miðvikudagur, 10. september 2014

tískuvikan í New York: vor 2015

Hvað segiði um tískuvikuna í New York, eruð þið að fylgjast með? Ég get ekki sagt að ég hafi legið yfir þessu en ég bíð alltaf nokkuð spennt eftir því að sjá hvað ákveðnir hönnuðir kynna. Að mínu mati eiga Olsen systurnar, sem hanna undir heitinu The Row, eina bestu vorlínu ársins 2015. Ég deildi hluta af henni í dag á ensku útgáfu bloggsins ásamt nokkrum flíkum frá Jason Wu og Donna Karan. Ég vildi ekki endurbirta þær myndir hér heldur kaus að sýna ykkur nokkrar frá Halston Heritage, Michael Kors, Tory Burch og Diane von Furstenberg.

Marie Mazelis hjá HALSTON HERITAGE kynnti vorlínuna daginn áður en sjálf tískuvikan hófst og í henni er að finna margar virkilega fallegar flíkur fyrir þetta endurreista tískuhús, sem Roy Halston Frowick setti á fótinn á 7. áratugnum og er oft kennt við Andy Warhol og Studio 54-tímabilið. Ég hefði gjarnan viljað birta fleiri myndir en það er því miður einhver tæknivilla á vefsíðu Style.com og sumar myndir tískuhússins birtast ekki í stórri upplausn. Leikkonan Sarah Jessica Parker á sennilega einhvern þátt í því að tískuhúsið var endurreist því sem dæmi klæddist hún svo til eingöngu gömlum Halston-flíkum í síðari Sex and the City-kvikmyndinni, sem heldur betur vöktu athygli.
Það er alltaf hægt að treysta á að hönnuðurinn MICHAEL KORS sýni föt sem höfði til sem flestra, fallegar og klassískar flíkur sem auðveldlega rata í fataskápinn og eru notaðar. Sýningarnar hans eru auk þess skemmtilegar að því leyti að hann sýnir alltaf herrafatnað um leið og hann kynnir kvenfatnaðinn. Ég kaus að birta bara þrjár myndir til að drekkja ykkur ekki, en í vorlínunni hans er að finna fallegar ljósblár skyrtur, nokkrar sólgular flíkur sem voru ansi smart og alls kyns mynstraðar flíkur. Kvöldfatnaðurinn einkenndist svo af svörtu.
TORY BURCH telst seint til minna uppáhaldshönnuða en guli liturinn í palettunni hennar fyrir vorið 2015 finnst mér ákaflega fallegur, þessi sem sést á mynstraða pilsinu. Þegar mynstrum er blandað svona saman er útkoman annaðhvort virkilega smart eða ekki, það er eiginlega enginn millivegur þar, alla vega ekki að mínu mati. En þessi samsetning hér að neðan fær mitt samþykki.

Ég veit ekki hvernig ég á að lýsa því en það er yfirleitt þannig með línurnar frá DIANE VON FURSTENBERG að þær annaðhvort hrífa mig eða þá að ég finn bara eina flík sem ég gæti hugsað mér að eiga. Oftast eru það bara sniðin sem höfða ekki til mín. Vorlínan hennar fyrir 2015 er þannig að ég heillaðist bara af þessum eina kjól. Og það skemmtilega er að þegar hún svo steig á tískupallinn í lok sýningarinnar þá klæddist hún sjálf einmitt þessum sama kjól. Hún er orðin 67 ára gömul en er enn svakaleg skvísa.
myndir:
1-4: Halston Heritage vor 2015 | 5-7: Michael Kors vor 2015 | 8-11: Tory Burch vor 2015 | 12: Diane von Furstenberg vor 2015 af vefsíðunni Style.com


Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.