fimmtudagur, 2. febrúar 2017

Map Stories eftir Francisca MattéoliMunið þið eftir ykkar fyrsta atlas, ykkar eigin? Fyrir utan myndir af hnettinum þá var forsíðan á mínum svört með hvítum stöfum. Ég var tíu eða ellefu ára og gleypti hann í mig. Landakort hafa undarlegt aðdráttarafl og virðast gefa von um stórkostleg ævintýri. Gömul landakort hafa alltaf heillað mig, sérstaklega þessi myndskreyttu sem eru landfræðilega kolröng. Myndir af sjávarskrímslum og seglskipum gera þau enn meira heillandi. Þið getið rétt ímyndað ykkur spenninginn þegar mér barst fyrir nokkrum mánuðum síðan eintak af Map Stories: The Art of Discovery, nýjustu bókinni eftir Francisca Mattéoli sem sérhæfir sig í ferðaskrifum, gefin út af Octopus (Ilex). Hún notar tuttugu og þrjár sögur og frábært safn sögulegra landakorta til að halda með okkur á vit ævintýra um allan heiminn þar sem við hittum kortagerðarmenn, landfræðinga, könnuði og draumóramenn. Stundum fannst mér sem ég væri að stíga inn í vídd þar sem Bilbo Baggins hittir Indiana Jones.

Kort af Nílardal eftir Nicolas de Fer og gefið út 1720, bls. 44-45

Mattéoli er ekki fræðingur á sviði landafræði og bók hennar er ekki hugsuð sem fræðirit. Í formálanum skrifar hún: „Þetta er bók sem býður lesandanum í ferðalag frá landakorti til landakorts til að hleypa ímyndunaraflinu lausu“ (bls. 7). Það er einmitt þar sem gerir bókina heillandi.

Ferðalag Mattéoli byrjar með enduruppgötvun hinnar týndu borgar Petru og endar í Kína eftir för um Silkiveginn. Þar á milli erum við á slóð Inkanna, á hinum dularfulla stað Machu Picchu; í kappinu á Suðurpólinn; á Þjóðvegi 66; í leit að upptökum Nílar; um borð í Austurlandahraðlestinni; kannski að velta því fyrir okkur hvort skrímslið Nessie leynist einhvers staðar í Loch Ness. Þetta er bara brot af áfangastöðunum.

Heimskort feneyska munksins Fra Mauro, ca. 1449, bls. 100-101

Það veltur alfarið á áhugasviði ykkar og sögulegri þekkingu hvort sumar sögur Mattéoli hljómi kunnuglegri en aðrar og hvort þær kenni ykkur eitthvað nýtt. Sérstakan áhuga hjá mér vakti sú um leitina að upptökum Nílarárinnar - leiðangur Richard Burton og John Speke - sem minnir meira á ráðgátu með dramatískum endi. Eftirfarandi lýsing er fengin af ljósmynd af kortaherbergi í Hinu konunglega landfræðifélagi (Royal Geographical Society):
[It] is plunged in a dusty half-light and decorated with maps, as one might expect. An enormous terrestrial globe fills one corner. On the upper floor, dark wood shelves are stacked with carefully arranged documents and books. On the ground floor, two large display cabinets protect the most precious objects and on a long table standing in the center of the room, pages lie spread out as if waiting to be consulted by some very serious gentleman. This was the setting that would soon be at the heart of the scandal. It was here, or at least in a similar room of this distinguished institution founded in 1830 that, around a hundred years ago, a disagreement broke out regarding the source of this fabled river, which would soon turn into a downright controversy and then a brutal confrontation. (bls. 42)

Kort af Síle (Chile), 1884, bls. 157

Með aðstoð Mattéoli hittum við ævintýramenn eins og Thomas Edward Lawrence, eða sjálfan Arabíu-Lawrence, norska landkönnuðinn Roald Amundsen, sem fyrstur náði á suðurskautið, og Peter Fleming (bróðir Ian Fleming), sem árið 1932 tók þátt í Amazon-leiðangri eftir að hafa séð auglýsingu í The Times (bók hans Brazilian Adventure, sem kom út 1933, er enn í prentun).

Map Stories gerir okkur kleift að dást að verkum frægra kortagerðarmanna og má þar nefna: Fra Mauro (sjá mynd mína hér að ofan), Fernão (Fernando) Vaz Dourado, Nicolas de Fer (sjá kort að ofan af Nílardal), Willem Blaeu og son hans Joan, Martin Behaim, Pedro Reinel og Lopo Homem, Jodocus Hondius, Guillaume Le Testu og John Speed.

Í bókinni er eitthvað fyrir alla. Og ef þið standið sjálf ykkur að því að fletta upp gömlum ferðakoffortum á netinu, eða öðrum gömlum munum sem tengjast ferðalögum, þá skil ég ykkur fullkomlega.

Kort af Suðurpólnum, 1912, bls. 120-121

Einkum er ég hrifin af hönnun bókarinnar sem er falleg viðbót í safnið á kaffiborðinu. Kortið á forsíðunni er upphleypt og innri kápan er gamalt landakort með teikningum af helstu fjöllum og ám ásamt upptökum og ósum (sjá kort). Uppsetning textans er skýr og efst á vinstri blaðsíðum eru hnit þess staðar sem um ræðir. Landakortin eru ýmist á einni blaðsíðu eða á opnu. Mig langaði að klippa sum út og ramma inn sem því miður hefði skemmt bókina.

Rithöfundurinn Francisca Mattéoli
Francisca Mattéoli er höfundur margra ferðatengdra bóka sem hafa verið þýddar á mörg tungumál. Hún hefur einnig skrifað ferðagreinar fyrir tímarit eins og National Geographic, Condé Nast Traveller og Air France Magazine. Hún heldur einnig úti bloggi á frönsku og ensku. Hún býr í París en ólst að vísu upp í Suður-Ameríku með síleskt þjóðerni (móðir er skosk). Hún vinnur nú þegar að sinni næstu bók.

Map Stories: The Art of Discovery
Eftir Francisca Mattéoli
Octopus
Innbundin, 176 blaðsíður, myndskreytt
KAUPA


Brot af Evrópukorti, notað í kennslu á grunnskólastigi, frá árinu 1880, bls. 143

myndir mínar | fyrir utan nr. 2, 4-6, birtar með leyfi Octopus Publishing Group (nr. 5 í breyttu formi) | landakort - heimildir: nr. 1 (forsíða) © akg-images/North Wind Picture Archives; nr. 2, 4-5, 7 © Bibliothèque Nationale de France; nr. 3 © akg-images/British Library


Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.