miðvikudagur, 7. mars 2018

Ritdómur: Stay with Me eftir Ayobami Adebayo

Ritdómur: Stay with Me eftir Ayobami Adebayo · Lísa Hjalt


Nú þegar verkið Stay with Me, frumraun skáldkonunnar Ayobami Adebayo, er komið út í kiljubroti þá er kominn tími til að deila ritdómnum sem ég hafði lofað (útgefandi er Canongate; á № 12 bókalistanum mínum). Í sannleika sagt er ég ekki mikill aðdáandi nútímaskáldverka, og fyrir utan þetta með tíu árin hneigist ég til að vera sammála rithöfundinum Karl Ove Knausgård, sem nýlega lét hafa eftir sér í viðtali: „I think contemporary fiction is extremely overrated, but I can’t start to name, because I’m also a part of the hype. I think there are maybe one or two great books every 10 years“ (Guardian, 11. feb. 2018). Fallega hönnuð bókarkápan (eftir Rafaela Romaya) laðaði mig að skáldsögunni en ég var efins um að viðfangsefnið höfðaði sérstaklega til mín: hjónaband sem ógnað er af ófrjósemi. Einnig var ég eilítið á verði gagnvart góðu dómunum sem bókin hafði hlotið og hélt að kannski væri á ferðinni enn ein bólan. Hrifning mín af skrifum Chimamanda Ngozi Adichie var ástæða þess að ég las bókina; ég var forvitin að kynnast öðrum hæfileikaríkum rithöfundi frá Nígeríu.

Stay with Me er fallega skrifuð saga sem snerti mig djúpt. Því miður, vegna efniviðarins, eru í henni einum of margir harmleikir, sem truflaði mig ekki að lestri loknum, einungis á meðan á honum stóð. Vegna söguþráðarins, hversu mikilvægt það er að forðast að upplýsa nokkuð um hann, er ekki auðvelt að gagnrýna verkið. En svona hljómar sögulýsingin á kápunni: „Yejide vonast eftir kraftaverki, eftir barni. Það er allt sem eiginmaður hennar þráir, allt sem tengdamóðir hennar þráir, og hún hefur reynt allt - erfiðar pílagrímsferðir, læknisráðgjöf, bænir til Guðs. En þegar ættingjarnir krefjast þess að eiginmaðurinn taki sér aðra konu reynist það Yejide um megn. Afleiðingarnar eru afbrýðisemi, svik og örvinglun.“ Örvinglun er lykilorðið. Það er harmþrungið að fylgjast með öfgafullum tilburðum Yejide að verða barnshafandi.

Sögusviðið er aðallega ólgandi Nígería níunda áratugarins. Sögumennirnir eru tveir, hin barnalega Yejide, sem er komin út á ystu brún í örvæntingu sinni að eignast barn, og eiginmaður hennar Akin. Aðrar mikilvægar persónur eru Dotun, bróðir Akin, og móðir þeirra Moomi (sem ýtti á alla takkana mína; hún minnti mig á tengdamóðurina í Half of a Yellow Sun eftir Adichie) og Funmi, eiginkona númer tvö. Það sem fékk mig til að fletta síðum skáldsögunnar af ákafa var að í hvert sinn sem ég hélt að söguþráðurinn væri orðinn fyrirsjáanlegur þá kom rithöfundurinn mér á óvart með óvæntum viðsnúningi, sem ég sá aldrei í aðsigi. Til að gera það svona meistaralega þá þurfti hún tvo sögumenn, Yejide og Akin.

Hjónaband þeirra byggist á lygi og hvort þú, lesandinn, trúir sögu þeirra ræðst af vilja þínum til að samþykkja þessa lygi þegar hún opinberast (að koma með vísbendingu um hana myndi eyðileggja lestarupplifunina). Þrátt fyrir allar raunirnar í verkinu fletti ég síðunum af spenningi, en verð að viðurkenna að ég staldraði aðeins við þessa lygi og efaðist. Svo las ég áfram og sannfærði mig um að Yejide væri einfaldlega svona auðtrúa því hún hefði verið alin upp móðurlaus („I had watched them arrive and evolve in my father's house, all those different mothers who were not mine“).

Þrátt fyrir erfiðleikana sem persónurnar standa frammi fyrir er heilmikil fegurð í skáldsögunni, og gamansamar aðstæður. Enn mikilvægara, nígerísk menning og þjóðsögur. Fornar sögur, trú og hjátrú sem fær augabrúnir Vesturlandabúa til að rísa. Eitt dæmi er sena þar sem Yejide klifrar upp „the Mountain of Jaw-Dropping Miracles“, sem á íslensku gæti kallast Kraftaverkafjallið sem fær mann til missa kjálkana, þar sem hún dansar við geit - og setur hana á brjóst! - í örvæntingarfullri von um kraftaverk („I needed a miracle fast. The only way I could save myself from polygamy was to get pregnant before Funmi“). Maður getur ekki annað en velt því fyrir sér hvernig koma hefði mátt í veg fyrir óþarfa sársauka og þjáningar ef Yejide og Akin hefðu bara sest niður og rætt málin af alvöru.

Þegar uppi er staðið erum við öll mennsk og þurfum að glíma við þær væntingar sem samfélagið gerir til okkar. Við höfum val um láta þær stjórna lífi okkar eða að finna okkar eigin leið. Til að uppgötva hvað Yejide ákveður að lokum að gera þarftu að lesa bókina. Á meðan þú gerir það mun ég bíða eftir tilkynningu um næstu skáldsögu Adebayo. Ný, hæfileikarík skáldkona er stigin á bókmenntasviðið.


Stay with Me
Eftir Ayobami Adebayo
Canongate
Innbundin, 304 blaðsíður
KAUPA


Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.