fimmtudagur, 17. apríl 2014

kirsuberjatré í blóma á fallegum vordegi

Í dag ætlaði ég að birta aðrar myndir þar sem þemað er vorið (þetta er síðasti pósturinn í vorseríunni) en ég skipti um skoðun þegar ég sá myndina hér að ofan. Sonur minn, átta ára, tók hana. Við eyddum gærdeginum í sveitasælu í Derbyshire og á leiðinni heim varð hann örlítið bílveikur þannig að vinir okkar hleyptu okkur bara út hjá skólanum og við löbbuðum heim til að fá ferskt loft. Í allan gærdag var hann með kíkinn sinn á lofti að fylgjast með fuglalífinu og hann var að segja mér að hann langaði í upptökuvél. Rétt hjá húsinu okkar stendur þetta líka glæsilega kirsuberjatré sem er núna í fullum blóma og ég varð að staldra við og taka nokkrar myndir. Þegar hann spurði hvort hann mætti líka taka myndir þá sagði ég að sjálfsögðu já. Ég sá um ,manual'-stillingarnar fyrir hann og sýndi honum hvernig hann ætti að halda „réttri“ lýsingu (exposure) og leyfði honum svo að spreyta sig. Það var örlítill vindur í lofti og því var smá hreyfing í sumum myndunum (myndirnar að öðru leyti mjög flottar) en þessi fannst mér fullkomin. Það var hrein unun að fylgjast með honum munda vélina.

Ég óska ykkur gleðilegra páska!
myndir:
1: sonur minn / 2-4: Lísa Hjalt


Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.