miðvikudagur, 28. ágúst 2013

tískuþátturinn

Einu sinni voru hlutirnir bara nokkuð einfaldir í tískuheiminum þar sem hönnuðir sýndu tvær fatalínur á ári með hálfsárs millibili: vor- og sumartískuna og haust- og vetrartískuna, fyrir utan tískuhúsin sem bjóða upp á hátísku (haute couture), sem var jú uppruninn að þessu öllu saman. Í dag kynna flest tískuhús tvær aðrar línur sem í ensku nefnast ,Pre-Fall/Pre-Autumn' og ,Resort' og margir spyrja til hvers og hvað þýðir þetta eiginlega? Ég hef ákaflega gaman af fallegum flíkum en persónulega finnst mér þetta stundum fullmikið og virkar gjarnan eins og ekkert rúm sé til þess að anda á milli þessara tískuvikna eða kynninga.

Þetta á sér samt eðlilega skýringu: Resort-línurnar berast í verslanir í nóvember og eru hugsaðar til þess að brúa bilið á milli hausttískunnar sem berst í september og vortískunnar í febrúar. Pre-Fall línurnar koma í verslanir í maí og brúa bilið sem skapast á milli febrúar og september. Á mannamáli kallast þetta einfaldlega að selja meira, sem er ekkert slæmt svo lengi sem það er markaður fyrir allar þessar fatalínur.

Resort-línurnar eða ,cruise' hafa ekki beint með dvalarstaði eða siglingar að gera heldur voru upphaflega hugsaðar fyrir auðuga viðskiptavini sem gjarnan dvelja á hlýrri slóðum yfir köldustu mánuðina og því bera heitin keim af því. Þarna var gjarnan verið að kynna baðföt og léttar flíkur. Nú til dags eru línurnar gjarnan tímalausari, eins og sést á flottu dragtinni hér að ofan sem er ein af mörgum flíkum í Louis Vuitton Resort 2014 línunni sem kynnt var fyrr í sumar. Kjóllinn að neðan er úr Resort-línu tískuhússins Bottega Veneta.

Á ensku útgáfu bloggsins í dag birti ég Notes à la mode færslu sem ég hafði ekki gert síðan í júní. Um tíma var þetta vikuleg sería á blogginu og því ákvað ég að gefa skýringu á þessu í færslunni sem ég skal endurtaka hér:
Ég fékk eiginlega nóg af tísku eða því hvernig fjallað er um tísku í fjölmiðlum, og ég fékk nóg af umfjöllun um fræga fólkið, sem ég tengi við tísku. Ég fékk líka nóg af því að skoða tískublogg þar sem skilaboðin voru þau að ég þyrfti að eignast þetta og hitt. Ég þarf ekki að eignast eitt né neitt í fataskápinn nema að flíkin höfði til mín og fari mér og ef hún gerir það þá samt þarf ég ekki að eignast hana. Annaðhvort vantar mig flíkina eða ekki.

Önnur ástæða þess að ég fékk nóg af tísku var það sem ég kalla tískuvikusirkusinn; sú sýning sem ákveðnir einstaklingar „setja á svið“ þegar þeir mæta á tískuvikur (ekki minnast á þá meðal áhorfenda sem tvíta stöðugt á meðan sýningu stendur í stað þess að njóta þess sem fyrir augu ber og meðtaka það áður en þeir deila því með umheiminum). Það sem ég er í raun að segja er að ég fékk nóg af götustíl eða götustíl sem snýst um að draga að sér athygli. Ég hef alltaf gaman að því að sjá fallegan fatastíl sem veitir mér innblástur en mér gæti ekki verið meira sama hverju fólk klæðist þegar það mætir á tískusýningar. Þegar tískuvikurnar standa yfir þá hef ég aðallega áhuga á því að sjá hvað er kynnt á tískupöllunum og hvaðan hönnuðirnir sóttu innblásturinn. Hver eru skilaboð tískuhönnuðarins fyrir komandi tíð? Eru skilaboðin sterk eða veik?

Ég vildi svo gjarnan vilja sjá heiðarlegri ritdóma um fatalínur. Væri það virkilega svo slæmt að segja að tískuhönnuð hafi skort allan metnað? Af hverju þurfa þeir sem fjalla um tísku alltaf að stíga einhvern meðvirknidans með hönnuðum? Það er ekkert annað en klisja að halda því fram að þetta snúist um auglýsingatekjur og að það megi ekki reita tískuhönnuði til reiði því það er fullt af hönnuðum sem auglýsa aldrei.
Svo mörg voru þau orð og ég deildi svo nokkrum myndum úr haust- og vetrarlínu Haider Ackermann.

Áður en ég enda þetta þá langar mig að kynna fyrir ykkur tvær nýjar haustlínur frá Mary Jo Matsumoto sem hannar og framleiðir fallegar töskur í Los Angeles. Ég kynnti ykkur fyrir henni í tveimur Eftirminnilegt sumar færslum og sagði ykkur að ég væri ekki hlutlaus því hún er vinkona mín. Ég kynntist henni í gegnum bloggskrifin og hún heimsótti mig í byrjun árs og þá fékk ég tækifæri til þess að skoða hönnunina. Allt er framleitt úr gæðaefnum og handverkið og saumaskapurinn er til fyrirmyndar (það er maður sem saumar töskurnar fyrir hana í LA).

Í haust kynnti Mary Jo Matsumoto línu af rauðum töskum sem hún kallar því skemmtilega nafni Scandalous Lover og shopper-taskan rataði strax á óskalistann minn. Í gær kynnti hún svo gráa töskulínu sem ber jafnvel enn skemmtilegra heiti: Cloudy With Chance of Surfing. Taskan til hægri er úr þeirri línu, svo falleg og tímalaus.

myndir:
1: Louis Vuitton Resort 2014 af vefsíðu Vogue US / 2: Bottega Veneta Resort 2014 af Vogue US / 3: Mary Jo Matsumoto

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.