föstudagur, 22. nóvember 2013

góða helgi

Eru ekki allir að komast í smá jólaskap? Yfirleitt er ég með hvíta túlipana á borðum um jólin en mér finnst það góð tilhugsun að velja bleik blóm, ef mögulegt er, og blanda saman bæði hlýjum og eilítið köldum tónum eins og er gert hér.

Ef þið hafið þegar kíkt á ensku útgáfu bloggins í gær þá hafið þið væntanlega lesið að nú er ég að blogga frá Englandi (ég tala á svipuðum nótum á þessu bloggi í dag þar sem ég varð netlaus í gær.). Við kvöddum Luxembourg nýverið í leit að nýjum ævintýrum og búum núna á West Midlands svæðinu, ekki langt frá Birmingham. Þetta gerðist nú allt hraðar en ég átti von á því ég var ekki búin að sjá fyrir mér flutningana sjálfa fyrr en kannski í kringum áramótin. En svo fóru hjólin að snúast verulega hratt og við vorum allt í einu á hvolfi að pakka. Áður en við vissum af þá sátum við í ferjunni frá Calais til Dover með góðan hluta búslóðarinnar. Ég viðurkenni að ég var dauðuppgefin!

Þetta leggst allt saman vel í okkur enda erum við óhrædd að takast á við breytingar. Ný heimkynni skapa ný tækifæri og þetta er bara spurning um að sleppa taki á óttanum við hið óþekkta. Ef það er einhver að lesa þetta sem hefur langað til að búa erlendis þá segi ég bara: kýldu á það! Ekki láta hugann hræða þig með óþarfa áhyggjum. Ef þú hefur vott af hugrekki þá er þetta ekkert mál.

Ég veit ekki hversu dugleg ég verð að blogga á næstunni því ég er jú upptekin að koma okkur fyrir; að breyta húsi í heimili og að koma börnunum í skóla. Það tekur alltaf smá tíma að fá þessa ég er komin heim tilfinningu. Ég held að það gerist í smáum skrefum og tilfinningin dýpkar með hverju skrefi. Þegar ég var að raða bókunum mínum í gær þá fannst mér ég einmitt finna hvernig hún dýpkaði, en kannski voru það bara bækurnar sem höfðu þessi áhrif á mig. Ég elska jú bækur.

Í augnablikinu þarf ég að styðjast við nettenginu sem er til bráðabirgða. Ég get ekki alveg stólað á hana þannig að það eru kannski einhverjir dagar þar til ég get bloggað reglulega. En nýju heimkynnin hafa veitt mér innblástur og ég er þegar byrjuð að merkja við staði í Staffordshire og Warwickshire sem mig langar að skoða og jafnvel deila með ykkur. Kannski á ég eftir að falla svo vel inn í umhverfið hérna að ég verð ofur-bresk, hætti að drekka latte og breyti heiti bloggsins í EarlGreyLísa. Maður veit aldrei!

*Vantar þig hugmyndir fyrir jólin? Kíktu á jólaborðið mitt á Pinterest.

mynd:
Johan Carlson fyrir Sköna hem

_
Click for LATTELISA ENGLISH VERSION

2 ummæli:

  1. Sæl Lisa, alltaf gaman að lesa bloggið þitt . Til hamingju! með nýju heimkynnin þín, ég óska þér alls hins besta á nýjum stað ,hlakka til að fylgjast með þér :)

    SvaraEyða

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.