miðvikudagur, 14. ágúst 2013

tískuþátturinn

Það er töluvert síðan ég birti tískuþátt á blogginu og kannski kominn tími til að bæta úr því nú þegar septembertölublöð glanstímaritana fara að birtast í hillum verslana. Ég viðurkenni að ég er búin að vera með örlítið tískuóþol í smá tíma en ég held að það sé aðallega vegna fræga fólksins sem virðist aðallega vera notað á forsíður og í tískuþætti til þess eins að selja fleiri eintök. Mikið afskaplega finnst mér það vera orðið þreytt (mér gæti ekki verið meira sama hver er á forsíðu ef efnistökin í tímaritinu sjálfu eru góð) og einnig þessar endalausu breytingar sem gerðar eru á myndum. Má virkilega ekki sjást í eins og eina hrukku eða fellingu? Það er víst tímaeyðsla að röfla yfir þessu því þetta virðist ekkert ætla að breytast ... eða hvað?

Ég er áskrifandi að breska Harper's Bazaar vegna þess að það fæst ekki í lausasölu hér í Luxembourg (bara ameríska útgáfan) og það er ekki bara tíska í blaðinu heldur líka umfjöllun um menningu og listir. Kannski má segja að ég sé í smá haltu-mér-slepptu-mér sambandi við tímaritið því stundum dettur tölublað inn um lúguna sem er fullt af innblæstri og svo þegar næsta kemur þá er eins og það vanti einhvern kraft. En það sem gladdi mig við septemberútgáfuna í ár er að það er fyrirsæta, ekki kvikmyndastjarna, á forsíðunni, engin önnur en Natalia Vodianova (sjá mynd neðst).

Tölublaðið mitt hefur enn ekki borist en þessar myndir eru hluti af tískuþættinum ,Dark Star' sem birtist í því og mér finnst hann ferskur. Örlítið dimmur líka vegna gotneska og rómantíska stílsins. Kannski er það bara umhverfið sem heillar mig sem gæti allt að því verið íslenskt. Það var ljósmyndarinn Tom Allen sem myndaði hollensku fyrirsætuna Iris Van Berne í villtri náttúru Englands, í Dartmoor í suðurhluta Devon.

Kannski er smá Jane Eyre stemning hérna líka, eða hvað finnst ykkur?


myndir:
1-8: Tom Allen fyrir Harper's Bazaar UK, september 2013 af blogginuThe Libertine | fyrirsæta: Iris Van Berne í ,Dark Star' | stílisering: Cathy Kasterine / 9 (forsíða): Jean-Baptiste Mondino fyrir Harper's Bazaar UK, september 2013 | fyrirsæta: Natalia Vodianova | stílisering: Cathy Kasterine

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.