fimmtudagur, 1. maí 2014

notaður batik-vefnaður úr indígó

Í síðasta pósti mínum í náttúruleg efni seríunni var ég að tala um malíska textílhönnuðinn Aboubakar Fofana, umhverfisvæna framleiðlu hans og jurtalitun með indígó. Ég er búin að vera haldin nettu indígó æði og í möppum mínum er að finna nóg af efni, eins og þennan notaða etníska vefnað sem Clubcu selur. Fyrirtækið sérhæfir sig í hvers kyns endurunnum efnum og notuðum hlutum. Það eru smáatriðin í textílnum sem heilla mig, en þetta er batik-vefnaður sem er litaður með indígó.

Jurtalitun með batik-aðferð fer þannig fram að notað er vax til þess að búa til mynstur. Vaxið er borið á hluta vefnaðarvörunnar sem ekki á að jurtalita. Þetta er ferli sem hægt er að endurtaka og endanlega er vaxið fjarlægt og þá er varan tilbúin. Þetta er forn hefð sem á uppruna sinn á eyjunni Jövu í Indónesíu.
Ástæða þess að mig langaði að halda áfram að fjalla um indígó er sennilega sú að benda á hið augljósa, að það sé engin ástæða til þess að nota ekki liti þegar kemur að því að skapa náttúrleg heimili. Hlutlausir litir einkenna gjarnan stíl slíkra heimila. Það er stíll sem ég er að vísu hrifin af svo lengi sem notaður er viður, vefnaður og skrautmunir með ólíkri áferð, sem gerir stílinn áhugaverðan. Notkun textíls er leið til þess að gera náttúruleg heimili litríkari, við þurfum bara að gæta að því að nota umhverfisvæn efni, úr t.d. bómull, líni og ull, sem eru jurtalituð án kemískra efna sem skaða náttúruna.


Ég minntist á bók um indígó í fyrrnefndri bloggfærslu og það eru tvær aðrar bækur sem mig langar að benda ykkur á: Indigo: Egyptian Mummies to Blue Jeans eftir Jenny Balfour-Paul og Indigo: The Colour that Changed the World eftir Catherine Legrand. Þær eru án efa innblástur fyrir þá sem vilja skreyta náttúrleg heimili sín með jurtalituðum indígó-textíl.
myndir:
Clubcu


Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.