miðvikudagur, 28. nóvember 2012

tískuþátturinn: ELLA vetur 2012


Ég er hrifin af nýju auglýsingunum frá ELLU - skemmtileg stemning í fallegum svarthvítum myndum. Ég er sérstaklega hrifin af kápunni og alveg viss um að ég myndi dansa um göturnar ef ég ætti þennan flotta hatt.

Vel gert hjá Elínrós Líndal og hennar teymi.

myndir:
ELLA Vetur 2012 auglýsingaherferð af ELLA heimasíðunni og Facebook síðunni

þriðjudagur, 27. nóvember 2012

rýmið 14


- stofa í Greenwich Village, NY
- stór skemill úr geitaskinni þjónar sem borð
- hönnuður Christine Markatos Lowe

mynd:
William Waldron fyrir Architectural Digest

mánudagur, 26. nóvember 2012

uppskrift: heitt súkkulaði með heimagerðum vanillusykri


Þetta telst nú varla til uppskrifta en ég var að setja inn á matarbloggið mína blöndu af heitu súkkulaði með heimagerðum vanillusykri, sem er ansi vinsælt á þessu heimili. Það er nú enginn vetur í Luxembourg enn þá en það er jú kaldara úti og gott að ylja sér með eins og einum bolla. Á virkum dögum notum við yfirleitt engan rjóma út í heldur berum súkkulaðið fram með nýbökuðu brauði. En um helgar förum við alla leið, notum rjóma eða lífrænan vanilluís og bökum helst eplaköku líka.

mynd:
Lísa Hjalt

föstudagur, 23. nóvember 2012

góða helgi


Í stað þess að leita í smiðjur annarra þá ákvað ég bara að taka sjálf myndina fyrir þessa 'góða helgi' færslu. Ég veit ekki með ykkur en nellikur eru blóm sem ég er farin að kunna betur og betur við. Þær eru ódýrar og lífseigar og það hentar mér vel þar sem ég elska að hafa fersk blóm í vösum á víð og dreif um heimilið.

Góða helgi!

mynd:
Lísa Hjalt

fimmtudagur, 22. nóvember 2012

kaffi & lestur


Fyrir utan bardagahljóðin í sjö ára syninum sem berast frá efri hæðinni þá er ákaflega notalegt í kotinu núna. Skólinn er búinn snemma hjá krökkunum á fimmtudögum þannig að við erum búin að gera allt sem þarf að gera, erum komin í þægilegu fötin og búin að skella í brauð. Á meðan það bakast gæðum við okkur á mandarínum - og kaffi fyrir mig - og ýmist lesum eða horfum á mynd.

Nýjustu tímaritin í staflanum eru Travel + Leisure, þýska Vogue og franska Art & Décoration. Það er góður skammtur. Bækurnar eru nokkrar. Ég er nýbyrjuð að lesa Gielgud's Letters sem er samansafn bréfa sem breski leikarinn John Gielgud (1904-2000) skrifaði um ævina. Þetta er ágætis doðrantur, vel yfir 500 síður. Ég tók svo á bókasafninu um daginn kvikmyndina Tinker Tailor Soldier Spy (2011) með Gary Oldman og fleiri frábærum leikurum. Ég skelli henni vonandi í tækið í kvöld.

Ég veit að þeir sem fylgjast með þessu bloggi eru kannski ekki þeir allra duglegustu að skrifa ummæli við færslurnar en mér finnst alltaf gaman að heyra hvað fólk er að lesa.


myndir:
Lísa Hjalt

miðvikudagur, 21. nóvember 2012

bók: sjálfsævisaga grace coddington


Út er komin bókin Grace: A Memoir, sjálfsævisaga Grace Coddington sem flestir ættu að þekkja ef þeir á annað borð fylgjast eitthvað með tísku. Grace er listrænn stjórnandi hjá ameríska Vogue og er þekkt fyrir áhugaverða og metnaðarfulla tískuþætti í tímaritinu. Það muna örugglega margir eftir henni úr heimildarmyndinni The September Issue (2009) þar sem hún bókstaflega stal senunni. Ferill Grace innan tískugeirans er orðinn ansi langur þar sem hún byrjaði ung að sitja fyrir. Hún hætti fyrirsætustörfum eftir bílslys og fór að starfa hjá breska Vogue. Árið 1988 fór hún yfir til ameríska Vogue og hefur starfað þar síðan.

Ég er búin að bíða eftir þessari bók lengi og hlakka til að lesa hana um jólin.


myndir:
úr bókinni Grace: A Memoir eftir Grace Coddington, gefin út af Random House | af síðu Vogue UK

þriðjudagur, 20. nóvember 2012

rýmið 13


Ég veit því miður ekki nánari deili á því hver hannaði þetta eldhús. Það birtist í tímaritinu Maisons Côte Sud.

mynd:
Henri Del Olmo fyrir Maisons Côté Sud af blogginu My Paradissi

mánudagur, 19. nóvember 2012

lesendaleikur: sett af tíu 'thank you' kortum frá besotted brand


Nú fara jólin að nálgast og því fannst mér kominn tími til að hafa LESENDALEIK til þess að þakka fyrir heimsóknirnar á bloggið og til að bjóða nýja lesendur velkomna. Í samstarfi við Tristan B, eiganda Besotted Brand, ætlum við að gefa einum heppnum lesanda tækifæri til að vinna fallegt sett með tíu handprentuðum 'thank you' kortum.

Besotted Brand býður upp á fallegt úrval af bréfsefnum, stimplum, merkimiðum, tvinnum og hreinlega öllu því sem þarf til að koma frá sér einhverju handskrifuðu. (Þið munið kannski eftir bloggfærslu sem ég skrifaði um vefverslunina í ágúst sl.). Besotted Brand býður líka upp á sérhannaðar vörur sem gerir handverkið enn persónulegra. Allt kemur í fallegum pakkningum þannig að þetta eru tilvaldar tækifærisgjafir. Ef þú ert í gjafahugleiðingum fyrir jólin þá endilega skoðaðu úrvalið á vefversluninni. Besotted Brand býður upp á póstsendingu um allan heim og ef þú ert að panta meira en eitt stykki þá er öllu pakkað í einn kassa þannig að þú borgar bara eitt sendingargjald miðað við þá þyngd (þú færð mismuninn af sendingargjaldinu endurgreiddan).

LESENDALEIKUR BESOTTED BRAND: SETT AF HANDPRENTUÐUM 'THANK YOU' KORTUM

Besotted Brand ætlar að gefa einum LatteLísa-lesenda uppáhaldshönnunina mína frá þeim, þetta fallega sett af handprentuðum 'thank you' kortum. Lesendaleikurinn er opinn öllum og fer fram á bæði íslensku og ensku útgáfu LatteLísa.

Kortin eru innflutt frá Ítalíu og pappírinn er unninn úr 100% bómull. Orðsendingin 'thank you' er handprentuð á kortin og þess vegna eru engin tvö kort nákvæmlega eins, sem eykur sjarma þeirra. Í settinu eru 10 kort og 10 umslög sem er búið að pakka fallega í kassa og því er þetta frábær tækifærisgjöf.

ALLIR GETA VERIÐ MEÐ:

Það sem þú þarft að gera til að vera með er að fylgja LatteLísa á Facebook eða Google+ og setja inn ummæli fyrir neðan þessa færslu. Það væri til dæmis gaman að heyra hvað þér finnst um hönnunina frá Besotted Brand. (Ef þú fylgir LatteLísa á Pinterest eða Bloglovin' þá því miður telst það ekki með því ef þú vinnur þá get ég ekki sent þér póst til að láta þig vita.)

Til að vera með í leiknum þarf að setja inn ummæli við þessa færslu í síðasta lagi laugardaginn 8. desember 2012. Tilkynnt verður um vinningshafa á blogginu mánudaginn 10. desember.


Þegar þú hefur skráð þig með ummælum hér að neðan þá hefurðu tvær leiðir til að auka líkurnar á því að vinna:

a. Eitt auka stig (samtals tvö):
Notarðu Pinterest? Pinnaðu þessa mynd af 'thank you' kortunum eða þessa. Ef þú pinnar báðum þá færðu tvö auka stig.

ef þú pinnar þá vinsamlegast skrifaðu 'pinnaði einni' eða 'pinnaði báðum'
í athugasemdina þína hér að neðan og ég veit hvað átt er við

b. Fimm auka stig:
Ef þú ert með blogg þá geturðu skrifað þína eigin bloggfærslu um lesendaleikinn. Þú mátt fá myndirnar af 'thank you' kortunum lánaðar en vinsamlegast taktu það fram í færslunni þinni að þær koma frá Besotted Brand. Í færslunni þarf að vera tengill á þessa bloggfærslu og á vefverslun Besotted Brand.
ef þú bloggar um lesendaleikinn skildu þá eftir athugasemd þegar þú er búin/n
að pósta færslunni og láttu tengilinn (URL) á færsluna þína fylgja


TAKK FYRIR AÐ VERA MEÐ Í LEIKNUM ... OG VONANDI HEFURÐU HEPPNINA MEÐ ÞÉR!

fimmtudagur, 15. nóvember 2012

maison martin margiela í h&m


Eins og margir vita hefur H&M keðjan verið í samstarfi við ýmis þekkt tískuhús sem sérhannar fatalínur sem eru
svo seldar í ákveðnum H&M verslunum. Þarna gefst almenningi tækifæri á að eignast tískumerki á mun lægra verði.
Nú síðast var það tískuhúsið Marni sem gerði allt vitlaust og fólk beið í biðröðum klukkutímum saman fyrir utan H&M
til þess að versla. Í morgun var það sérhönnuð lína frá tískuhúsinu Maison Martin Margiela sem fékk fólk til þess að
standa í biðröð. Það er hleypt inn í búðirnar í hollum og ég held að ég fari rétt með að hver og einn geti bara keypt x
margar flíkur og aukahluti því töluvert er um það að fólk versli til þess eins að selja flíkurnar á hærra verði á Ebay.

Tískuteikningin hér að ofan er eftir eina ástralska bloggvinkonu mína, Helen sem skrifar bloggið The Style Schedule,
en einn kjóll úr línu MMM fyrir H&M var hennar innblástur. Myndin fyrir neðan sýnir kjól úr línunni sem má skoða til
dæmis hér.


myndir:
1: Helen af blogginu The Style Schedule / 2: Sam Taylor-Johnson fyrir Maison Martin Margiela / H&M

miðvikudagur, 14. nóvember 2012

parís í rigningu


Ég hef verið aðeins upptekin og sleppti því að pósta færslum síðustu tvo daga. Ég birti þessar myndir á ensku útgáfu bloggsins á laugardaginn, en ég vil birta þær hér líka.

Efsta myndin er tekin á Montmartre hæðinni þar sem Sacré Coeur kirkjan stendur. Við vorum nýbúin að skoða kirkjuna og vorum að dást að útsýninu yfir borgina. Við fórum svo með metró út í 6. hverfi og þegar þangað var komið byrjaði heldur betur að rigna. Það var ágætt að flýja inn á veitingahús og njóta góðrar máltíðar á meðan mestu skúrirnar gengu yfir.

Ef þið eruð stödd í París í rigningu og nennið ekki á safn þá get ég mælt með því að rölta undir bogagöngunum í Palais Royal garðinum. Þar má finna alls kyns búðir og til að fara inn í sumar þarf að banka. Það borgar sig ekki að vera of túristalegur ef þið ætlið inn í eina slíka; starfsfólkið hefur nákvæmlega enga þolinmæði fyrir túristum, sem ég skil mjög vel. Passið að setja upp sparibrosið og segja bonjour madame eða monsieur um leið og ykkur er hleypt inn.


myndir:
Lísa Hjalt

París, 17. október 2012 - 1: útsýni frá Square Louise Michel (græna svæðið fyrir neðan Sacré Coeur) / 2 + 4: Tuileries garðurinn / 3: Palais Royal garðurinn; Daniel Buren hannaði strípuðu súlurnar / 5: Louvre pýramídinn

fimmtudagur, 8. nóvember 2012

hugað að jólaundirbúningi


Hvað segið þið gott á þessum fimmtudegi? Ég veit ekki með ykkur en ég er smám saman að komast í jólaskap og er farin að nóta hjá mér eitt og annað sem viðkemur undirbúningi jólanna. Í Luxembourg kemur jólasveinninn 6. desember og það er frídagur í skólum. Við bjuggum áður í Antwerpen í Belgíu og jólasveinninn kom á sama degi en þar var að vísu ekki gefið frí. Hvað um það, jólahaldið breyttist örlítið þegar við kynntumst þessari hefð Benelux-landanna og við erum því tilbúin fyrir jólin í byrjun desember. Jólatréð fer upp áður en sveinki og hans fylgdarlið mætir á svæðið því okkur finnst það eiga vel við og gera þennan dag hátíðlegri.

Það er því í nóvember sem ég byrja smám saman að undirbúa jólin og ég nota svo desember til þess að slaka á og njóta komu þeirra. Ég er ekki týpan sem missir úr svefn þó það sé þvottur í þvottabalanum á aðfangadag en með því að undirbúa jólin svona snemma þá er einhvern veginn allt hreint og fínt í desember og þetta snýst meira um að leitast við að halda því þannig með lítilli fyrirhöfn. Nóvember er því tíminn sem ég legg meiri áherslu á að heimilisfólk gangi frá hlutunum í stað þess að færa þá til. Ég nota líka tækifærið til þess að grynnka á ýmsu dóti, hendi því sem er úr sér gengið og gef nýtanlega hluti og föt til góðgerðarmála.

Ég held að það hafi ekki fram hjá neinum sem les bloggin mín að ég er mikil bókakona og þessa dagana er ég að grynnka á stöflunum á stofuborðunum til að rýma fyrir nýjum bókum sem án efa bætast í safnið í desember. Sumar fara upp í hillu en ég nota aðrar til skrauts eins og á myndinni hér að ofan. Ég var einmitt að stilla nokkrum upp með ramma og kertum þegar ég mundi eftir þessari mynd. Nú vantar mig bara fersk blóm líka til að gera þetta enn huggulegra.

Eigið góðan dag!

mynd:
Rue, 2. tölublað, nóv/des 2010, bls. 105

miðvikudagur, 7. nóvember 2012

góð skilaboð


Ég held mikið upp á þessa mynd því það er ekki bara prófíllinn á persanum sem er óborganlegur heldur
finnst mér skilaboðin á plakatinu alltaf eiga vel við.

mynd: 
af Facebook síðu Food Inc

mánudagur, 5. nóvember 2012

parís: stemningin á café de flore


Er ekki í góðu lagi að skreppa aftur til Parísar í huganum? Þið sem fylgist með ensku útgáfu bloggsins hafið væntanlega séð þessar myndir fyrr í dag. Ég var að horfa á rigninguna út um gluggann í morgun og fannst þá tilvalið að deila myndum sem teknar voru á milli skúra í París.

Við vorum að rölta um 6. hverfi, rólega að fikra okkur í áttina að kaffihúsinu Café de Flore, þegar það fór að rigna eins og hellt væri úr fötu. Við hinkruðum og náðum svo á leiðarenda áður en það fór að rigna aftur. Við fengum borð úti þar sem við sátum í skjóli og hlýju og fylgdumst með mannlífinu á horni Boulevard Saint-Germain og Rue Saint-Benoît. Þetta kaffihús er með þeim þekktustu í París, oft tengt við Jean-Paul Sartre og Simone de Beauvoir því þarna áttu þau til að sitja og ræða heimspekileg málefni eða sinna skrifum. Þau mátti líka finna á Les Deux Magots, sem er nokkrum skrefum frá þessu.

Það hefur ekkert breyst á Café de Flore. Í áratugi hefur stíllinn verið sá sami og maður fær á tilfinninguna að tíminn hafi hreinlega staðið í stað. Þetta er hin fullkomna Parísarklisja; þjónar með hvítar síðar svuntur ganga á milli borða og heimamenn drekka kaffið sitt innan um ferðalanga. Ég skrapp inn til þess að kíkja á böku dagsins og aðrar kræsingar og veitti því athygli sem fram fór innandyra. Mikið af fólki sat einsamalt við borð og það var meira eins og það væri heima hjá sér. Það var búið að koma sér þægilega fyrir með allt sitt dót og virtist ekki upptekið af því hvað var að gerast í kringum sig. Ég valdi mér maison tarte sem var sítrónubaka og hugsaði með mér að líklega sæi ég þetta fólk við sama borð ef ég kæmi aftur daginn eftir.

Eins og ég sagði, hin fullkomna Parísarklisja.


myndir:
Lísa Hjalt

fimmtudagur, 1. nóvember 2012

innlit: klassískt og hlýlegt heimili í las vegas


Fyrir nokkrum árum ákváðu eldri hjón í Las Vegas að byggja sér nýtt heimili eftir að börnin voru farin að heiman. Þau höfðu ferðast töluvert um Ítalíu og vildu eignast hús sem minnti á ítalska villu en hefði auk þess þann hlýleika sem einkennir sveitasetur í Toscana héraði. Þau sneru sér til arkitektsins William Hablinski sem teiknaði fyrir þau húsið og um innanhússhönnun sáu Alexandra og Michael Misczynski, sem reka saman fyrirtækið Atelier AM (þið munið kannski eftir færslu minni um nýútkomna bók þeirra hjóna). Eins og sjá má á myndunum einkenna fallegir antíkmunir heimilið en það var belgíski antíksalinn Axel Vervoordt sem sá um að útvega þá. Þess má geta að málverkið á myndinni hér að ofan er eftir Willem de Kooning og í öðru herbergi er til dæmis að finna verk eftir Marc Chagall.

Það var árið 2009 þegar húsið var enn óklárað að eiginmaðurinn féll skyndilega frá. Framkvæmdir voru stöðvaðar og óljóst var með framhaldið. Það voru börnin sem síðar hvöttu móður sína til þess að klára húsið. Í fyrra flutti hún inn og Michael Misczynski lýsir því sem tilfinningaþrunginni stund. Þetta hafði jú verið draumahús þeirra hjóna og hann bætir við að andi eiginmannsins svífi yfir vötnum. Til að gera langa sögu stutta þá er konan alsæl með að hafa látið klára verkið. Húsið hefur fært henni mikla gleði og börnin og þeirra fjölskyldur eru tíðir gestir enda nóg pláss.


Smellið á tengilinn hér að neðan til þess að sjá fleiri myndir.

myndir:
Pieter Estersohn fyrir Architectural Digest, september 2012