föstudagur, 3. janúar 2014

góða helgi

Allra jafna fylgir enginn texti föstudagspóstunum mínum, bara blóm, en mig langaði að segja nokkur orð í upphafi nýs árs. Ég vona að árið 2014 leggist vel í ykkur og að þið hafið náð að hlaða batteríin í jólafríinu. Hér á blogginu mun ég halda áfram uppteknum hætti, að pósta því sem veitir mér innblástur, en það verða líka nýjungar. Alla vega ein ný sería mun líta dagsins ljós innan tíðar og mig langar að kynna ykkur fyrir fallegum stöðum á West Midlands svæðinu. Mig langar líka að sýna ykkur Birmingham þegar ég er búin að kynna mér borgina betur. Fáir virðast vita að borgin er mjög græn og í fyrra opnaði þar stærsta bókasafn í Evrópu - eitthvað fyrir bókakonuna mig. Það tekur mig svo bara 90 mínútur að skreppa til London með lest þannig að hún fær væntanlega að blómstra hér á blogginu þegar við erum búin að koma okkur betur fyrir.

Ég hef aldrei verið mikið fyrir að básúna þessi blogg mín, kannski vegna þess að nóg af kynningardrasli dynur á okkur dagsdaglega. En fyrir ykkur sem viljið fylgjast með og fá uppfærslur þá er ég með Facebook síðu fyrir íslenska bloggið og núna um áramótin opnaði ég síðu á Twitter. Ég tek það fram að ég nota þessa miðla til þess að uppfæra bloggið, ég er ekki að deila einhverjum auglýsingum. Einstaka sinnum vísa ég á eitthvað áhugavert sem ég finn á netinu.

Góða helgi!

mynd:
Jen Huang af Pinterest


Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.