mánudagur, 3. febrúar 2014

innlit: hlýlegur og hrár stíll í Toscana-héraði

Innlitið að þessu sinni er hlýlegt sveitasetur, La Convertoie, í Toscana-héraði á Ítalíu sem birtist í tímaritinu Architectural Digest í mars árið 2010. Það samanstendur af húseign og fornri kirkju sem eiga rætur að rekja til 11. aldar. Setrið er í 3ja kílómetra fjarlægð frá bænum Greve In Chianti (það eru ca. 26 km til Flórens og 40 km til Siena). Núverandi eigendur keyptu eignirnar og fengu ítalska arkitektinn Marco Videtto til þess að sameina þær í eina stóra eign. Innanhússhönnun var í höndum Susan Schuyler Smith. Ég rakst fyrst á myndina af bókaherberginu á netinu og vildi endilega sjá restina af húsinu. Ég sleppti því að birta hér myndirnar af stofunni því hún höfðaði ekki til mín (þið getið skoðað hana með því að smella á tengilinn neðst í færslunni).

Útlitið í eldhúsinu gerist varla ítalskara; viðarbitar í lofti og terracotta-flísar á gólfinu. Arinninn er frá miðri 19. öld og fékk að halda sér.

Eins og sjá má er veröndin hin glæsilegasta í einfaldleika sínum og terracotta-blómakerin setja svip sinn á hana. Útsýnið hlýtur að vera dásamlegt, eins og neðsta myndin gefur til kynna. Það var landslagsarkitektinn Nancy Leszczynski sem sá um verkið. Hún lét planta ýmsum plöntum og jurtum, m.a. salvíu, rósmaríni og granateplatré.

Hér má sjá setrið, þ.e. gömlu kirkjuna og húsið sem voru sameinuð, úr fjarlægð.

Ég komst að því að hluti hússins er dvalarstaður sem hægt er að taka á leigu því ég fann tengil á þetta sama sveitasetur á HomeAway-vefnum. Ég væri nú ekkert á móti nokkurra daga fríi í svona fallegu umhverfi.

myndir:
Kim Sargent fyrir Architectural Digest


Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.