föstudagur, 31. ágúst 2012

góða helgi


Ég er búin að horfa heilluð á þennan blómvönd síðan ég fann þessa litríku mynd á netinu. Vöndurinn er gerður úr próteum, blómin með pinnunum (enska: pincushion protea), asíusóleyjum (ranunculus) og tveimur tegundum af bóndarósum (peony), sem eru í sérstöku uppáhaldi hjá mér. Vasinn finnst mér heillandi en þetta er glervasi sem er hefur verið notaður undir málningarpensla. Verkið í bakgrunni er eftir listakonuna Michelle Armas.

mynd:
Once Wed

fimmtudagur, 30. ágúst 2012

rýmið 04


- baðherbergi á hótel Bordeaux de L'Hôtel Particulier í Arles, Frakklandi
- arkitekt Paul Anouilh

mynd: 
Marie Claire Maison

miðvikudagur, 29. ágúst 2012

tískuþátturinn

Henry Clarke, Vogue, september 1955

Á ensku útgáfu bloggsins er ég með vikulega tískuumfjöllun sem ég kalla NOTES À LA MODE. Stundum pósta ég myndum úr tískuþáttum glanstímaritanna eða því nýjasta af tískupöllunum eða þá að ég fjalla um ákveðinn tískuhönnuð. Ég leyfi aðallega myndunum að tala og oft bæti ég við safni af tenglum sem tengjast efninu á einhvern hátt. Í dag ætla ég að leyfa mér endurtaka færslu dagsins að hluta hér á íslensku útgáfunni. Ég bæti að vísu aðeins við textann, nota aðrar myndir og sleppi tenglasafninu.

Edward Steichen, Vogue, nóvember 1924

Í dag vék ég að septemberútgáfum tískutímaritanna. Nú veit ég ekki hvenær nákvæmlega þessi tölublöð birstast í hillum verslana á Íslandi en hér á meginlandi Evrópu eru flest nú þegar fáanleg. Ég er búin að fletta ansi mörgum og verð að segja að það eru fáar forsíður og tískuþættir sem virkilega gleðja augað. Stundum undrast ég metnaðarleysið. Vogue Paris, eða franska útgáfan af Vogue, er með nýju sniði þennan mánuð. Þeir eru búnir að breyta broti blaðsins og það er hægt að velja um þrjár forsíður af tölublaði septembermánaðar. Ég keypti blaðið með Kate Moss á forsíðunni og get fullyrt að það er mikið um flottar ljósmyndir í því, þá einkum svarthvítar. Franskan mín er ekki mjög sterk en mér finnst menningarhluti blaðsins áhugaverður og nýt þess að lesa hann þó það taki mig svolítinn tíma með hjálp orðabókar. [Ég verð að koma því að hér að ég skil ekki verðmuninn á franska Vogue hér á meginlandinu og á Íslandi. Ég kaupi blaðið á rétt rúmar 5 evrur úti í búð en það kostar rúmar 3000 krónur á Íslandi (var tæpar 4000 fyrir ekki löngu síðan)! Gengi krónunnar útskýrir ekki þennan svakalega verðmun.] Ég keypti líka þýska Vogue en leikkonan Salma Hayek prýðir forsíðuna og tískuþátt í blaðinu. Að mínu mati, fyrir utan tvær myndir, þessa og þessa, er þetta allt að því pínlegur tískuþáttur. Salma, þessi annars flotta kona, er svo uppstillt og lítur út eins og illa gerður hlutur á flestum myndunum. Þið getið skoðað þær á vefsíðu þýska Vogue og dæmt sjálf. Sama hver er á forsíðunni þá er ég farin að kaupa þýska Vogue svo til í hverjum mánuði því þeir eru yfirleitt með góð viðtöl og menningartengt efni er alltaf áhugavert.

En það sem skil ekki í þessum tímaritaheimi er ofurdýrkunin á fræga fólkinu og að það skuli vera notað á forsíður í stað þess að nota flottar og reyndar fyrirsætur sem vita hvað þær eru að gera. Við skulum svo ekki fara út í breytingarnar sem gerðar eru á myndum í tölvum til að afmá allt sem heitir eðlilegar línur og hrukkur, það er reyndar sér kapítuli, eitthvað sem ég er fyrir löngu búin að fá meira en nóg af. En hvað um það, ég til dæmis næ því engan veginn að ritstjóri ameríska Vogue, Anna Wintour, skuli hafa valið Lady Gaga af öllum til að prýða septemberútgáfuna í ár. Hvað á það eiginlega að þýða?!! Mig langar næstum því til þess að sniðganga blaðið en það er bara gamall vani að kaupa það í september þannig að ég læt mig hafa það. En í dag var byrjað að dreifa ítalska Vogue í verslanir og ég hlakka til að tryggja mér eintak. Ítalska útgáfan er yfirleitt alltaf flott.

Sem mótvægi við þessa tískuþætti nútímans sem gera yfirleitt lítið fyrir mig þá fór ég í smiðju Condé Nast vefverslunarinnar, í Vogue hlutann, og valdir nokkrar gamlar og góðar tískuljósmyndir eftir Clarke, Steichen og Horst.

Edward Steichen, Vogue, janúar 1933
Horst P. Horst, Vogue, nóvember 1936

myndir: 
1 Henry Clarke / 2-3 Edward Steichen / 4 Horst P. Horst fyrir Vogue US af vef Condé Nast vefverslunarinnar

þriðjudagur, 28. ágúst 2012

sumar: lautarferð


Ég veit að skólarnir eru þegar byrjaðir og margir komnir í haustgírinn en samkvæmt almanakinu er enn þá sumar. Hvernig væri að fara í eins og eina lautarferð áður en laufin falla af trjánum? Það er gaman að keyra út í sveit og njóta náttúrunnar en það er í raun óþarfi að fara langt, það má þess vegna bara fara út í garð með teppi, púða og nesti í körfu og gera sér glaðan dag. En ég er alveg á því að sleppa öllu plasti, ég bið um alvöru glös og diska og sætar tauservíettur.

mynd:
Martin von Brömssen fyrir Sköna hem

mánudagur, 27. ágúst 2012

innlit: heimili í london


Þetta fallega heimili í London hannað af og í eigu Rose Uniacke er búið að vera lengi í möppunni minni. Ég hreinlega fæ ekki nóg af þessum glæsilegu stofum. Það þarf ekki að segja mörg orð um þetta heimili því myndirnar segja allt sem segja þarf. En mig langar að koma því að hvað þessi gamldags gólfborð eru skemmtileg og þau gera allt saman mun heimilislegra.


Ég vissi ekki hvert ég ætlaði þegar ég sá myndina af svefnherberginu. Stórt, ljóst og fallegt og svo arinn líka. Já takk, ég er alveg til í að eiga eitt svona.


myndir:
Rose Uniacke af blogginu La Petite Fleur de Londres

fimmtudagur, 23. ágúst 2012

rýmið 03


Því miður veit ég engin nánari deili á uppruna þessarar myndar en þessi smekklega og heimilislega stofa hefur lengi verið í uppáhaldi hjá mér. Innbyggðar bókahillur sem ná frá gólfi og upp í loft eru svo sannarlega mér að skapi.

Hvað er heimili án bóka?

mynd:
Sydney Morning Herald af blogginu Brabourne Farm

miðvikudagur, 22. ágúst 2012

sumar: blóm og rendur


Ég ætla að birta reglulega myndir á blogginu sem fanga stemningu árstíðanna. Ég hef svo gaman af fallegum ljósmyndum sem ekki bara næra andann heldur gefa manni líka hugmyndir að hvers kyns skreytingum, hvort sem það eru borðskreytingar, uppröðun á smáhlutum eða hvað sem er.

Sumarstemningin í þessari mynd finnst mér hreint út sagt dásamleg. Öll þessi blóm, röndóttu renningarnir og gömlu stólarnir hafa rómantískan sjarma. Það væri nú ekki leiðinlegt að gera svona fínt hjá sér og hóa svo í nokkrar vinkonur og eiga notalega stund.

mynd:
Apryl Ann af blogginu 100 Layer Cake

þriðjudagur, 21. ágúst 2012

falleg bréfsefni og hönnun frá besotted brand


Í nútímanum þar sem tölvupóstar og smáskilaboð eru yfirráðandi veit ég um fátt sem vermir hjartað betur heldur en handrituð orðsending, hvort sem það er kort eða bréf. Það minnir mig á gamla góða tíma þegar reglulega mátti finna bréf í póstkassanum frá pennavinum víðsvegar um heiminn. Ég get auðveldlega gleymt stund og stað þegar ég skoða bréfsefni eða prentverk og sem betur fer má finna vefverslanir sem bjóða upp á slíkt. Sú nýjasta í tenglasafni mínu er Besotted Brand LLC í Los Angeles, sem hefur virkilega fallegt úrval af bréfsefnum, stimplum, merkimiðum, tvinnum og hreinlega öllu því sem þarf til að koma frá sér einhverju handskrifuðu. Viðskiptavinurinn getur einnig óskað eftir sérhönnuðum vörum sem gerir handverkið enn persónulegra.

Settið hér að ofan kallast Calligraphy Thank You Hand-Printed Stationery Set. Kortin eru innflutt frá Ítalíu og pappírinn er unninn úr 100% bómull. Orðsendingin 'thank you' er handprentuð á kortin og þess vegna eru engin tvö kort nákvæmlega eins, sem eykur sjarma þeirra. Í settinu eru 10 kort og 10 umslög sem er búið að pakka fallega í kassa og því er þetta frábær tækifærisgjöf.

Það sama á við um settið að neðan til vinstri sem kallast Heart of Gold Hand-Printed Stationery Set. Gullhjörtun eru úr málmi og eru handprentuð á kortin þannig að engin tvö kort eru nákvæmlega eins.


Það má einnig kaupa sett með kortum, umslögum, merkimiðum og stimpli eins og D.I.Y. Stationery Kit with Calligraphy Hello Stamp. Settið inniheldur allt sem þarf til að búa til sitt eigið bréfsefni sem verður um leið mjög persónulegt. 'Hello' stimpillinn var handskrifaður af Danae Hernandez sem starfar sem skrautskrifari.


Á heimasíðu Besotted Brand er vinnustaðnum skemmtilega lýst sem galdraheimi þar sem blöð sópa sér sjálf í ruslatunnur, lok á pennum virðast smella án nokkurrar hjálpar og engar kökur skilja eftir sig mylsnur.

Það er fröken Tristan B sem stjórnar aðgerðum og hún vill hafa allt hreint og fínt hjá sér.

Þess má geta Besotted Brand heldur líka úti áhugaverðu bloggi.


Orðið 'besotted' í ensku þýðir að vera bálskotinn, að elska einhvern eða eitthvað svo mikið að það eiginlega gengur út yfir alla skynsemi. Ég veit ekki með ykkur en ég er bálskotin í þessum vörum nú þegar!

myndir: 
Besotted Brand LLC (birt með leyfi)

mánudagur, 20. ágúst 2012

rýmið 02


- nágrenni Washington D.C.
- hönnuður Darryl Carter
- arkitekt Donald Lococo

mynd: 
William Waldron fyrir Architectural Digest

föstudagur, 17. ágúst 2012

tískuþátturinn


Haustið er á næsta leiti, septemberútgáfur tískutímaritanna eru að koma í verslanir og örugglega margir farnir að huga að fataskáp haustsins. Kápa eða jakki í grænum eða brúnum tón er tímalaus flík sem passar við nánast allt og hermannastíll á alltaf vel við á þessum árstíma.

Hér er hluti mynda í tískuþættinum ,Army Chic' í september 2012 útgáfu kínverska Vogue.


Eigið góða helgi!

myndir:
Benny Horne fyrir kínverska Vogue, september 2012 | Ming Xi í ,Army Chic' | stílisering: Morgan Pilcher


fimmtudagur, 16. ágúst 2012

listakonan kathe fraga


Á vafri mínu um netið fyrir ekki svo löngu rakst ég á verk listakonunnar Kathe Fraga og heillaðist af litunum í verkum hennar og chinoiserie stílnum, sem á íslensku er best að kalla bara skreytingar í kínverskum stíl. Kathe býr og málar í eldgömlu steinhúsi við sjóinn á eyjunni Bainbridge Island í Washington á vesturströnd Bandaríkjanna. Hún vinnur á striga og notast við akrýl, blek, grafít og gifs og lýkur hverju verki með lakkáferð.

Um verk sín segist Kathe vera "innblásin af fegurð og rómantík þess gamla" og nefnir í því samhengi "gamla kimono silkisloppa, útsaum, lítil box með lakkáferð, gamalt veggfóður og panil, sem eru farin að láta á sjá en hafa samt ekki misst sjarmann." Hún hefur búið á ýmsum stöðum í Suður-Ameríku, Danmörku, Englandi og Frakklandi og segir að áhrif þess megi finna í verkum sínum.

Á vefsíðu hennar má skoða nýjustu verkin og þau sem þegar hafa verið seld. Hún heldur einnig úti bloggi sem hún kallar The Art of Kathe Fraga.

Hægt er að kaupa gjafakort með áprentuðum myndum eftir listakonuna sem eru prentuð á mattan pappír og eru án texta. Þau eru seld stök og í settum. Það gæti verið skemmtileg hugmynd að ramma þau inn.

myndir: 
Remembering I og Remembering II eftir Kathe Fraga (birt með leyfi)

miðvikudagur, 15. ágúst 2012

rýmið 01


- West Village, New York
- hönnuður Steven Gambrel

Rýmið er sería á blogginu þar sem ég einungis birti eina mynd og tilgreini hönnuð og staðsetningu,
ef hún er gefin upp. Orð eru óþörf og fókusinn er á fallega hönnun, samspil lita, birtu eða hvað sem er.

mynd: 
S.R. Gambrel


þriðjudagur, 14. ágúst 2012

vörumerki verður til


Mér finnst vinnurými þar sem hvers kyns sköpun fer fram ákaflega heillandi og ég safna mörgum slíkum myndum í möppurnar mínar. Flestir hljóta að kannast við það að kaupa vöru sem kemur í fallegum umbúðum eða að fá í hendurnar vel hannað prentverk með flottu vörumerki. Hafið þið einhvern tíma velt því fyrir ykkur hvernig þetta verður til?

Oneighty er breskt fyrirtæki sem sérhæfir sig í hönnun vörumerkja. Starfsfólkið var vant viðskiptavinum sem virtust ekki gera sér neina hugmynd um þá vinnu sem fólst í því að hanna vörumerki og einn daginn fékk það nóg. Nú skyldi gefa öðrum innsýn í heim vörumerkjahönnunar og ljósmyndari var fenginn til þess að festa ferlið á filmu. Á myndunum tveimur að neðan má sjá „persónur“ í aðalhlutverkum en á efstu myndinni er búið að skeyta saman myndum af sjálfu hönnunarferlinu.

Þetta finnst mér smart.


myndir: 
Adrian Ray fyrir Oneighty af vefsíðu Behance

mánudagur, 13. ágúst 2012

innlit: sveitasetur í suður-frakklandi


Í Languedoc-Roussillon héraði í Suður-Frakklandi hefur innanhússhönnuðurinn Maire-Laure Helmkampf gert upp mylluhús frá nítjándu öld sem var í niðurníðslu. Í húsinu er hátt til lofts, loftbitar eru sýnilegir og stórir gluggar hleypa birtunni inn. Hlutlausir tónar skapa hlýju og smekklegt að sjá hvernig steinhlaðnir og ljósmálaðir veggir mætast. Myndin að ofan er í miklu uppáhaldi hjá mér, það er eitthvað virkilega sjarmerandi við þetta eldhús þar sem blandað er saman gömlu og nýju. Ég verð líka alltaf pínulítið veik í hnjánum þegar ég sé eldhús með innréttingu úr eikarvið og hvítri borðplötu, eða öfugt.


Sófinn í stofunni er frá tímum Frakklandskeisarans Napoleon III og hefur verið bólstraður að nýju. Breiður skorsteinninn er alveg nýr, hannaður af Marie-Laure sjálfri. Ég rak augun í lampann með trjábolnum í stofunni en það var John Gross sem hannaði hann. Vinnuherbergið hér að neðan er mér að skapi, nóg pláss og opnar hillur. Tulip borðið eftir Eero Saarinen sómir sér vel í rýminu.


Svefnherbergin eru í sama stíl og önnur rými hússins, en þar eru veggir einnig dökkmálaðir. Þess má geta að forna baðkarið í neðstu myndaröðinni var fengið á uppboði í nágrenninu. Myndaseríunni lýkur með útisundlaug en þarna hlýtur að vera hreint út sagt dásamlegt að sitja úti á góðum sumardegi með svalandi drykk í hendi.


Smellið á tengilinn að neðan ef þið viljið sjá fleiri myndir.

myndir: 
Nuevo Estilo

Follow my blog with Bloglovin