fimmtudagur, 24. apríl 2014

malíski textílhönnuðurinn Aboubakar Fofana

Upp á síðkastið hef ég verið sérstaklega hrifin af blálituðum munum fyrir heimilið, þá sérstaklega textíl sem unninn er úr indígó. Í hvert sinn sem ég fletti tímaritum þá stend ég sjálfa mig að því að leita að þessum litum, sem innblástur fyrir þá hugmynd að nota þá til þess að gera breytingar á heimaskrifstofunni. Einn morgun sat ég við skrifborðið að drekka latte þegar að ég allt í einu mundi eftir malíska textílhönnuðinum Aboubakar Fofana og gullfallega textílnum sem hann framleiðir á umhverfisvænan máta úr indígó jurtinni.

Aboubakar Fofana fæddist árið 1967 í Bamako í Malí og hefur eytt mestum hluta ævinnar í Frakklandi. Þegar hann sneri aftur til Malí uppgötvaði hann að sú hefð að nota indígó sem litunarefni var að falla í gleymsku þannig að hann leitaði uppi gömlu meistarana til að læra listina. Það er Fofana að þakka að þekking þeirra - náttúruleg jurtalitun með indígó plöntunni - hefur varðveist. Síðar meir hlaut hann styrk til þess að læra af hinum japanska Akiyama Masakazu, sem er meistari á sviði jurtalitunar. Það var í Japan sem Fofana vann að því að þróa og bæta tækni sína.

Núna eyðir hann tíma sínum á milli Bamako, þar sem hann er með vinnustofu, París og Tokyo, og hann ferðast um allan heim til að deila þekkingu sinni og tækni með öðrum. Hann er auk þess skrautskrifari, en þá list nam hann í Japan.
Grænu lauf indígó plöntunnar eru notuð til að framleiða mismunandi bláa litatóna, bæði ljósa og dökka, sem sést vel í verkum Fofana. Hér að neðan má sjá skilkiklút sem hefur verið litaður náttúrulega með indígó. Efsta myndin sýnir hvar hann dýfir efni ofan í náttúrulegan gerjunarlög. Fyrst tekur efnið grænan lit þar til það kemst í snertingu við súrefni. Það er oxunin sem rólega kallar fram bláa litinn. (Ef þetta er eitthvað sem þið hafið áhuga á þá getið þið lesið bókina Indigo: In Search of the Colour that Seduced the World eftir Catherine E. McKinley.)

Hver einasti munur sem Aboubakar Fofana hannar er unninn úr náttúrulegum efnum og í þeim sameinast vestur-afrískar hefðir og nútímaleg hönnun. Hönnun Fofana er sjálfbær, hann notar engin kemísk efni sem eru skaðleg náttúrunni. Hann notar lífræn efni og þræði, þá helst lífræna malíska bómull, sem er handspunnin og handofin. Hann er bæði vefari og jurtalitari, og notar bæði malíska og japanska tækni. Fyrir utan að vinna með indígó þá notar hann einnig aðra malíska jurtalitunarhefð sem kennd er við svæðið Bogola, en í henni felst að nota gerjaða mold til litunar.


Það er eitthvað andlegt og dulspekilegt við hönnun Fofana, þar sem menningar Vestur-Afríku og Japans mætast. Hann ræðir þetta í viðtali við tímaritið Selvedge (ég læt þetta standa óþýtt):
He … likens the approach to natural indigo dyeing in Japan and west Africa as remarkably similar considering the physical distance separating the cultures. 'Japanese culture has Shinto and west Africa animism; they are exactly the same … In west Africa you say a prayer to the indigo gods to bless a new born indigo vat, in Japan you offer sake to the indigo god to bless a new vat,' he explains of the rituals that inform the process. (Jessica Hemmings)
myndir:
1, 6-9: Lauren Barkume Photography / 2-3: François Goudier af vefsíðu Atelier Courbet / 4-5: af vefsíðu Selvedge


Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.