miðvikudagur, 8. febrúar 2017

№ 7 bókalisti | Vanessa Bell-sýningÍ gamla minnisbók hef ég skrifað tilvitnun sem fær mig alltaf til að hlæja. Leikkonan Emma Thompson var í NYT-dálkinum By the Book og þegar hún var spurð út í síðustu bókina sem fékk hana til að gráta svaraði hún: „I was on holiday years ago with “Corelli’s Mandolin.” Rendered inconsolable and had to be put to bed for the afternoon“ (Sunday Book Review, 23.09.2012). Ég dýrk'ana. Það er kominn tími á annan bókalista og bók Bernières er á honum, Vintage Books-útgáfa, fallega myndskreytt af Rob Ryan. Þarna er líka skáldsaga eftir Sigurð Pálsson, sem er í miklu uppáhaldi. Ég sá hann stundum á kaffihúsum í Reykjavík, alltaf svo smart til fara, gjarnan með mynstraðan silkihálsklút eða alpahúfu (hann lærði í Frakklandi). Ég hef þegar minnst á Doris Lessing og að ég væri að endurlesa Little Women. Hér er № 7 bókalistinn, sá fyrsti árið 2017 (til þæginda hef ég númerað listana):

· Fictions  eftir Jorge Luis Borges
· The Grass is Singing  eftir Doris Lessing
· The Golden Notebook  eftir Doris Lessing
· Captain Corelli's Mandolin  eftir Louis De Bernières
· Instead of a Book: Letters to a Friend  eftir Diana Athill
· Local Souls  eftir Allan Gurganus
· Parísarhjól  eftir Sigurð Pálsson
· In Montmartre: Picasso, Matisse and Modernism in Paris, 1900-1910  eftir Sue Roe
· Little Women  eftir Louisa May Alcott


Ég er næstum því með samviskubit yfir því að hafa ekki lesið æviminningar Athill, Instead of a Letter, en þegar ég sá Instead of a Book á útsölu í Waterstones vissi ég að hún færi á listann minn. Í bókinni eru bréf sem hún skrifaði í yfir þrjátíu ár til ameríska ljóðskáldsins Edward Field, sem geymdi þau og vildi gefa út. Í innganginum bendir Athill gamansamlega á:
Usually when someone's letters are published the writer is dead. In this case there was a problem: Edward is six years younger than I am, but since I'm ninety-three that doesn't make him young. If he waited until I was dead he might be dead too. (bls. vii)
Hrós til rithöfunda sem fá mann til að skella upp úr í bókabúð! Gurganus er höfundur sem ég hef ekki lesið áður. Ég keypti bókina hans eftir að hafa hlustað á samræður Michael Silverblatt við hann í Bookworm (þætti frá nóv. 2013) og endaði á því að hlusta á allar samræður þeirra. Ég var að hugsa um að setja hana upp í hillu og lesa fyrst Oldest Living Confederate Widow Tells All, en bókin togaði í mig og fór á listann. Það gladdi mig að finna bók Roe á bókasafninu. Á þessum tímapunkti get ég lítið sagt um hana annað en að ég vildi að í henni væru fleiri myndir (á myndinni minni hér að ofan sést í málverk Modigliani, Caryatid, 1911).

Vanessa Bell, Nude with Poppies, 1916

Stundum óskaði ég þess ég byggi nær London. Ef svo væri myndi ég taka næstu lest til að sjá Vanessa Bell-sýninguna í Dulwich Picture Gallery sem opnar í dag (þangað er stutt lestarferð frá miðri London). Listakonan Vanessa Bell (1879–1961) tilheyrði bóhemíska Bloomsbury-hópnum og var systir Virginia Woolf (ljósmyndin af henni sem sést á myndinni minni er tekin fyrir utan Charleston árið 1925). Sýningunni lýkur 4. júní. Í tengslum við sýninguna kemur út bókin Vanessa Bell í ritstjórn Sarah Milroy (Philip Wilson Publishers) sem mig langar að eiga. Ef þið eruð Bell-aðdáendur þá langar mig að benda ykkur á safnaratölublað Harper's Bazaar UK, mars 2017, sem er eingöngu fáanlegt í gegnum Dulwich-safnið.

Es. Mig langar að þakka bloggaranum Diana Mieczan sem skrifar exPress-o fyrir skemmtilega umfjöllun um mitt blog. Hún bendir réttilega á að undir kaffibollanum mínum er yfirleitt að finna tauservíettu. Ég byrjaði á þessu fyrir löngu síðan og vil meina að kaffið bragðist betur.

mynd mín | ljósmynd af Vanessa Bell er úr bókinni Charleston: A Bloomsbury House & Garden | málverk Amedeo Modigliani er úr bókinni In Montmartre © Musée d'Art Moderne de la Ville de Paris | málverk Vanessa Bell er af vefsíðu Art UK © 1961 estate of Vanessa Bell, Henrietta Garnett, Swindon Art Gallery


Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.