þriðjudagur, 11. ágúst 2015

náttúrulegt eldhús með réttri áferðRétt áferð er það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar ég skoða eldhúsið hér að ofan. Eldhús með opnum hillum einkennast yfirleitt af léttleika sem ég er hrifin af og stíliseringin á þessu, náttúruleg og hlýleg með keramiki og ýmsum munum í hlutlausum tónum, er fullkomin. Fyrir utan tvær mosagrænar eldhúseiningar er litapalettan hlutlaus sem þýðir að áferð er lykillinn að útliti sem fangar augað. Allt gengur upp hér og ábreiðan á Chesterfield-sófanum, handofið ungverskt lín, undirstrikar enn frekar hina réttu áferð. Hillur og aðrar eldhúseiningar eru smíðaðar úr ómeðhöndlaðri eik og viðarkassar eru notaðir undir ýmsa eldhúsmuni í stað þess að loka einingunum með skápshurðum.

Fyrir um þremur mánuðum síðan pinnað ég tvær myndir af þessu sama eldhúsi. Mér fannst ég kannast við myndirnar en gat ekki staðsett þær fyrr en ég fletti nýlega í gegnum bunka af tímaritum í leit að ákveðnu innliti. Í febrúartölublaði Elle Decoration UK 2015 blasti eldhúsið við mér aftur, hluti af innliti sem kallast Revival of a Classic (ljósmyndað af Michael Paul). Fyrst hélt ég að þetta væri kannski skandinavískt eldhús en það er í uppgerðu húsi í Edward-byggingarstíl við ströndina í West Sussex, í suðurhluta Englands. Ef náttúrulegur og hrár stíll höfðar til ykkar þá er þetta innlit fyrir ykkur. Eigandi hússins er Alex Legendre, sem rekur verslunina I Gigi í Brighton.

[Langar ykkur að sjá meira? Myndirnar sem ég pinnaði sína ,Butler'-vaskinn, sem var keyptur notaður, og fyrrnefnda viðarkassa. Fyrir ykkur sem notið ekki Pinterest þá getið þið séð þessar myndir á heimasíðu norska innanhústímaritsins Vakre Hjem & Interiør.]

mynd mín | heimild: Elle Decoration UK, febrúar 2015, bls. 88 · Michael Paul


Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.