miðvikudagur, 2. október 2013

tískuvikan í París: Chloé - vor/sumar 2014

Undanfarnar vikur hafa tískuhúsin verið að kynna vor- og sumarlínur næsta árs. Fjörið byrjaði í New York, svo tók London við, þar á eftir var það Mílanó og að lokum París, en tískuvikunni þar lýkur einmitt í dag. Ég hef nú ekki komist yfir það að skoða þetta allt - geri þetta í smáskömmtum - en af því sem ég er þegar búin að sjá þá fer línan sem Clare Waight Keller kynnti fyrir CHLOÉ í París á sunnudaginn í flokk með mínum uppáhalds. Það lítur út fyrir að næsta vor og sumar í fötum frá Chloé komi til með að snúast um þægindi. Litapalettan er auk þess mér að skapi.

Hin breska Clare Waight Keller er búin að hanna fyrir Chloé síðan 2011, en hún byrjaði þar viku eftir að hafa átt sitt þriðja barn. Hún er búin að vera í tískubransanum í yfir 20 ár og hefur unnið fyrir Calvin Klein, Ralph Lauren, Gucci (þegar Tom Ford var yfir öllu þar) og Pringle of Scotland.

Ég hef lesið nokkur viðtöl við hana og það sem heillar mig mest í fari hennar er hversu mikil fjölskyldumanneskja hún er. Í einu þeirra þegar hún var spurð hvað hún gerði til þess að slaka á þá var svarið að elda fyrir manninn sinn á heimili þeirra í 16. hverfi í París. Hann situr með rauðvínsglas í hendi á meðan hún stússast í eldhúsinu og þau nota tímann til að tala saman. Þetta fannst mér dásamlegt svar; tískuhönnuður sem stússast í eldhúsinu fær plús frá mér.

myndir:
Chloé vor 2014 af vefsíðu Vogue US

_
Click for LATTELISA ENGLISH VERSION

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.