mánudagur, 9. júní 2014

garðyrkjustöðin Walkers Nurseries

Í næsta bæ er ég búin að uppgötva þessa líka dásamlegu garðyrkjustöð sem kallast Walkers Nurseries. Ég keypti lavender þar um daginn og leirker sem ég setti við útidyrnar og í gær langaði mig að kaupa körfu með sumarblómum og hengja á lugt sem er framan á húsinu. En þegar ég var búin að skoða úrvalið, sem er ansi mikið, þá endaði ég aftur þar sem lavender-plönturnar eru geymdar og fékk mér aðra og leirker undir hana (ég deildi mynd á Instagram í gær). Ég bókstaflega elska lavender og vonast til að lokka að býflugur með sitt róandi suð. Á meðan ég skoðaði blómaúrvalið og smellti af nokkrum myndum (það eru aðeins fleiri á ensku útgáfu bloggsins í dag) þá sátu feðgarnir á útisvæði kaffihússins sem er þarna líka og slökuðu á. Þessar myndir gefa ykkur bara nasasjón af því starfi sem þarna fer fram. Það eru heilmiklir garðar þarna allt um kring sem ég á eftir að ganga um og taka myndir af, meðal annars ítalskur og japanskur garður. Svo er auk þess að finna gjafavörubúð, litla bókabúð, garðhúsgögn, styttur í garða og margt fleira. Ég er enga stund að hjóla þarna út eftir og hlakka til að grípa latte á kaffihúsinu og rölta um garðana síðar meir.
myndir:
Lísa Hjalt


Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.