föstudagur, 4. desember 2015

Sunset Song og latteEruð þið byrjuð að undirbúa hátíðarnar? Ég endaði rúmliggjandi með kvef og núna vil ég helst fara úr fyrsta gír í þann fimmta og klára að gera nýja heimilið klárt fyrir jólin, en ég tel það skynsamlegra að hlusta á líkamann og hvílast aðeins lengur. Jólastjarnan og hýasinturnar eru komnar í hús og svo er ég búin að taka mikilvægustu hlutina upp úr kössum - þá á ég við bækurnar og eldhúsmunina. Restin af kössunum má bíða. Þegar maður flytur þá er það beinlínis gefið að maður rekist á hluti sem maður var búinn að gleyma þrátt fyrir að hafa verið með þá í augsýn á svo til hverjum degi. Í mínu tilfelli var það Sunset Song, klassísk skosk skáldsaga eftir Lewis Grassic Gibbon sem ég las fyrir einhverjum árum síðan í skoskum bókmenntum í háskólanum. Hún beinlínis kallaði á endurlestur með lattebollanum.

Vegna flutninganna til Skotlands þá hafði ég ekki fylgst vel með netmiðlunum og sá það ekki fyrr en eftir að ég tók bókina upp úr kassa að samnefnd kvikmynd, Sunset Song (2015), verður frumsýnd í breskum kvikmyndahúsum í dag. Leikstjóri er Terence Davies (The Deep Blue Sea (2011), The House of Mirth (2000)) sem einnig skrifaði handritið út frá bókinni. Sagan fjallar um Chris Guthrie (leikin af Agyness Deyn), dóttur bónda sem er hræðilegur harðstjóri. Hún tekur við bænum af föður sínum og missir manninn sinn í fyrri heimsstyrjöldinni. Kvikmyndagagnrýnandinn Peter Bradshaw lýsir myndinni með orðunum „a sad, sombre, deeply satisfying drama“ (The Guardian). Kíkið á stikluna ef þið hafið áhuga, eða bara til þess að heyra skoska hreiminn.TENGDAR FÆRSLUR  

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.