þriðjudagur, 24. desember 2013

Gleðileg jólÉg er byrjuð að sjóða möndlugrautinn fyrir kvöldið og vanillulyktin berst um allt hús. Dásamlegt! Mér finnst gaman að sjá að möndlugrauturinn er sú uppskrift sem flestir eru að skoða á matarblogginu þessa dagana, einnig sætkartöflumúsin með pekanhnetunum og rósakálið góða sem Nigella Lawson heillaði mig með hér um árið. Allt þetta verður að sjálfsögðu á jólaborðinu okkar í kvöld með kalkúninum. Það sem ég hlakka til að setjast niður og borða veislumat!

Ég keypti mér nýjan hvítan dúk í John Lewis og tauservíettur líka (kíkið endilega á krúttlegu jólaauglýsinguna þeirra í ár, um dýrið sem hafði aldrei séð jólin). Ég tók nokkrar myndir í gær þegar ég var að undirbúa borðið. Ég keypti greinarnar með berjunum á Íslandi fyrir mörgum árum og þær voru eitt af því fáa sem ég tók með þegar við fluttum út.


Ég gæti varla hugsað mér jól án bókapakka frá Amazon. Í ár gaf eiginmaðurinn mér nokkrar á óskalistanum: tvær á borðið í setustofunni, Ralph Lauren (risastór og full af myndum) og The Natural Home eftir stílistann Hans Blomquist. Ég verð að fá bókmenntir líka og núna fékk ég fallega innbundna útgáfu af Persuasion eftir Jane Austen, en ég er einmitt að safna þessum útgáfum frá Penguin bókaforlaginu. Það var svo líka smá Downton Abbey í pakkanum (hlakka til að sjá jólaþáttinn sem verður sýndur í sjónvarpinu hér á morgun). Pósturinn færði mér svo þrjá pakka í gær frá vinum á Íslandi með bókum þannig að það verður enginn skortur á lesefni þessi jól.


*Vantar þig hugmyndir fyrir jólin? Kíktu á jólaborðið mitt á Pinterest.

Ég óska ykkur öllum gleðilegrar og friðsælar hátíðar!

mynd:
Lísa Hjalt

_
Click for LATTELISA ENGLISH VERSION

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.