fimmtudagur, 23. nóvember 2017

Stríðsdagbækur Astrid Lindgren: A World Gone Mad

Stríðsdagbækur Astrid Lindgren: A World Gone Mad · Lísa Hjalt


Á bókalista sem ég birti í mars var að finna stríðsdagbækur Astrid Lindgren, A World Gone Mad: The Diaries of Astrid Lindgren, 1939-45, sem bókaútgáfan Pushkin Press gaf út á ensku síðasta haust (þýð. Sarah Death). Sænska barnabókahöfundinn Lindgren og dásamlegu persónurnar sem hún skapaði þarf vart að kynna fyrir íslenskum lesendum. Ég man enn eftir nestistímum í barnaskóla þegar kennarinn las Á Saltkráku og bókin sem ég las í óteljandi skipti og er mér hvað kærust er Bróðir minn Ljónshjarta. Sem barn spáir maður held ég ekki mikið í persónulegt líf höfundar heldur gleymir sér bara í þeim heimi sem hann skapar. Dagbækur hennar sýndu mér því hlið á höfundinum sem ég vissi ekkert um: Lindgren sem ung móðir að reyna að ná utan um hrylling heimsstyrjaldarinnar, ekki laus við sektarkennd í hlutlausri Svíþjóð.

Hefur ekki nóg verið skrifað um síðari heimsstyrjöldina; hafa dagbækur Lindgren einhverju við það að bæta? Það sem mér þótti áhugavert við lesturinn er að hún er tæplega 32 ára gömul þegar stríðið brýst út og finnur greinilega hjá sér þörf fyrir að halda utan um framgang þess. Hún safnar blaðaúrklippum og skrifar mislangar færslur í leðurbundnar bækur, sautján talsins sem fundust á heimili hennar í Dalagatan í Stokkhólmi eftir andlát hennar árið 2002 (gefnar út í Svíþjóð árið 2015). Bókin inniheldur eingöngu færslurnar sjálfar, og nokkrar myndir, og það sem kom mér á óvart var hversu nákvæm hún var. Ég hélt að ég væri að fara að lesa persónulegar hugrenningar Lindgren en áttaði mig fljótt á því að þetta var bók um stríð á mannamáli.
Stríðsdagbækur Astrid Lindgren: A World Gone Mad · Lísa Hjalt


Lindgren kemur sér beint að efninu og er laus við óþarfa dramatík þó að hún upplifi að sjálfsögðu ótta og reiði. Fyrstu færsluna skrifar hún 1. september 1939 þegar Þjóðverjar ráðast inn í Pólland. Með nokkuð stöðugri rödd ber hún friðsamt lífið í Svíþjóð á stríðstímum - þar sem engin átök áttu sér stað; bara áhrif skömmtunar - við hryllinginn sem á sér stað annars staðar í Evrópu, einkum í nágrannalöndunum Finnlandi og Noregi. Þegar hún fer að vinna fyrir sænsku leyniþjónustuna við ritskoðun pósts erlendis frá þá færist stríðið enn nær; hún minnist einmitt á persónulegt bréf Gyðings („profoundly sad Jewish letter“) á meginlandinu til vinar í Svíþjóð.

Um jólin 1944 dregur af henni og niðurbrot á sér stað, sem margir lesendur sem ekki þekkja Lindgren gætu túlkað sem afleiðingu stríðsins og vinnu hennar: „I've had a hell of a six months this second half of 1944 and the ground beneath me has been shaken to its very foundation; I'm disconsolate, down, disappointed, often melancholy - but I'm not really unhappy.“ Hún skrifar ekki ástæðuna í dagbókina en þeir sem hafa lesið um líf Lindgren vita að það voru vandræði í hjónabandi hennar. Eiginmaður hennar hafði kynnst annarri konu og farið fram á skilnað, sem hann svo fylgdi ekki eftir.

Dagbókaskrifin komu á undan barnabókum Lindgren, en á síðunum má segja að rithöfundur verði til því á stríðsárunum er hún að skrifa sínar fyrstu bækur: „I'm the happiest when I write.“ Þetta er samt ekki eiginleg dagbók rithöfundar eins og margir vilja meina, ekki dagbók með færslum um skrif og stíl. Fyrsta barnabókin hennar, um stúlkuna Britt-Mari, var gefin út 1944 og fyrir hana hlaut hún verðlaun. Í mars 1944 þegar dóttir hennar er rúmliggjandi með mislinga er hún að skrifa handritið að Línu langsokk og á lokasíðum bókarinnar má sjá mynd af höfnunarbréfinu sem henni barst eftir að hún sendi inn handritið í apríl 1944. Ári síðar talar hún aftur um Línu, um endurskrif - „to see if I can make anything of that bad child.“ Við vitum öll hvernig það endaði.

Ég get mælt með þessari bók sem er fljótlesin og, eins og áður sagði, sýndi mér nýja hlið á mínum uppáhaldsrithöfundi úr æsku. Það eina sem ég hef út á hana að setja er smávægilegt: mér fannst skorta fleiri myndir. Þarna eru myndir af Lindgren og fjölskyldu hennar en ég hefði viljað sjá meira af sjálfum færslunum og blaðaúrklippunum, sérstaklega með sumum lykilorrustum sem Lindgren fjallar um í færslum sínum. Það hefði hjálpað til að tengja á sjónrænni hátt við hennar upplifun af stríðinu.


A World Gone Mad: The Diaries of Astrid Lindgren, 1939-45
Eftir Astrid Lindgren
Pushkin Press
Innbundin, 240 blaðsíður, myndskreytt
KAUPA


mánudagur, 30. október 2017

№ 12 bókalisti ... frá Landi hugmyndanna

№ 12 bókalisti | Ayobami Adebayo, Peter Hedges, Isambard Wilkinson · Lísa Hjalt


Ég er mánuði seinna á ferðinni með № 12 bókalistann - þessi bókastafli lítur vel út, ekki satt? - því skyndilega varð ég upptekin við pökkun. Þá meina ég eins og að flytja, til Þýskalands. Ich bin ein Bremer! Þessi yfirlýsing mín vegur ekki alveg jafn þungt og sú frá Kennedy, Ich bin ein Berliner ... nema fyrir okkur fjölskylduna. Við erum að koma okkur fyrir á nýju heimili og að kanna umhverfið okkar. Mitt fyrsta verk var að ganga frá bókunum og útbúa notalegan lestrarkrók, og svo, til að finnast ég virkilega vera komin heim, að setja upp eldhús og gera fyrstu föstudagspizzurnar. Í Bremen er fjöldinn allur af kaffi- og veitingahúsum og þangað sem ég hef komið hefur mér líkað stemningin, afslöppuð og tilgerðarlaus. Ég er þegar búin að kíkja í tvær bókabúðir í miðbænum en á eftir að fara á bókasafn. Vegna flutninganna hefur tími til lesturs verið af skornum skammti en ég er búin með fyrstu tvö verkin á listanum og komin vel áleiðis með nokkur önnur. Þrír útgefendur útveguðu bækur fyrir listann og fyrir það ber að þakka: Canongate [1], Eland Books [2] og Fox, Finch & Tepper [3]. Ég kem til með að gagnrýna þessar þrjár á blogginu síðar meir.

№ 12 reading list:
· South and West: From a Notebook  eftir Joan Didion
· Stay with Me  eftir Ayobami Adebayo [1]
· Travels in a Dervish Cloak  eftir Isambard Wilkinson [2]
· What's Eating Gilbert Grape  eftir Peter Hedges [3]
· The Unwomanly Face of War  eftir Svetlana Alexievich
· Autumn  eftir Ali Smith
· Hitch-22: A Memoir  eftir Christopher Hitchens
· How Fiction Works  eftir James Wood
· Against Interpretation and Other Essays  eftir Susan Sontag


Yfirleitt eru nokkrar bókasafnsbækur á listunum mínum en í þetta sinn eru bækurnar mínar eigin. Íslensk vinkona mín var svo sniðug að gefa mér í afmælisgjöf veglegt gjafakort í Waterstones, sem ég notaði til að kaupa verkin eftir Didion, Sontag, Wood og Alexievich (ef þið fylgist með á Instagram hafið þið kannski tekið eftir því). Síðar var ég að skoða verk eftir Christopher Hitchens heitinn í bókabúð þegar ég rak augun í æviminningar hans, sem höfðu farið fram hjá mér - svo glöð að ég keypti bókina. Að lesa Autumn eftir Smith þetta haust var upplagt og eitthvað segir mér að ég eigi eftir að lesa hennar nýjustu, Winter, á komandi vetri. Ég hef einnig augastað á nokkrum íslenskum titlum sem ég væri til í að fjalla um á blogginu. Og ekki má gleyma nýrri útgáfu þetta haust sem ég er mjög spennt fyrir: nýjustu bók Patti Smith, Devotion. Skrif hennar eru yndisleg.
№ 12 bókalisti | Ayobami Adebayo, Peter Hedges, Isambard Wilkinson · Lísa Hjalt


Þessi þrjú verk kem ég til með að gagnrýna síðar:

Bókaútgáfan Canongate sendi frá sér Stay with Me, fyrstu skáldsögu Ayobami Adebayo, sem er ungur rithöfundur frá Nígeríu. Ég ætla rétt að vona að hún sé nú þegar að skrifa aðra bók. Án þess að gefa upp söguþráðinn langar mig að deila sögulýsingunni: „Yejide vonast eftir kraftaverki, eftir barni. Það er allt sem eiginmaður hennar þráir, allt sem tengdamóðir hennar þráir, og hún hefur reynt allt - erfiðar pílagrímsferðir, læknisráðgjöf, bænir til Guðs. En þegar ættingjarnir krefjast þess að eiginmaðurinn eignist aðra konu reynist það Yejide um megn. Afleiðingarnar eru afbrýðisemi, svik og örvinglun.“

Fox, Finch & Tepper er bókaútgáfa sem sérhæfir sig í útgáfu skáldverka sem þegar hafa fest sig í sessi og eiga það skilið að vera gefin út að nýju. What's Eating Gilbert Grape eftir Peter Hedges er fullkomið dæmi. Ég hafði bara séð kvikmyndina, sem skartar þeim Johnny Depp, Leonardo DiCaprio og Juliette Lewis, og mér finnst bókin frábær. Ritstíll Hedges er dásamlegur.

Frá útgáfunni Eland Books, sem sérhæfir sig í útgáfu ferðarita, kom nýverið bókin Travels in a Dervish Cloak eftir Isambard Wilkinson. Hann var á unglingsaldri þegar hann kom fyrst til Pakistan og á meðan Stríðið gegn hryðjuverkum (the War on Terror) stóð yfir starfaði hann þar sem fréttaritari. Ég byrjaði ekki á bókinni fyrr en almennilegt netsamband var komið í nýja húsið því ég vildi geta flett upp stöðum og ýmsum atriðum. Góð ferðaskrif stuðla einmitt að slíku. Ég held að Wilkinson eigi eftir að kenna mér heilmikið um Pakistan og menningu landsins.

Bis bald!


þriðjudagur, 12. september 2017

Schuyler Samperton Textiles - ný hönnun

Schuyler Samperton Textiles, hönnun, mynstur, efni: Nellcote, Cordoba, Celandine · Lísa Hjalt


Heimur textílhönnunar auðgaðist á árinu þegar Schuyler Samperton, innanhússhönnuður með aðsetur í Los Angeles, tók af skarið og kynnti sína eigin línu undir nafninu Schuyler Samperton Textiles. Með framleiðslu efnanna rættist langþráður draumur Samperton, sem hefur safnað textíl frá unglingsaldri. Orðið glæsilegt var það fyrsta sem kom upp í hugann þegar ég sá úrvalið í fyrsta sinn, en það samanstendur af átta efnum úr 100% líni, fáanlegum í mörgum litum. Í tvo mánuði hef ég dáðst að smáatriðum í mynstrunum og spurt sjálfa mig að því, Hvar byrja ég eiginlega að deila þessari fegurð?

Schuyler Samperton Textiles, hönnun, mynstur, efni: Nellcote
Nellcote/Petunia frá Schuyler Samperton Textiles

Þið kunnið að hafa tekið eftir efnum frá Schuyler Samperton Textiles á Instagram-síðunni minni í sumar, en fyrir fyrstu bloggfærsluna valdi ég Nellcote/Apricot í aðalhlutverk, bóhemískt mynstur sem fyrir mér virðist á einhvern hátt bregða á leik. (Smáatriðið að ofan sýnir efnið í litnum Petunia.)

Nellcote/Apricot er efni og litur sem mig langar að nota á einn púða eða tvo í nýju stofunni minni, þegar við höfum keypt nýjan sófa - ég er að flytja, fer bráðum að pakka í kassa! Ég hef verið að leika mér með hugmyndir og í hvert sinn er þetta mynstrið sem kallar á mig, auk þess sem litirnir í því passa vel við þann textíl sem ég á nú þegar og þann sem ég hef augastað á.

Schuyler Samperton Textiles, hönnun, mynstur, efni: DoshiSchuyler Samperton Textiles, hönnun, mynstur, efni: Nellcote, Caledonia, Celandine · Lísa Hjalt

Til vinstri: Efnið Doshi/Persimmon. Til hægri: Í forgrunni, Nellcote/Apricot; efst, Caledonia/Mandarin; neðst til vinsti, Celandine/Sunset

Af efnunum átta er það Doshi sem er með dauflega prentuðu mynstri, einföldu blómamótífi. Það er fáanlegt í fimm litum sem má auðveldlega nota til að draga fram einhvern annan lit og skapa þannig fallega hannað rými. Fyrir þessa færslu valdi ég Doshi í litnum Persimmon en ég er líka skotin í bláu afbrigði, Doshi/Lake. Blómamynstrið sem sést í mynd minni hér að ofan kallast Celandine/Sunset.

Síðar á blogginu langar mig að fjalla um efnið Caledonia í sér færslu. Það er blómamynstrið með fiðrildinu sem einnig sést á myndinni hér að ofan, í litnum Mandarin. Efnið er einnig með fuglamótífi.
Schuyler Samperton Textiles, hönnun, mynstur, efni: Nellcote, Cordoba, Celandine · Lísa Hjalt


Önnur textílhönnun frá Schuyler Samperton sem ég er líka hrifin af og langar á nota á nýja heimilinu er Cordoba, efni með paisley-mótífi, sem sést brotið saman í litnum Spice í mynd minni hér að ofan - sjá einnig nærmynd hér að neðan (það glittir í efnið í bláa litnum Indigo undir keramikvasanum). Ég á enn eftir að velja á milli Cordoba/Spice og Cordoba/Dahlia.

Ég ætla að fjalla nánar um fleiri efni síðar en á heimasíðu Schuyler Samperton Textiles má skoða línuna í heild sinni og þar er einnig að finna lista yfir sýningarsali.

Schuyler Samperton Textiles, hönnun, mynstur, efni: Cordoba
Cordoba/Spice frá Schuyler Samperton Textiles

Fyrir nokkrum árum deildi ég innanhússhönnun Schuyler Samperton á ensku útgáfu bloggsins. Þeir lesendur sem eru hrifnir af suzani muna kannski eftir þessari tilteknu færslu þar sem ég birti mynd, ásamt öðrum, af svefnherbergi (skrollið niður) í West Hollywood, sem tilheyrir húsi sem hún hannaði. Hún nam listasögu og skreytingarlistir við Trinity College, NYU og Parsons School of Design, og í fjögur ár vann hún fyrir ameríska innanhússhönnuðinn Michael S. Smith. Verkefni hennar á sviði innanhússhönnunar eru aðgengileg á netinu. Í septembermánuði ætla ég að deila myndum af mínum uphaldsrýmum eftir Schuyler Samperton á Tumblr-síðu Lunch & Latte.


Schuyler Samperton, innanhúss-og textílhönnuður, og hundurinn hennar. © Schuyler Samperton Textiles/Alexandre Jaras