fimmtudagur, 30. janúar 2014

augnablikið 12

Ég hélt að við slyppum við veturinn en þegar ég fór út í morgun þá var frekar kalt og stuttu síðar féllu snjókorn til jarðar. Snjór sem ég kýs að kalla jólasnjó. Það minnti mig á þessa mynd í möppunum mínum. Börnin mín og eiginmaður eru miklir aðdáendur Múmínálfanna og um tíma höfðu þau það sem reglu að horfa saman á einn þátt fyrir svefninn. Það var þeirra gæðatími saman - heilög stund. Þessi mynd er tekin í Múmínálfa-skemmtigarðinum í Naantali í Finnlandi, rétt fyrir utan Turku. Ég held að það gæti verið ævintýralegt ferðalag að skella sér þangað með börn, sérstaklega ef þau eru aðdáendur Múmínálfanna.

mynd:
Miki K. (500px)


miðvikudagur, 29. janúar 2014

þriðjudagur, 28. janúar 2014

innlit: 17. aldar sveitasetur í Normandie-héraði

Minn persónulegi stíll er meira í takt við það sem sést í skandinavískri hönnun í bland við hráan stíl en hluti af mér er svolítið veikur fyrir glæsilegum sveitasetrum eins og þessu franska 17. aldar húsi í Normandie-héraði. Húsið var í niðurníðslu þegar innanhússhönnuðurinn Charles Spada var ráðinn til að bjarga því.

Þessar myndir eru hluti af þeim sem birtust í grein í tímaritinu Veranda fyrir tveimur árum síðan en ef þið hafið áhuga þá fann ég aðrar myndir sem sýna endurbyggingu hússins.

myndir:
Alexandre Bailhache fyrir Veranda, jan/feb 2012 af blogginu {this is glamorous}


fimmtudagur, 23. janúar 2014

tískuþátturinn: Sonia Rykiel Resort 2014

Það er kominn vorhugur í mig og þessar myndir eru ein af ástæðunum. Þær eru að vísu hluti af Resort-línu tískuhússins Sonia Rykiel, sem kemur í búðir í nóvember, en þegar ég opnaði nýju heimasíðuna þeirra um daginn og sá þær þá þráði ég sól og hlýrri daga. Ég get að vísu ekki kvartað því veturinn er búinn að vera svo mildur, en nú er ég til í að skipta út kápum, úlpum og treflum fyrir léttari flíkur.

Svo væri ég til í síða ermalausa skyrtu með blómamynstri eins og ég sá í hátískulínu (haute couture) Dior fyrir sumarið, sem Raf Simons kynnti í París í vikunni.

myndir:
Sonia Rykiel Resort 2014


miðvikudagur, 22. janúar 2014

rýmið 50

Þetta er fimmtugasti rýmispósturinn á blogginu og ég ákvað að halda áfram með stemninguna frá því í gær. Þessi stofa, sem kallast Brodsworth Hall, er á ensku sveitasetri sem kallast Angelfield House. Húsið var tökustaður breskrar sjónvarpsmyndar, Thirteenth Tale, sem var sýnd á BBC um jólin. Því miður missti ég af henni, sennilega vegna þess að ég horfi aldrei á sjónvarp. En ég hefði alveg verið til í að kveikja á því fyrir þessa mynd, það er nokkuð ljóst. Frábærir leikarar og söguþráðurinn greinilega spennandi! Myndin var byggð á samnefndri bók eftir Diane Setterfield.

mynd:
Brodsworth Hall, Angelfield House af síðu English Heritage á Twitter


þriðjudagur, 21. janúar 2014

augnablikið 11

Ég er í hvítu og bláu skapi í dag (ég póstaði fallega stíliseruðum myndþætti á ensku útgáfu bloggsins sem sýnir m.a. dekkað borð; hvítt leirtau með bláu mynstri, sem heillar mig alltaf). Það vill svo til að ég er á leið út í skóla sonarins að fylgjast með fiðlutíma og því var þessi mynd kjörin á bloggið í dag (er selló ekki næsti bær við fiðlu?). Hann byrjaði að læra á fiðlu í skólanum þegar við fluttum til Englands og ég hélt að hljóðin myndu kannski æra okkur öll, en það fer nákvæmlega ekkert í taugarnar á okkur þegar hann tekur upp hljóðfærið og æfir sig. Meira að segja systur hans kvarta ekki!

mynd:
Mario Testino fyrir Vogue US, maí 2005 | fyrirsæta: Gemma Ward í ,Hot Town' | stílisering: Tonne Goodman af blogginu Books and Art


mánudagur, 20. janúar 2014

dásamlegur dvalarstaður í Provence-héraði

Er ekki við hæfi á þessum mánudegi að leyfa sér að dreyma? Það er kominn vorhugur í mig og ég er búin að vera að nóta hjá mér ýmsa staði hér í Englandi sem okkur langar að skoða í vor og sumar. Ég efast um að við skreppum yfir á meginlandið, enda nóg að skoða hér og heillandi enskar strendur, en mikið afskaplega væri ég til í eins og eina viku einhvers staðar í Provence-héraði í Suður-Frakklandi. Ég rakst á heimasíðu Domaine de la Baume en Provence, sem er dvalarstaður í nágrenni þorpsins Tourtour. Húsið var áður í eigu franska expressioníska listmálarans Bernard Buffet og eins og sést á myndum þá er svæðið allt hið glæsilegasta.

myndir:
Domaine de la Baume en Provence


fimmtudagur, 16. janúar 2014

rómantísk stemning á fimmtudegi

Myndir dagsins koma úr ýmsum áttum og eiga það sameiginlegt að vera eilítið rómantískar. Þið getið litið á þær sem eins konar framhald á færslu gærdagsins, sem var líka í þessum anda. Undanfarið er ég búin að vera í eilítið ensku sveitaskapi, eins og ég kalla það. Ég er búin að vera að lesa aftur nokkrar bækur eftir Jane Austen og í jólafríinu horfði ég aftur á myndina Pride and Prejudice (2005), sem mér finnst alltaf svo skemmtileg, og ég horfði á allar seríur og aukaþætti af Downton Abbey. Jólaþátturinn var sýndur hér í sjónvarpinu á jóladag og ég get nú ekki sagt að mér hafi fundist hann sérstaklega spennandi. Eins gott að Shirley MacLaine og Paul Giamatti voru þarna til að lyfta honum upp á eilítið skemmtilegra plan.

myndir:
1: Sabine Scherer Photography fyrir Martha Stewart Weddings af blogginu Me and You Lookbook / 2: Axel Vervoordt / 3: O'Malley Photographers fyrir Style Me Pretty Living (skrautskrift + bréfsefni: La Happy) / 4: úr myndinni Pride and Prejudice (2005), Keira Knightley sem Elizabeth Bennet af blogginu Books and Art


miðvikudagur, 15. janúar 2014

rýmið 49


Því miður veit ég ekkert um þessa borðstofu annað en að ljósmyndarinn Debi Treloar tók myndina. Rýmið er greinilega hluti af sveitasetri ef við skoðum það litla sem sést út um gluggann en mér hefur ekki tekist að finna hvaða sveitasetur það er. Ég verð því að láta rómantísku stemninguna í myndinni nægja í dag.

mynd:
Debi Treloar af blogginu La Cocina de Tina


þriðjudagur, 14. janúar 2014

innlit: lúxus og bóhemstíll á grísku eyjunni Mykonos

Innlitið að þessu sinni er strandhótelið San Giorgio á grísku eyjunni Mykonos þar sem lúxus og bóhemstíll mætast. Í boði eru 33 herbergi þar sem hvítir veggir, húsgögn úr hráu timbri, bastkörfur og -mottur ásamt fallegum textíl leika lykilhlutverk.

Hvað þarf maður meira þegar gríska Eyjahafið í allri sinni dýrð er innan seilingar?

myndir:
San Giorgio af vefsíðu Est Magazine


fimmtudagur, 9. janúar 2014

tískuþátturinn: Helmut Lang

Það er svo sannarlega enginn blúndustíll á nýjustu pre-haust línunni frá tískuhúsinu Helmut Lang, en þar ráða hönnuðirnir Michael og Nicole Colovos ríkjum. Línan einkennist af hvítu og svörtu, einfaldleika og hreinum línum, rétt eins og vorlínan. Þau í raun unnu bara áfram með vorlínuna í stað þess að vera að búa til eitthvað alveg nýtt. Það verður svo spennandi að sjá hvað þau kynna fyrir haustið og veturinn á tískuvíkunni í New York í febrúar næstkomandi.

myndir:
Helmut Lang pre-haust 2014 af vefsíðu Vogue US


miðvikudagur, 8. janúar 2014

augnablikið 10

Þetta er án efa ein sú fallegasta vetrarmynd sem ég hef augum litið. Það var ljósmyndarinn Achim Thomae sem fangaði þetta stórkostlega Alpafjallalandslag í Bæjaralandi. Þegar ég var yngri þá bjó ég í Sviss um tíma og ferðaðist töluvert á milli Sviss og Þýskalands. Útsýnið á sumum stöðum þarna er slíkt að maður fær verk í hjartað við að horfa.

mynd:
Achim Thomae (500px)


þriðjudagur, 7. janúar 2014

rýmið 48

Stundum vildi ég að ég byggi í Ástralíu svo ég gæti skotist út í búð og gripið eintak af Vogue Living þegar mér hentar. Ég hef séð myndir úr hinum ýmsu umfjöllunum í blaðinu og allar eiga þær það sameiginlegt að vera smekklegar. Því miður veit ég engin nánari deili á þessu eldhúsi því ég hef bara þessa einu mynd. Mér þykir líklegt að þetta sé umfjöllun um sumarbústað eða sveitabæ, en það sem vakti áhuga minn voru fallegu hvítu og bláu eldhúsmunirnir. Ég er alltaf svolítið veik fyrir svona mynstrum og mig dauðlangar í þessar könnur þarna í efstu hillunni. Ég verð að finna flóamarkað fljótlega og sjá hvort ég hafi heppnina með mér.

mynd:
Jonny Valiant fyrir Vogue Living af Pinterest


mánudagur, 6. janúar 2014

innlit: norskur fjallakofi í Geilo
Þessi póstur er tileinkaður þolinmóða eiginmanninum sem uppbót fyrir þær stundir sem ég er upptekin að sækja mér innblástur á netinu og veiti honum litla athygli. Norskir fjallakofar höfða sterkt til hans og þegar við bjuggum á Íslandi þá keypti hann oft eitthvað norskt fjallakofatímarit. Timbrið og handverkið heillaði hann. Þessi tiltekni kofi er í Geilo, sem er þekkt úitvistarsvæði í Noregi með skíðavæðum (liggur svo til mitt á milli Osló og Bergen ef maður lítur aðeins norðar á kortið), og eins og sést er búið að taka hann allan í gegn. Án þess að vilja hljóma neikvæð þá er ég persónulega ekki hrifin af skrautmáluðum við en norskara gerist það varla. Mér finnst annars antíkgræni liturinn í leskróknum afskaplega fallegur og hlýlegur.myndir:
Anette Nordstrøm fyrir Interiør Magasinet

föstudagur, 3. janúar 2014

góða helgi

Allra jafna fylgir enginn texti föstudagspóstunum mínum, bara blóm, en mig langaði að segja nokkur orð í upphafi nýs árs. Ég vona að árið 2014 leggist vel í ykkur og að þið hafið náð að hlaða batteríin í jólafríinu. Hér á blogginu mun ég halda áfram uppteknum hætti, að pósta því sem veitir mér innblástur, en það verða líka nýjungar. Alla vega ein ný sería mun líta dagsins ljós innan tíðar og mig langar að kynna ykkur fyrir fallegum stöðum á West Midlands svæðinu. Mig langar líka að sýna ykkur Birmingham þegar ég er búin að kynna mér borgina betur. Fáir virðast vita að borgin er mjög græn og í fyrra opnaði þar stærsta bókasafn í Evrópu - eitthvað fyrir bókakonuna mig. Það tekur mig svo bara 90 mínútur að skreppa til London með lest þannig að hún fær væntanlega að blómstra hér á blogginu þegar við erum búin að koma okkur betur fyrir.

Ég hef aldrei verið mikið fyrir að básúna þessi blogg mín, kannski vegna þess að nóg af kynningardrasli dynur á okkur dagsdaglega. En fyrir ykkur sem viljið fylgjast með og fá uppfærslur þá er ég með Facebook síðu fyrir íslenska bloggið og núna um áramótin opnaði ég síðu á Twitter. Ég tek það fram að ég nota þessa miðla til þess að uppfæra bloggið, ég er ekki að deila einhverjum auglýsingum. Einstaka sinnum vísa ég á eitthvað áhugavert sem ég finn á netinu.

Góða helgi!

mynd:
Jen Huang af Pinterest