laugardagur, 24. september 2016

№ 4 fyrri bókalisti haustsins 2016Laugardagsmorgun, kaffi og bækur. Í bakgrunni í endurspilun, Cat Power að flytja sína útgáfu af Troubled Waters; ég fæ ekki leið á þessu lagi. Það er kominn tími til að deila fyrri bókalista þessa hausts - já, ég mun birta annan síðar, ég er þegar með nokkur verk í huga. Mig langaði að hafa Wonder Boys eftir Michael Chabon á þessum en hún var ekki fáanleg á bókasafninu og sú sem ég pantaði hefur enn ekki borist. Mér fannst Michael Douglas frábær í kvikmyndinni (2000) sem Curtis Hanson leikstýrði, en sá féll frá síðasta þriðjudag. Ég er þegar búin að lesa tvær bækur á listanum og ein þeirra er The Little Book of Hygge sem ég fjallaði nýverið um á blogginu. Í augnablikinu er ég að lesa fimm bækur í einu. Sumar eru smásögusöfn þannig að ég vel bara þá sem ég er í skapi fyrir. Hér er listinn minn:

· Siddhartha eftir Hermann Hesse
· The Outsider eftir Albert Camus
· The Summer Book eftir Tove Jansson
· A Winter Book: Selected Stories eftir Tove Jansson
· Anecdotes of Destiny eftir Isak Dinesen (Karen Blixen)
· In Other Rooms, Other Wonders eftir Daniyal Mueenuddin
· Kitchen eftir Banana Yoshimoto
· The American eftir Henry James
· Casino Royale eftir Ian Fleming
· The Little Book of Hygge: The Danish Way to Live Well eftir Meik Wiking

Á bókasafninu rakst ég á Kitchen, fyrstu bók Yoshimoto og varð að fá hana lánaða og lesa aftur (útgáfan Bjartur gaf hana út á Íslandi undir heitinu Eldhús). Japanskir höfundar eru svo skemmtilega öðruvísi. Fyrir mörgum árum vann ég í bókabúð með skólanum og tók þá áhættu að mæla með henni fyrir kúnna, sem virkaði á mig sem lesandi tilbúinn fyrir eitthvað óvenjulegt. Stundum gat verið erfitt að mæla með bókum, það hafa ekki allir sama smekk (sem betur fer) og mér fannst leiðinlegt að sjá fólk eyða fjármunum í bækur sem því líkaði ekki. Þessi kúnni kom sem betur fer aftur í búðina til að segja mér að hún hafi elskað bókina, sem reyndist „óvenjuleg“, og hún fór heim með bunka af mínum uppáhaldsbókum.

Stéphane Audran sem Babette í Gestaboði Babettu (1987)

Tveir norrænir höfundar eru á listanum mínum. Þið vitið nú þegar um ást mína á Karen Blixen. Fyrir mörgum árum síðan las ég Babette's Feast (Gestaboð Babettu á íslensku), sögu sem mér þykir vænt um. Hana er að finna í sögusafninu og ég hlakka til að lesa hana aftur. Hafið þið séð kvikmyndina (1987, upprunalegur danskur titill Babettes gæstebud)? Hún er ein af mínum uppáhalds. Hún hlaut Óskarinn fyrir bestu erlendu myndina. Hinn norræni höfundurinn á listanum er Tove Jansson, sem varð fræg fyrir bækur sínar um Múmínálfana (sjá nýlega færslu mína um Múmín-búðina í London). Hún skrifaði líka skáldsögur fyrir fullorðna og ég skil ekki út af hverju ég hafði ekki þegar lesið þær. Þessar tvær á listanum eru yndislegar. The Summer Book, fyrst gefin út 1972, er fallega skrifuð saga um 6 ára stelpu og ömmu hennar sem eyða sumri á agnarsmárri eyju í Finnlandsflóa (Jansson átti sjálf kofa á smárri, afskekktri eyju í Flóanum). Bókin hefur engan söguþráð, hún fjallar um lífið og náttúruna. Ákaflega hljóður og róandi lestur.

Tove Jansson í kofa sínum á finnsku eyjunni Klovharun

Hin bókin á listanum sem ég er líka búin að lesa er Casino Royale, fyrsta bók Ian Fleming um James Bond. Ég var ekki hrifin, sem er ástæðan fyrir því að hún fékk ekki að vera með á myndinni minni! Kannski hafði ég of miklar væntingar því mér fannst kvikmyndin svo góð. Söguþráðurinn er áhugaverður en mér hreinlega leiddist við lesturinn. Það voru líka setningar sem ég þurfti að lesa aftur til að trúa því sem ég var að lesa („the sweet tang of rape“ (bls. 201); hún var gefin út árið 1953 þegar tímarnir voru aðrir, en sæll, full kvenhaturslegt, ekki satt?). Einn daginn gef ég sennilega Fleming annað tækifæri og les From Russia with Love, sem margir telja hans bestu. En ekki alveg strax.

1: mynd mín | 2: stilla af vefsíðu BFI · heimild: Panorama Film A/S, Det Danske Filminstitut, Nordisk Film + Rungstedlundfonden · leikstjórn + handrit Gabriel Axel | 3: af vefsíðu Tove Jansson


Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.