mánudagur, 24. febrúar 2014

vorstemning í boði Ikea Livet Hemma


Ég hef nú þegar minnst á að það er kominn vorhugur í mig. Krókusar og páskaliljur eru í blóma
í garðinum og margar aðrar plöntur sem ég kann ekki nöfnin á eru að undirbúa sig fyrir vorið. Núna
í morgun sá ég hvar brumið er að stækka hratt á magnólíutré eins nágrannans. Þetta minnti mig á
þessar myndir sem ég hef safnað saman af vefsíðunni Ikea Livet Hemma, en á blogginu þeirra er
oft að finna skemmtilega stíliseringu sem veitir innblástur.


Þar sem við fluttum hingað í nóvember þá höfum við bara séð garðinn í blóma á myndum og það
er ekki alveg að marka. Það verður gaman að sjá hvernig garðurinn raunverulega lítur út þegar
allt er í blóma (ég lofa myndum). Ég efast um að ég komi til með að planta nokkru sjálf í beðin en
hér er stór og góð hellulögð verönd og á henni er nóg pláss fyrir blómaker. Það eru nokkur ker á
veröndinni en ég þekki ekki allar plönturnar í þeim. Ég er að velta því fyrir mér hvort það geti verið
að kirsuberjatré sé að vaxa í tveimur - það væri nú dásamlegt! Eftir að hafa verið með kirsuberja-,
plómu- og eplatré í garðinum í Luxembourg þá finnst mér svona falleg blómstrandi tré ómissandi
á vorin. Ef þetta er eitthvað annað sem er að vaxa í kerunum þá bara kaupi ég kirsuberjatré.


Ég verð að bæta við hvað mér finnst þetta útieldhús á neðstu myndinni einfalt og flott. Ég væri til í
svona. Í einu horni garðsins er pergóla (mér finnst stundum erfitt að finna gott íslenskt orð á þetta;
klifurgrind hljómar alltaf eins og leiktæki og svo hef ég séð laufþak sem er kannski betra orð) sem
er ekki jafn stór og þessi, en þar eru tvö grill og núna þrjú með okkar eigin grilli. Ég er því með eins
konar útieldhús, bara ekki svona flott hillupláss og vask.


myndir:
af IKEA Livet Hemma - 1: Ragnar Ómarsson / 2: Nina Broberg / 3: Nina Broberg / 4: Anders Jungermark | stílisering:
Johanna Laskey / 5: úr bókinni Kliv UtEngin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.