miðvikudagur, 12. febrúar 2014

tískuvikan í New York: haust/vetur 2014

Tískuvikan í New York er í fullum gangi en henni lýkur á morgun og næst tekur við tískuvikan í London, sem hefst 14. febrúar. Ég get ekki sagt að ég sé búin að liggja yfir þessu því ég er spenntari fyrir tískuvikunum í Mílanó og París. Ég hlakka til dæmis mikið til að sjá hvað Nicolas Ghesquière gerir fyrir Louis Vuitton, en fyrir ykkur sem fylgist kannski ekki með þá tók hann við af Marc Jacobs sem listrænn stjórnandi tískuhússins, eftir fimmtán farsæl ár hjá Balenciaga. En aftur til New York því í dag kynnir Michael Kors sína línu - alltaf gaman að sjá hvað hann kynnir - og á morgun fáum við að sjá hvað Ralph Lauren ætlar að bjóða upp á í haust. Ég ákvað að setja saman í færslu nokkrar af mínum uppáhaldsflíkum hingað til frá Suno, Altuzarra, Rag & Bone og Victoria Beckham (ef þið viljið fylgjast með þá pinna ég alltaf einni og einni flík).

Ég myndi líklega seint flokka SUNO sem mitt uppáhaldsmerki en það sem mér líkaði við haustlínu Erin Beatty og Max Osterweis fyrir 2014 var hvað fötin virtust laus í sniðum og þægileg. Buxurnar hér að ofan eru mér að skapi - þetta er liturinn minn - og síða vestið hér að neðan er ein af þessum tímalausu flíkum sem passar svo til við allt; gallabuxur upp á hversdagslegra útlit og t.d. svartar buxur ef tilefnið er fínna.

Það er ekki bara litapalettan fyrir haustið sem höfðar til mín heldur eru það allir jakkarnir og kápurnar sem sjást á tískupöllunum sem heilla. Ég féll kylliflöt fyrir þessari köflóttu kápu sem þeir Marcus Wainwright og David Neville hjá RAG & BONE sýndu fyrir haustið og þess vegna birti ég eina nærmynd líka.

Talandi um kápur. Joseph ALTUZARRA bauð svo til upp á jakka- og kápuveislu fyrir næsta haust. Þessi blái litur á jakkanum og kápunni finnst mér ákaflega fallegur og flott hvernig hann brýtur útlitið upp með öðrum tón á beltinu. Kápuna sýndi hann til dæmis líka í fallegum dökkgrænum lit eingöngu.

VICTORIA BECKHAM er fyrir löngu búin að sanna sig fyrir mér; hún er alveg komin til að vera. Ég verð samt að segja að haustlínan hennar í heildina er kannski ekki mín uppáhalds til þessa. En það sem mér líkar við hana er hvað fötin virka þægileg; þau eru víðari en venjulega. Litapalettan var aðallega svört og hvít og dressið hér að neðan heillaði mig sérstaklega, sennilega vegna þess að það kom mér svolítið á óvart. Það er einhver bóhemstíll á því sem mér líkar og átti ekki von á frá frú Beckham.

myndir:
1-2: Suno / 3-4: Rag & Bone / 5-6: Altuzarra / 7: Victoria Beckham haust 2014 af vefsíðu Vogue US


Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.