þriðjudagur, 11. júní 2013

Garðhönnun: rómantískir litir í The Hamptons


Í dag ætlaði ég að birta myndir sem ég tók á Konrad kaffihúsinu inni í borg á laugardaginn en í gærkvöldi var ég í nettri súkkulaðivímu þegar ég rakst á þennan rómantíska garð í The Hamptons á vefsíðu Traditional Home og það var ekki aftur snúið. Ég kenni líka þessum fallegu rósum um, þær kallast Double Delight eða tvöföld ánægja og þær heilluðu mig upp úr skónum.

Hönnun garðsins er samvinna eigandans Jane Goldman, sem er haldin mikilli garðástríðu og veit upp á hár hvað hún vill fyrir garðinn, og hönnuðanna Jane E. Lappin og Arlene Gould. Í garðinum er að finna margar tegundir af rósum og Zelkova tré, sem eru í miklu uppáhaldi hjá Goldman. Eitt slíkt sést á myndinni hér að ofan en hún sýnir líka gestahúsið.


Til að lýsa garðinum sínum notar Goldman orðin friðsæll og skipulagður og þegar hún er spurð hvernig hún skemmtir gestum utandyra þá svarar hún að garðurinn sé skemmtunin. Gott svar!

Hún elskar hvíta, fjólubláa og bleika liti, en garðhönnuðurinn Lappin lýsir þessum bleiku litum sem fullum af lífi, köldum bleikum og bleikustu bláum. Þeir sjást greinilega á myndinni hér að neðan þar sem þeir mynda ákaflega fallega litapalettu.


Bleika blómið hér að ofan kallast Dahlia Park Princess og fyrir neðan sést nærmynd af gamaldags klifurrósum eða New Dawn Climbing Rose á pergólunni, sem þjónar sem setustofa utandyra.


Þessi garður er svo sannarlega skemmtun!

Persónulega er ég ekki mjög hrifin af þessum stóru vösum (það eru fleiri en enn í garðinum) en blómin í vösunum og í kringum þá - rósir, geraníur, bacopa (veit ekki íslenska heitið) bergfléttur - eru dásamleg. Goldman ferðaðist um England, Frakkland og Ítalíu og skoðaði þar marga glæsilega garða til þess að fá hugmyndir fyrir sinn. Ég geri ráð fyrir að þessir vasar gefi til kynna einhvers konar suðurevrópsk áhrif úr þeirri ferð.


Ég sleppti einhverjum myndum úr umfjölluninni en ég varð að enda þennan póst á lavender í blóma, en hann er fær að vaxa í kringum sólskífu innan um falleg lág limgerði.


myndir:
Tria Giovan fyrir Traditional Home

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.