um bloggiðLönsj & Latte · Lísa Hjalt · bókablogg & mynstraður textíll
Ég er Lísa Hjalt, alin upp á Íslandi en bý núna með fjölskyldunni í Þýskalandi - já, við erum komin aftur á meginlandið. Ég opnaði ensku útgáfu bloggins í Antwerpen árið 2010 en síðan þá hefur eðli þess breyst og í dag er það aðallega bókablogg. Færslurnar eru gjarnan eins konar innlit í bækurnar og tímaritin á borðinu mínu, bókalistarnir mínir og lestrarkompan, kaffiborðsbækurnar sem ég hef í augsýn, nýjar bækur og litlu hlutirnir í lífinu. Textíll, sérstaklega framandi mynstur, er annað áhugaefni og mér leiðist ekki að fá prufur í póstinum. Yfirleitt verða færslurnar til þegar ég nýt langs hádegisverðar, gjarnan undir áhrifum tvöfalds latte.

Ég fæddist í Reykjavík og eyddi flestum sumrum með fjölskyldunni á laxveiðisvæðum í Borgarfirði eða í húsi ömmu og afa í Vogahverfinu þar sem dönsk áhrif föðurættarinnar voru ríkjandi. Ég nam enskar bókmenntir og málvísindi við HÍ og skrifaði BA-ritgerð um sjálfsævisöguleg skrif. Efnistök bloggsins mótast af áhuga mínum á bókum og textíl, eins og ég nefndi áðan, innanhússhönnun og stíliseringu, ljósmyndun, listum, sögu og ferðalögum. Ég er ein af þeim sem enn fæ lánaðar bækur á bókasöfnum og fer yfirleitt með bunkann á kaffihús áður en ég held heim. Önnur ástríða er að tilraunast með uppskriftir sem innihalda ferskar og óunnar vörur. Enska bloggútgáfan kallast Lunch & Latte. Frá byrjun ársins 2015 eru næstum allar myndirnar á bloggunum mínar eigin.

Ég er fáanleg í samvinnu á blogginu, svo lengi sem það er eitthvað sem tengist innihaldi þess. Hafið í huga að ég samþykki ekki fyrirframskrifaða bloggtexta.


Lísa Hjalt
Hafðu samband: netfang


© Lísa Hjalt | Lönsj & Latte