komandi ári.

Nýjar bækur:
· Spy of the First Person  eftir Sam Shepard (Knopf). Síðasta verkið fyrir andlát hans í júlí á þessu ári.
· Debriefing: Collected Stories  eftir Susan Sontag (FSG). Ritstj. Benjamin Taylor.
· Sing, Unburied, Sing  eftir Jesmyn Ward (Bloomsbury). Bókin sem hlaut National Book Award 2017.
· The Origin of Others  eftir Toni Morrison (Harvard UP).
· In Search of Ancient North Africa: A History in Six Lives  eftir Barnaby Rogerson (Haus Publishing).
· The Rub of Time  eftir Martin Amis (Random House).
· Philip Roth: Why Write? Collected Nonfiction 1960-2013  eftir Philip Roth (Library of America).


· Persian Art: Collecting the Arts of Iran for the V&A  eftir Moya Carey (V&A).
· Modern Art in Detail: 75 Masterpieces  eftir Susie Hodge (Thames & Hudson).
· Henri Cartier-Bresson: The Decisive Moment  eftir Henri Cartier-Bresson (Steidl). Endurútgáfa bókar frá árinu 1952 sem geymir bestu verk Cartier-Bresson. Forsíðan er eftir Henri Matisse.
· The Atlas of Beauty: Women of the World in 500 Portraits  eftir Mihaela Noroc (Penguin).
· Morris  eftir Charlotte and Peter Fiell (Taschen). Ríkulega myndskreytt bók um ævi og störf hönnuðarins William Morris (1834-1896).
· Map Cities: Histoires de cartes  eftir Francisca Mattéoli (Chêne). Eingöngu fáanleg á frönsku en verður vonandi þýdd á ensku síðar. Ég hef fjallað um Map Stories eftir Mattéoli hér á blogginu.
· Haute Bohemians  eftir Miguel Flores-Vianna (Vendome Press).

Úr bókinni Haute Bohemians eftir Miguel Flores-Vianna, bls.80-81, Vendome Press