fimmtudagur, 20. febrúar 2014

needthrow-ecru ábreiða frá Tine K Home

Eins og ég sagði ykkur í síðustu viku þá er búið að vera ansi skýjað. Mig langaði að sýna ykkur horn á mínu eigin heimili en ég þarf meiri birtu til að taka myndir af því. Það bara gengur ekki að birta hálf dimmar myndir af nýjum hlut sem mig langaði að deila með ykkur. Kannski verður heppnin með mér í næstu viku. Þessa dagana er ég að hugsa um vorið og þegar ég sá Tine K Home kynna nýjar needthrow-ábreiður í vikunni þá vissi ég að ég yrði að deila einni í náttúruleg efni seríunni.

Needthrow-ábreiðurnar frá Tine K Home eru úr bómull sem er ofin á sérstakan máta. Ég kann ekki að útskýra það á íslensku en á ensku kallast það jacquard weave. Ég er sérstaklega hrifin af ábreiðunni í ljósa eða hvíta litnum sem kallast Needthrow-ecru. Ábreiðan er einnig fáanleg í bláum og gráum lit.

stærð 140 x 200 cm

Ég hef ekki meðhöndlað needthrow-ábreiðurnar og veit því ekki hver áferðin er, en af myndunum að dæma líta þær út fyrir að vera léttar, sem er kjörið fyrir vorið og sumarið. Mig langar að kaupa nokkra nýja hluti fyrir heimilið í vor og ég hafði hugsað mér ábreiður í hlutlausum lit sem passa við púðana sem ég á nú þegar.

TINE K HOME
Tine K Home er danskt merki, stofnað árið 1999 af Tine Kjeldsen og eiginmanni hennar Jacob Fossum. Aðsetur fyrirtækisins er í Óðinsvéum en vörur þeirra eru seldar í mörgum löndum. Þið getið kynnt ykkur söguna hér.

Línurnar frá Tine K Home samanstanda af
ástríðu Tine fyrir fallegum munum, ljúfum minningum, ólíkum menningarheimum, og góðum sögum. [Þær innihalda] textíl, húsgögn og muni fyrir heimilið sem eru þeirra eigin hönnun eða eitthvað sem þau finna á ferðum sínum um Víetnam, Marokkó, Indland, o.s.frv. Ástríðu sína á ,köldum' litum sameinar hún skandinavískum einfaldleika í handgerðum munum og heillandi hlutum frá ólíkum menningarheimum sem saman skapa hlýlegt og notalegt andrúmsloft.
Tine segir að sér líki „munir sem hafa sögu, sem eru handgerðir og öðruvísi,“ en slíka hluti finni hún yfirleitt ekki í Danmörku.

mynd:
Tine K Home


Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.