fimmtudagur, 11. september 2014

heimagerður hindberjasafi í boði Ikea

Í júlí rakst ég á þessa fallegu mynd á Livet Hemma, bloggi sem sænska Ikea vefsíðan heldur úti. Stílistarnir þeirra útbúa oft skemmtilegar matarmyndir þegar verið er að kynna nýja eldhúslínu eða muni og þá fylgir gjarnan uppskrift. Ég hef ekki prófað þessa uppskrift að hindberjasafa sem inniheldur 2 kíló (4 lítra) hindber, 1½ lítra vatn, 1 kíló sykur og safa úr 1 sítrónu. Mér finnst sykurmagnið alltof mikið og myndi alveg örugglega minnka það verulega og nota frekar blöndu af lífrænum hrásykri, agave sírópi og stevia dropum.

Sigrún vinkona, sem heldur úti CafeSigrun vefnum, sendi mér flösku af Via Health stevia dropunum um daginn sem ég er búin að vera að prufa mig áfram með og mér líst vel á þá. Eftir flutningana til Englands datt sonur okkar beint inn í bresku tehefðina og fær sér alltaf te á kvöldin í stórum bolla, rosa fínt Earl Grey te frá Clipper, sem honum þykir best. Hann notar út í það mjólk og demerara sykurmola og ég er búin að reyna að fá hann til að minnka sykurmagnið. Núna samþykkir hann að nota 1 mola og stevia á móti. Ég prófaði svo að baka glútenlausa súkkulaðiköku í gær þar sem hluti sætunnar var stevia og hún heppnaðist mjög vel. Sem betur fer er ekkert glútenóþol á okkar bæ en mig langar að eiga góða uppskrift ef gesti með slíkt óþol ber að garði og mig langar líka að hafa uppskriftina á matarblogginu. Ég deili henni þegar ég er búin að negla hana niður.

Talandi um Sigrúnu, sáuð þið sýnishornið hér á blogginu úr uppskriftabókinni hennar? Bókin er ekki enn komin út en ég læt ykkur að sjálfsögðu vita hvenær það gerist.

mynd:
Malin Cropper fyrir Ikea Livet Hemma


Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.