mánudagur, 1. júlí 2013

Eftirminnilegt sumar


Ef það skyldu einhverjir kanadískir Íslendingar vera að lesa bloggið þá vil ég byrja á því að segja: Happy Canada Day!

Júlímánuður hefði ekki getað byrjað betur hér í Luxembourg; það er sól og blíða úti og ég er búin að vera á fullu í garðinum í dag, eða fyrir framan húsið að snyrta rósarunnana. Í garðinum sjálfum hafa allar lavender plönturnar mínar blómgast og auk þessu eru bleiku rósirnar sprungnar út og litadýrðin er himnesk. Þetta er dásemdin við það að eiga garð, það er stutt að fara til að njóta ilms sumarblómanna.

Ég sagði við börnin að við skyldum breiða úr okkur á teppi eftir skóla með kræsingar og bækur, hafa eins konar lautarferð í garðinum. Ef ég er að freista ykkar og þið eigið ekki garð þá er um að gera að skella sér í næsta almenningsgarð!


Ég vildi að ég gæti sagt ykkur að ég hefði fundið silkihárklút fyrir sumarið - einhvern sem er innan þess verðramma sem ég hef sett mér - en því miður gengur leitin illa. Ég nota bara hattana mína þangað til og læt mig dreyma um þessa fallegu Dolce & Gabbana klúta.


Ég heyri fólk svo oft spyrja: Hvert á að fara í sumar? Hver segir að það þurfi að fara eitthvað? Það er í fínu lagi að eyða sumarfríinu heima hjá sér. Ekki láta fólk sem hyggst skoða allan heiminn í sumar þrýsta á þig eða draga þig niður, pakkaðu niður fyrir einn dag og finndu einhvern skemmtilegan stað í nánasta umhverfi.

Hvað sem þú tekur þér fyrir hendur í sumar, gerðu sumarið eftirminnilegt!

myndirt:
1: Small Luxury Hotels of the World / 2: Jade + Matthew Take Pictures af síðunni Style Me Pretty Living / 3: Sharyn Cairns fyrir Country Style / 4-5: Sharyn Cairns fyrir Country Style / 6: Tara Whittaker af Style Me Pretty Living Gallery / 7-8: Dolce & Gabbana vor 2013 af síðunni Style.com / 9: Aron Snow af Style Me Pretty Living Gallery

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.