föstudagur, 29. júní 2018

Nýjar bækur | Sumar 2018

Nýjar bækur | Sumar 2018 · Lísa Hjalt


Tell me, what is it you plan to do
with your one wild and precious life?

Undanfarnar vikur hef ég verið að hugsa um þessar línur bandaríska ljóðskáldsins Mary Oliver (úr ljóðinu The Summer Day sem birtist í New and Selected Poems, Vol. One) og hef ekki enn fundið svar. Það er óhætt að segja að einföld spurning hennar komi huganum á flug. Mér finnst eins og ég sé ekki alveg lent í Þýskalandi. Ekki misskilja mig, mig langaði að flytja aftur til meginlandsins - menningin og lífsstíllinn í þessum hluta Evrópu á betur við mig - en hélt að á þessum tímapunkti hefði ég komið mér betur fyrir. Ég hef verið í leit að hlutastarfi þar sem ég get æft þýskuna áður en ég tek að mér meira krefjandi verkefni en hef ekki fundið neitt. Bókabúð svaraði ekki einu sinni tölvupósti frá mér. Hversu írónískt er það? Góðu fréttirnar eru þær að elsta dóttirin hefur lokið námi sínu í Skotlandi. Við fórum að sækja hana, tókum ferju frá Calais yfir Ermasundið og fengum að dást aftur að Hvítu klettunum í Dover.

Uppköstin bíða í röðum en mig langaði að enda þessa bloggþögn á lista yfir nýjar bækur. Ég er spennt fyrir nýrri skáldsögu Michael Ondaatje, Warlight, hans fyrstu í sjö ár. Ef þið eruð hrifin af verkum hans þá vil ég benda ykkur á nýlegt viðtal Eleanor Wachtel við hann fyrir CBC Radio. Hlaðvarpið hennar Writers and Company er eitt af þeim bestu fyrir bókaunnendur.

Nýjar bækur:
· Warlight  eftir Michael Ondaatje (Vintage). Síðasta bókin sem ég las eftir hann var Anil's Ghost, og á undan henni, The English Patient. Líkaði báðar. Þið kunnið nú þegar að hafa tekið eftir bókarkápunni í hliðardálki bloggsins og megið búast við að sjá hana á bókalista í náinni framtíð.
· The Beautiful Summer  eftir Cesare Pavese (Penguin). Þroskasaga sem gerist á Ítalíu á fjórða áratug síðustu aldar. Kom fyrst út árið 1949.
· The Years  eftir Annie Ernaux (Fitzcarraldo, í þýðingu Alison L. Strayer). Þetta er breska útgáfan en æviminningar hennar á ensku hafa þegar komið út í BNA. „[A] masterpiece memoir of French life“ segir í titli ritdóms The Guardian. Hann kveikti áhuga minn og ég ætla að lesa bókina þó að ég hafi aldrei lesið neitt eftir höfundinn.
· There There  eftir Tommy Orange (Vintage). Ein af tveimur frumraunum á þessum lista yfir nýjar bækur, gerist í samfélagi Indjána í Oakland, Kaliforníu, þar sem höfundurinn fæddist og ólst upp. Þessi bók hefur fengið góða dóma. Flott bókarkápa.


· 100 Books That Changed the World  eftir Scott Christianson og Colin Salter (Rizzoli). „A tour of global history by way of history’s most important scrolls, manuscripts, and printed books, from Plato and Homer to the twenty-first century—100 must reads.“ Bók um bækur sem gæti verið gaman að hafa á kaffiborðinu. Þessi kom út í vor en mig langaði að hafa hana á listanum.
· The Collected Stories of Machado de Assis  (Liveright Publishing, í þýðingu Margaret Jull Costa + Robin Patterson). Í sannleika sagt man ég ekki eftir að hafa heyrt um Joaquim Maria Machado de Assis (1839-1908), einn mesta rithöfund Brasilíu, þar til ég las ritdóm Parul Sehgal fyrir The New York Times. Ég hengi höfuðið í skömm. Ef ykkur líkar smásögur þá ætti það að gleðja ykkur að safnið er 930 blaðsíður.
· A Place for Us  eftir Fatima Farheen Mirza (Vintage). Frumraun höfundar sem fjallar um indversk-múslimska fjölskyldu sem undirbýr brúðkaup elstu dótturinnar. Útgáfustjórinn Sarah Jessica Parker valdi bókina fyrir útgáfumerkið SJP for Hogarth. Ég hef oft varann á þegar stórstjörnurnar leggja nafn sitt við eitthvað en ég veit að Parker er ötull lesandi og hef heyrt hana mæla með góðum bókum. Höfundurinn, sem ólst upp í Kaliforníu en á rætur að rekja til Indlands, var nýlega í viðtali í The Guardian, sem þið hafið kannski áhuga á.
· The Outsider  eftir Stephen King (Hodder & Stoughton). Að lokum, ný spennusaga fyrir alla King-aðdáendur.

Café Tölke í Schnoor-hverfinu í Bremen, Þýskalandi · Lísa Hjalt
Café Tölke í Schnoor-hverfinu, Bremen

Í vor ætlaði ég að deila myndum frá Bremen á blogginu en komst aldrei í það. Sumarið kom snemma og á hlýjum sunnudegi hjólaði ég inn í miðbæ og fór í göngutúr um gamla Schnoor-hverfið. Það var of sólríkt fyrir myndatökur en ég tók þessa mynd sem fangar stemninguna fyrir framan Café Tölke, eitt af fyrstu kaffihúsunum sem ég fór á eftir að við fluttum hingað. Lítið og sjarmerandi kaffihús sem sérhæfir sig í kökum og bökum. Þegar þið finnið borð og setjist niður með kaffibolla og eplastrúdel gætuð þið fengið það á tilfinninguna að svo lengi sem þessi staður helst opinn verður veröldin í lagi. Þannig er andi sumra kaffihúsa.

myndir mínar | 1: birt á Instagram, 05/03/2018 | 2: Instagram, 28/05/18


miðvikudagur, 11. apríl 2018

Schuyler Samperton Textiles: bláir og rauðir tónar

Schuyler Samperton Textiles: bláir og rauðir tónar · Lísa Hjalt


Þegar ég er ekki með andlitið grafið ofan í bók þá má líklega sjá mig dásama mynstraðan textíl með heillandi mótífum (ég óska þess oft að hafa stundað nám í skreytingarlist). Í vikunni komst ég að því að bráðum bætist ný hönnun í línu Schuyler Samperton Textiles, sem kom á markað í fyrra. Ég bíð spennt. Á blogginu hef ég nú þegar kynnt nokkur af mynstrum hennar og í dag eru það blá og rauð efni sem ég lék mér að því að raða saman, með áherslu á mynstrin Overlea, Cordoba og Nellcote. Einnig langaði mig að sýna ykkur lítið brot úr innliti í Lamb's House í Leith, sem er í eigu íslensks arkitekts og birtist í House & Garden UK árið 2016.

En fyrst er það textíllinn. Bláa og rauða blómamynstrið er Overlea og þessi litur kallast Vermillion. Ég ætla að nota hann til að skreyta einn krók á heimilinu þegar ég er búin að kaupa nokkrar nauðsynjar. Ég held að efnið í þessum sama lit sómdi sér vel sem borðdúkur. Mynstrið í bláum tón kallast Marine, sem sést við hliðina á myndinni af herberginu. Hitt samanbrotna, bláa efnið er Cordoba í Indigo; hönnunin er með paisley-mótífi. Röndótta efnið er Pendleton í litnum Brighton.

Mynstrið Nellcote er hönnun sem ég hef þegar deilt og fæ ekki nóg af. Efnaprufan með spjaldinu sýnir það í bláum tón sem kallast Montego. Efst í hægra horninu sést glitta í það í litnum Apricot, sem er minn uppáhalds í fáanlegum litum þessa mynsturs (bláa efnið undir því er Firefly í litnum Deep End). Í eldri bloggfærslum þar sem textílhönnun Samperton hefur verið til umfjöllunar hef ég alltaf sýnt mynstrið Doshi; það sést undir lattebollanum í bláa tóninum Lake. Vinsamlegast fylgið tenglunum á mynstrin til að skoða fáanlega liti á vefsíðu Schuyler Samperton Textiles.

Lamb's House stofa, House & Garden UK · Davide Lovatti | Lönsj & Latte
Úr tímaritinu House & Garden UK: stofan í Lamb's House/Davide Lovatti

Svefnherbergið á myndinni minni tilheyrir Lamb's House í Leith (Edinborg), sem var byggt árið 1610 og hefur verið uppgert. Eigendurnir eru arkitektar sem sérhæfa sig í húsfriðun og það vill svo til að eiginkonan er íslensk, Kristín Hannesdóttir. Ég man eftir því að hafa kolfallið fyrir þessu rými, textílnum og viðarbitunum í loftinu, þegar ég sá innlitið í fyrsta sinn í tímaritinu House & Garden UK (ljósmyndari Davide Lovatti). Hér má einnig sjá stofuna og vinnustofu Kristínar, en tunnulaga loftið í henni er unnið úr lerki frá Síberíu. Smellið á tengilinn ef þið hafið áhuga á því að lesa um endurbæturnar á húsinu og til að sjá fleiri myndir.

Lamb's House vinnustofa, House & Garden UK · Davide Lovatti | Lönsj & Latte
Vinnustofa Kristínar Hannesdóttur arkitekts í Lamb's House/Davide Lovatti

efsta mynd mín | heimild: House & Garden UK, desember 2016 · Davide Lovatti


föstudagur, 23. mars 2018

№ 14 bókalisti | Almenn rit og ævisögur

№ 14 bókalisti | Almenn rit og ævisögur · Lísa Hjalt


Fýluferð á háskólabókasafnið er ástæða þess að ég deili № 14 bókalistanum seinna en ég ætlaði mér. Ég fór þangað til fá að láni bækurnar eftir Martin Amis og Joan Didion - ég vildi taka mynd af öllum bókastaflanum - en gleymdi skjali sem þarf til að fá bókasafnsskírteinið afhent. Ég hef ekki fundið tíma til fara aftur en fannst það best að deila listanum áður en ég klára að lesa hinar bækurnar á honum. Af og til fletti ég kompunni sem geymir heitin á bókunum sem mig langar að lesa (er sífellt að færa inn í hana) og reyni að forgangsraða; The War Against Cliché eftir Amis er ein af þeim og The White Album eftir Didion langaði mig að endurlesa. Sumir kunna að spyrja af hverju að eyða tíma í endurlestur þegar ólesnar bækur eru margar. Sumar bækur kalla einfaldlega á endurlestur. Ég hef ekki lesið allt eftir Didion en það ætla ég svo sannarlega að gera. Bókaútgáfan Diogenes sendi mér bók til að hafa á listanum og ég þakka þeim fyrir. Hún er skemmtileg aflestrar, full af sögum sem tengjast bókabúðum (sjá neðar).

№ 14 bókalisti:
· The Prime of Life  eftir Simone de Beauvoir
· Letters to Friends, Family & Editors  eftir Franz Kafka
· The White Album  eftir Joan Didion
· The War Against Cliché  eftir Martin Amis
· Der schönste Ort der Welt: Von Menschen in Buchhandlungen  (þýsk)
· Þúsund kossar  eftir Jón Gnarr
· Orðið á götunni  eftir Margréti Bjarnadóttur


Til að næra minn innri bókaunnanda, og til að æfa ryðguðu þýskuna, gladdi það mig að fá senda bók frá Diogenes Verlag til að bæta á listann: Der schönste Ort der Welt: Von Menschen in Buchhandlungen. Á íslensku væri titillinn: „Fallegasti staður í heimi: Frá fólki í bókabúðum“. Hún geymir tuttugu sögur tengdar bókabúðum sem Martha Schoknecht safnaði saman. Sögumenn eru höfundarnir Mark Twain, Penelope Fitzgerald, Gustave Flaubert, Ingrid Noll og Patricia Highsmith, til að nefna nokkra. Fyrir ykkur sem hafið lesið 84 Charing Cross Road eftir Helene Hanff (sjá bloggfærslu), og vonandi notið, þá kætti það mig að finna í bókinni sum bréfanna sem hún skrifaði til og henni bárust frá bókabúðinni Marks & Co. í London. Hún er alveg jafn dásamleg og fyndin á þýsku.

Sem manneskja sem viðurkennir að dæma oft bækur af kápunni þá verð ég að minnast á bókarhönnunina. Í hvert sinn sem ég stíg inn í bókabúð hér í Þýskalandi kemst ég ekki hjá því að dást að hvítu kiljunum frá Diogenes. Kápa þessarar bókar er einstaklega falleg: líflegt og litríkt málverk, Union Square Bookstore, eftir listakonuna Patti Mollica.

Sögur úr bókabúðum frá Diogenes, Der schönste Ort der Welt · Lísa Hjalt
Sögur úr bókabúðum frá Diogenes, Der schönste Ort der Welt

Í sömu færslu á ensku útgáfu bloggsins kynnti ég rétt aðeins íslensku bækurnar á listanum en með öðrum hætti en ég geri hér. Ég held að flestir íslenskir lesendur bloggsins viti að Þúsund kossar eftir Jón Gnarr er ævisaga Jógu, eiginkonu hans, sem slasaðist alvarlega í bílslysi í Bandaríkjunum þegar hún var ung. Ofan á glímuna við líkamlegar og andlegar afleiðingar slyssins bættist líka barátta fyrir dómstólum. Allt mótaði þetta líf hennar. Jóga hefur brallað ýmislegt um ævina og rak meðal annars tískuverslunina Skaparann í Reykjavík. Ein af mínum bestu vinkonum, sem þekkir Jógu vel, gaf mér bókina. Jóga áritaði ekki bara eintakið heldur skrifaði fallega kveðju til mín á titilsíðuna sem mér þótti afskaplega vænt um að lesa. Þar kemur hún meðal annars inn á að við erum afmælissystur. Ég er komin vel inn í frásögnina sem mér finnst einstaklega einlæg. En nánar um álit mitt síðar meir í lestrarkompufærslu.

Hin íslenska bókin á listanum er mjög áhugaverð og er eftir Margréti Bjarnadóttur (það vill svo til að hún er „litla“ systir vinkonu minnar sem gaf mér bækurnar). Þetta er falleg og látlaus kilja sem geymir setningar sem hún heyrði á förnum vegi á tímabilinu maí 2009 til desember 2013. Hverja skráði hún orðrétt og setti sér þær reglur að hún yrði að skrásetja setninguna um leið og hún heyrði hana og að annar aðilinn í samræðunum þyrfti að vera á ferð. Hún hleraði sem sagt aldrei samtöl fólks. Á hverri síðu er ein færsla; yfirleitt er um að ræða eina stutta setningu eða spurningu. Þessi bók er dásamleg aflestrar og heimspekileg. Ég verð að deila með ykkur nokkrum uppáhaldssetningum (sem að vísu eru svo margar að ég gæti endurskrifað bókina hér):

· Ég er fjarsýnn - reyndar líka nærsýnn.
· Mér finnst rosa erfitt að galdra sko. Það er erfitt að galdra.
· Kisugríma ... er það eitthvað?
· I, like, actively resist ...
· Er enginn fullkominn, amma?


Og að lokum ein færsla sem fór alveg með okkur hérna við matarborðið í Þýskalandi þegar ég las hana upphátt. Okkur langar að vita allt um þessar sæmræður: „But German people are. That's why I like German people.“


þriðjudagur, 13. mars 2018

Lestrarkompan 2017: japanskar bókmenntir I

Lestrarkompan 2017: japanskar bókmenntir I · Lísa Hjalt


Á næstu vikum ætla ég að gera mitt besta til að klára Lestrarkompufærslur ársins 2017 og í dag deili ég áliti mínu á þeim bókum sem var að finna á fyrsta listanum mínum með japönskum bókmenntum eingöngu. Það gleður mig alltaf þegar ég heyri frá blogglesendum sem nota listana til að velja sér lestrarefni; enn meira þegar þeir njóta lestursins. Ég hef þegar verið spurð að því hvenær ég ætli að deila næsta japanska lista en ástæðan fyrir því að ég frestaði honum er sú að ég hef ekki klárað The Tale of Genji (sjá neðar). Á þeim lista verður bókin The Pillow Book eftir Sei Shonagon, annað klassískt verk eftir japanska hirðdömu, og mig langar að klára Genji áður en ég les hana. Þetta þýðir að lesendur bloggsins þurfa að bíða aðeins lengur.

№ 9 bókalisti:

· First Snow on Fuji eftir Yasunari Kawabata. Á meðan lestrinum stóð fékk ég það á tilfinninguna að takmörkuð þekking mín á japanskri menningu stæði í vegi fyrir að ég nyti þessara smásagna betur. Mér fannst líka eins og ég hefði fyrst þurft að lesa skáldsögur eftir Kawabata (ein verður á næsta japanska lista, og mér finnst líklegt að einn daginn lesi ég þetta sögusafn aftur). Það voru aðallega þrjár sögur sem höfðuðu til mín: „Silence“, „Nature“ og sú sem gefur bókinni titil sinn, „First Snow on Fuji“. Fuji-sagan er í uppáhaldi, en hún fjallar um tvo fyrrum elskendur sem fara saman í ferðalag þar sem þau sjá fjallið út um lestargluggann. (Ensk þýðing: Michael Emmerich.)

· The Temple of the Golden Pavilion eftir Yukio Mishima. Þegar ég deildi listanum var ég um það bil hálfnuð með bókina og sagði ykkur frá, að því er mér fannst, fráhrindandi söguhetjunni. Mishima moðaði skáldsögu úr sögunni um munkinn sem kveikti í Gullna hofinu árið 1950. Ég man ekki eftir því að hafa fundist nokkur söguhetja eins fráhrindandi. Ég fann ekki nokkra samúð með gæjanum og þegar leið á söguna varð hann sífellt meira ógeðfelldari. Sennilega er það snilldin við bókina. Ég get ekki sagt að hún hafi verið skemmtilestur. Það væri betra að lýsa lestrarupplifuninni sem áhugaverðri. (Ensk þýðing: Ivan Morris.)

· Some Prefer Nettles eftir Jun'ichirō Tanizaki. Stutt skáldsaga um menningarlega togstreitu, þar sem gamla og nýja Japan mætast. Bókin veitir innsýn í heim japansks brúðuleikhúss. Fyrir utan tvíræðan endirinn líkaði mér bókin, mér líkaði prósinn, en mæli ekki með að fólk lesi þessa fyrst ef það hefur aldrei lesið bók eftir Tanizaki. The Makioka Sisters er enn mín uppáhaldsbók eftir hann, og ein af mínum allra uppáhaldsbókum. (Ensk þýðing: Edward G. Seidensticker.)

· The Tale of Genji eftir Murasaki Shikibu. Á bókalistanum voru tvær þýðingar og ég keypti þá eftir Edward G. Seidensticker, sem Everyman's Library gaf út. Eins og ég nefndi áður þá hef ég ekki lokið lestrinum. Ekki það að mér líki ekki bókin, heldur fannst mér eins og þyrfti einhvers konar kennslubók til að skilja þann heim sem hún lýsir. Fyrir löngu síðan skráði ég mig í kúrs um heimsbókmenntir í gegnum netið, sem ég náði aldrei að klára, og á honum var einmitt Genji tekin fyrir. Ég áttaði mig á því að ég hafði enn aðgang að fyrirlestrunum og efninu á netinu og ákvað því að taka lestrarpásu. Því miður fer kúrsinn ekki í gegnum bókina kafla fyrir kafla en fyrirlestrarnir hjálpuðu mér að fá betri innsýn í þennan heim. Núna kýs ég að lesa einn til tvo kafla í einu og velta þeim fyrir mér áður en ég held áfram. Bókin er blanda af prósa og ljóðum og lýsir fornri japanskri menningu (Heian-tímabilið), pólitík og samfélagi keisarahirðarinnar. Siðir hennar voru mér framandi en núna finnst mér ég skilja verkið betur. Ég er heilluð af því hvernig sögupersónurnar eiga samskipti með því að skiptast á ljóðum - aðallega elskuhugar - og hlutverki skrautskriftar. Í verkinu er stöðugt verið að vísa í plöntur og ég stend sjálfa mig að því að fletta myndum af þeim upp á netinu.

· My Neighbor Totoro: The Novel eftir Tsugiko Kubo. Þessi dásamlega bók fyrir börn (á öllum aldri) inniheldur upprunalegu teikningar leikstjórans Hayao Miyazaki (bókin er gerð eftir teiknimyndinni frá Studio Ghibli). Ef þið eruð þreytt á því sem ég kýs að kalla hávaðasamar barnabækur þá vil ég trúa því að þessi komi ykkur á óvart og kæti. Hún fjallar um hina ellefu ára gömlu Satsuki og systur hennar Mei og hvernig þær uppgötva Totoro, skógarveru sem býr yfir göldrum. (Ef hávaðasamar teiknimyndir fá ykkur til að missa trúna á mannkyninu þá get ég mælt með teiknimyndinni, My Neighbour Totoro (1988).)

Þeir sem fylgja mér á Instagram kunna að hafa tekið eftir nokkrum nýjum bókum. Ég deili bráðum № 14 bókalistanum; ég þarf bara að komast á háskólabókasafnið í Bremen áður og grípa þar tvö verk sem ég vil hafa á honum. Til að segja eins og er held ég að sterkar líkur séu á því að ég missi alla sjálfstjórn og fái fleiri bækur að láni á safninu.


miðvikudagur, 7. mars 2018

Ritdómur: Stay with Me eftir Ayobami Adebayo

Ritdómur: Stay with Me eftir Ayobami Adebayo · Lísa Hjalt


Nú þegar verkið Stay with Me, frumraun skáldkonunnar Ayobami Adebayo, er komið út í kiljubroti þá er kominn tími til að deila ritdómnum sem ég hafði lofað (útgefandi er Canongate; á № 12 bókalistanum mínum). Í sannleika sagt er ég ekki mikill aðdáandi nútímaskáldverka, og fyrir utan þetta með tíu árin hneigist ég til að vera sammála rithöfundinum Karl Ove Knausgård, sem nýlega lét hafa eftir sér í viðtali: „I think contemporary fiction is extremely overrated, but I can’t start to name, because I’m also a part of the hype. I think there are maybe one or two great books every 10 years“ (Guardian, 11. feb. 2018). Fallega hönnuð bókarkápan (eftir Rafaela Romaya) laðaði mig að skáldsögunni en ég var efins um að viðfangsefnið höfðaði sérstaklega til mín: hjónaband sem ógnað er af ófrjósemi. Einnig var ég eilítið á verði gagnvart góðu dómunum sem bókin hafði hlotið og hélt að kannski væri á ferðinni enn ein bólan. Hrifning mín af skrifum Chimamanda Ngozi Adichie var ástæða þess að ég las bókina; ég var forvitin að kynnast öðrum hæfileikaríkum rithöfundi frá Nígeríu.

Stay with Me er fallega skrifuð saga sem snerti mig djúpt. Því miður, vegna efniviðarins, eru í henni einum of margir harmleikir, sem truflaði mig ekki að lestri loknum, einungis á meðan á honum stóð. Vegna söguþráðarins, hversu mikilvægt það er að forðast að upplýsa nokkuð um hann, er ekki auðvelt að gagnrýna verkið. En svona hljómar sögulýsingin á kápunni: „Yejide vonast eftir kraftaverki, eftir barni. Það er allt sem eiginmaður hennar þráir, allt sem tengdamóðir hennar þráir, og hún hefur reynt allt - erfiðar pílagrímsferðir, læknisráðgjöf, bænir til Guðs. En þegar ættingjarnir krefjast þess að eiginmaðurinn taki sér aðra konu reynist það Yejide um megn. Afleiðingarnar eru afbrýðisemi, svik og örvinglun.“ Örvinglun er lykilorðið. Það er harmþrungið að fylgjast með öfgafullum tilburðum Yejide að verða barnshafandi.

Sögusviðið er aðallega ólgandi Nígería níunda áratugarins. Sögumennirnir eru tveir, hin barnalega Yejide, sem er komin út á ystu brún í örvæntingu sinni að eignast barn, og eiginmaður hennar Akin. Aðrar mikilvægar persónur eru Dotun, bróðir Akin, og móðir þeirra Moomi (sem ýtti á alla takkana mína; hún minnti mig á tengdamóðurina í Half of a Yellow Sun eftir Adichie) og Funmi, eiginkona númer tvö. Það sem fékk mig til að fletta síðum skáldsögunnar af ákafa var að í hvert sinn sem ég hélt að söguþráðurinn væri orðinn fyrirsjáanlegur þá kom rithöfundurinn mér á óvart með óvæntum viðsnúningi, sem ég sá aldrei í aðsigi. Til að gera það svona meistaralega þá þurfti hún tvo sögumenn, Yejide og Akin.

Hjónaband þeirra byggist á lygi og hvort þú, lesandinn, trúir sögu þeirra ræðst af vilja þínum til að samþykkja þessa lygi þegar hún opinberast (að koma með vísbendingu um hana myndi eyðileggja lestarupplifunina). Þrátt fyrir allar raunirnar í verkinu fletti ég síðunum af spenningi, en verð að viðurkenna að ég staldraði aðeins við þessa lygi og efaðist. Svo las ég áfram og sannfærði mig um að Yejide væri einfaldlega svona auðtrúa því hún hefði verið alin upp móðurlaus („I had watched them arrive and evolve in my father's house, all those different mothers who were not mine“).

Þrátt fyrir erfiðleikana sem persónurnar standa frammi fyrir er heilmikil fegurð í skáldsögunni, og gamansamar aðstæður. Enn mikilvægara, nígerísk menning og þjóðsögur. Fornar sögur, trú og hjátrú sem fær augabrúnir Vesturlandabúa til að rísa. Eitt dæmi er sena þar sem Yejide klifrar upp „the Mountain of Jaw-Dropping Miracles“, sem á íslensku gæti kallast Kraftaverkafjallið sem fær mann til missa kjálkana, þar sem hún dansar við geit - og setur hana á brjóst! - í örvæntingarfullri von um kraftaverk („I needed a miracle fast. The only way I could save myself from polygamy was to get pregnant before Funmi“). Maður getur ekki annað en velt því fyrir sér hvernig koma hefði mátt í veg fyrir óþarfa sársauka og þjáningar ef Yejide og Akin hefðu bara sest niður og rætt málin af alvöru.

Þegar uppi er staðið erum við öll mennsk og þurfum að glíma við þær væntingar sem samfélagið gerir til okkar. Við höfum val um láta þær stjórna lífi okkar eða að finna okkar eigin leið. Til að uppgötva hvað Yejide ákveður að lokum að gera þarftu að lesa bókina. Á meðan þú gerir það mun ég bíða eftir tilkynningu um næstu skáldsögu Adebayo. Ný, hæfileikarík skáldkona er stigin á bókmenntasviðið.


Stay with Me
Eftir Ayobami Adebayo
Canongate
Innbundin, 304 blaðsíður
KAUPA