mánudagur, 3. mars 2014

innlit: brúnsteinshús endurhannað af John B. Murray

Ég er alltaf svolítið veik fyrir fallegum brúnsteinshúsum. Þetta var byggt upp úr 1890 og var endurhannað af arkitektinum John B. Murray. Það kemur hvergi fram á vefsíðunni hvar húsið er en mig grunar að þetta sé í New York. Það var einkum verönd hússins sem heillaði mig upp úr skónum.

Ég get ekki sagt að húsgögnin séu minn stíll en flygill á heimilum skapar alltaf vissa stemningu. Eins og sést þá er ekki mjög vítt til veggja, stofurnar virðast litlar og eldhúsið virkar svolítið þröngt (veröndin bætir upp fyrir það).

Stíllinn á húsgögnunum er ekki í höndum arkitektsins en ég vildi að eigendurnir hefðu valið önnur húsgögn fyrir setustofuna hér að neðan. Ég er ekki hrifin af þeim stíl þegar áklæði á sófum og stólum ná niður á gólf, eru með pilsi eins og það kallast á ensku. Fyrir mér eru slík húsgögn tabú í litlum rýmum. Þarna hefði ég valið að láta sjást undir sófann og stólinn til að láta rýmið virka stærra og ég hefði valið ljósari áklæði. En til að segja eitthvað jákvætt þá finnst mér mynsturmottan flott, hún bara nýtur sín ekki með þessum húsgögnum.

myndir:
John B. Murray Architect