föstudagur, 24. apríl 2015

kyrrlátur reitur í þorpinuÍ fyrra þegar ég flutti til South Yorkshire þá stóð ég í þeirri meiningu að ég væri að flytja í lítinn bæ. Það var ekki fyrr en fólk fór að spyrja mig hvernig mér liði í þorpinu að ég áttaði mig á því að ég byggi í einu slíku. Þegar ég hugsa um þorp þá sé ég fyrir mér örfá múrsteinshús, þröngar steinlagðar götur og gamalt pósthús með gömlu og kannski eilítið ryðguðu reiðhjóli við innganginn.


Þessi fallegi reitur við kirkjuna er líklega einn fárra sem minna á þorp, ef umferðarniðurinn frá megingötunni er ekki talinn með. Kirkjan kallast St. Saviour og þar sem ég fer ekki í messu þá hef ég aldrei stigið inn í hana. Ég tók ekki eftir bekknum fyrr en ég var í göngutúr með syni mínum á sólríkum vordegi og sá að tréð hafði blómgast. Þessi reitur var eins og segull sem dró okkur yfir götuna; hann virkaði svo friðsæll. Þegar við tókum eftir áletruðu plötunni undir trénu þá einhvern veginn jókst sérstaða þessa reitar.Stundum líður mér eins og ég sé áttræð þegar ég tala um veðrið á blogginu en þessa dagana er hreinlega eins og sumarið sé komið! Við vorum í London á þriðjudaginn og borgin iðaði af lífi; fólk í stuttbuxum eða pilsum í sólinni; kaffihús og veitingastaðir þéttsetnir utandyra og allir glaðir. Við enduðum daginn í Chelsea-hverfinu og nutum góðs matar og kaffis á Startisans, sem er „pop-up“ kaffihús með götumat á the Duke of York Square-torginu. Ég hefði getað setið þar fram eftir kvöldi og notið þess að fylgjast með umhverfinu og fólkinu.

Góða helgi!


Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.