miðvikudagur, 17. febrúar 2016

útirými hleypt innÍ nýjasta tölublaði Elle Decoration UK, mars 2016, er að finna margar áhugaverðar greinar sem hafa bætt upp fyrir vonbrigði mín með marstölublað The World of Interiors, en það er önnur saga (bara forsíðan ein og sér fer með mig!). Eitt af innlitunum í Elle Decoration sem mér líkaði var í fallega íbúð í Lyon sem hefur verið að skjóta upp kollinum í bloggheimum (hún birtist einnig í ástralska tímaritinu Vogue Living þar sem má sjá allar myndirnar). Annað innlit sem heillaði mig var í nútímalegt hús í Köln þar sem hönnunin sækir innblástur til Asíu (sjá Den of Zen á heimasíðu blaðakonunnar Kristina Radershad). Engar áhyggjur, ég ætla ekki að þylja upp allt sem er að finna í tímaritinu en ástæða þess að ég smellti mynd af þessari borðstofu er sú að nú fer að vora og ég er hrifin af því að hleypa útirýmum inn þegar hlýnar í veðri ('The Borrowers', bls. 178-189, íbúð í Mílanó, ljósmyndari Fabrizio Cicconi). Fyrir utan mismunandi gólfefni þá er stíllinn í íbúðinni sjálfri aðeins of flippaður, eða ófágaður, fyrir minn smekk. En þetta rými er líka eldhús og mér líkar sú hugmynd að geta haft opið út á stórar svalir og kannski fundið létta golu á meðan setið er til borðs eða þegar maður fær sér kaffibolla á morgnana.

mynd mín | heimild: Elle Decoration UK, mars 2016, bls. 186 · Fabrizio Cicconi


Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.