fimmtudagur, 20. ágúst 2015

innbyggðir setkrókarÍ sumar hefur aðdáun mín á innbyggðum setkrókum færst upp á alveg nýtt stig. Ég held að það hafi byrjað með innliti á heimili í Ibiza sem birtist í Elle Decoration UK  og ég deildi í bloggfærslu í júní. Síðan þá hafa slíkir setkrókar verið að fanga athygli mína úr öllum áttum; einnig textíllinn, ábreiðurnar og púðarnir sem gera þá þægilegri. Ég á eintak af franska Elle Decoration frá síðasta sumri sem er stútfullt af innbyggðum setkrókum. Það hefur legið á borðinu mínu í sumar og ég varð að taka nokkar myndir fyrir bloggið. Sjáið til, ég lít á bloggið sem dagbók. Ég held ekki dagbók í kæra dagbók-stíl en er alltaf með skrifblokk innan handar. Myndræni þátturinn er mér líka mikilvægur; mér líkar að geta haldið til haga myndum á blogginu sem aðrir geta notið og sem ég get flett upp síðar meir.

Við skulum byrja á nokkrum setkrókum sem birtust í grein um gististaðinn Scorcialupi í Puglia-héraði á Ítalíu. Mér finnst svæðið utandyra hér að ofan glæsilegt og krókarnir tveir innandyra eru líka snotrir.


1-3: Scorcialupi, Elle Decoration (franska), júlí/ágúst 2014, bls. 108-117, ljósmyndari Christian Schaulin.

Eins og mér líkar setkrókurinn hér að neðan - það er jafnvægi í mildri litapalettunni - þá er ég ekki viss um að ég myndi vilja hafa svona borðkrók á veröndinni, sérstaklega ef ég væri með gesti. Ef einn þarf að standa upp þá þurfa fleiri að færa sig eða hliðra til fyrir viðkomandi. En svona hrár stíll er mér að skapi og mér finnst smart hvernig iðnaðarstíll Tolix-stólanna skapar mótvægi (þessi mynd sínir bara einn). Krókurinn tilheyrir fallegu og stílhreinu húsi á grísku eyjunni Mykonos.

4: Mykonos innlit, Elle Decoration (franska), júlí/ágúst 2014, bls. 130-141, ljósmyndari Giorgio Baroni.

Næstu myndir sýna fleiri flotta setkróka. Þær eru úr umfjöllun um lúxushótelið San Giorgio á Mykonos. Ég held að margir lesendur kannist við það og fallegan bóhemískan stílinn því það hefur verið fjallað um það á mörgum bloggum (ég deildi nokkrum myndum af því í þessari færslu). Það sem mér líkar við setkrókana innandyra er mynstrið á púðunum. Þessi stíll fær hjarta mitt til að slá hraðar.

5-7: San Giorgio, Elle Decoration (franska), júlí/ágúst 2014, bls. 52-59, ljósmyndari Giorgio Baroni.

Myndin hér að neðan til vinstri sýnir innbyggðan setkrók á verönd hótelsins sem er smekklega stíliseruð. Á myndinni til hægri sést steinhlaðinn setkrókur sem tilheyrir sumarhúsi í eigu ítalska arkitektsins Luca Zanaroli, í Puglia-héraði. Það er annar setkrókur beint á móti þessum sem ég hafði ekki á myndinni. Mér finnst sem mjúkar línur Butterfly-stólsins (AA eftir Airborne) mildi grófa áferð steinhleðslunnar.


8 (hægri): Elle Decoration (franska), júlí/ágúst 2014, bls. 142-149, ljósmyndari Christian Schaulin.


TENGDAR FÆRSLUR  

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.