mánudagur, 10. júní 2013

eftirminnilegt sumar

Í síðustu viku var sumarið upp á sitt besta, með hæsta hitastiginu til þessa núna á laugardaginn, sem varð til þess að hugurinn reikaði á ströndina. Luxembourg liggur því miður ekki að sjó en við erum með árbakka og svo er Upper Sûre þjóðgarðurinn í norðvesturhluta landsins, en við eigum alveg eftir að kíkja þangað. Það er bara eitthvað við sjóinn, að finna sandinn milli tánna og vindinn í hárinu. Þegar við bjuggum í Antwerpen þá tók bara einn klukkutíma að keyra út á belgísku ströndina eða á strönd einhver staðar í Hollandi, en ég get ekki kvartað því nú erum við með garð.


Þegar tími bóndarósanna rennur í garð þá eru þær einu blómin sem ég hugsa um. Í ár leið mér öðruvísi - sennilega var það vegna þessa óvenjulega kalda vors - og fann að ég dróst að bláum og fjólubláum blómum, þá einkum írisi og lavender, eins og ég hef þegar sagt ykkur frá. Lavender plönturnar mínar virðast hafa lifað það af að ég var að dreifa þeim og núna bíð ég eftir að þær blómgist. Það besta við lavender er að það þarf engan garð. Það má kaupa lavender í blómapotti og geyma úti á svölum. En því er jú öðruvísi farið á Íslandi. Þar þarf gróðurhús en það má líka geyma lavender innandyra, þá í sólríkum glugga. Lyktin er unaðsleg.

Kannist þið við verbena jurtina? Ég hef aldrei átt verbena plöntu, en veit að ilmkjarnaolían hefur upplífgandi eiginleika. Eftir að ég sá myndina að ofan til hægri þá langar mig að hafa verbena í garðinum. Plantan til vinstri kallast scaevola en ég hef ekki hugmynd um hvað hún heitir á íslensku, mér finnst hún líka falleg.

Höldum aftur á sjávarsíðuna og kíkjum á stíl sem þarf ekki að kosta mikið.

Hvert sem ég fer, hvort sem það er í búðir, á bænda- eða blómamarkaði, út um allt er fólk með klassískar franskar töskur úr basti. Þær eru til í öllum stærðum og gerðum og eru líka frábærar á ströndina. Nýlega fann ég heimasíðu Medina sem er með gott úrval af bast töskum og í gær fann ég aðra síðu sem selur líka klassískar bast töskur sem eru handgerðar í Marokkó. Ég bætti bara tenglunum í færsluna til að gefa ykkur hugmyndir.

Ég er afskaplega lítið fyrir plastdót og finnst það miklu skemmtilegra að eiga hluti úr náttúrulegum efnum til að hafa með á strönd eða í lautarferð.

Að vera vel til fara í sumar þarf ekki að kosta mikið. Ég veit að það er ekki H&M verslun á Íslandi en það er jú sú búð sem maður getur alltaf treyst á að fá ódýra lykilhluti í fataskápinn. Nýjasta auglýsingaherferð þeirra sýnir nokkra slíka sem má finna í öðrum verslunum. Mér líkar þessi safarí litur sem fyrirsætan klæðist á myndinni. Ef þið eigið þegar eitthvað svona í skápnum ykkar (eitthvað karlmannlegra fyrir herrana!) þá eruð þið tilbúin fyrir Nauthólsvíkina eða næstu strönd þegar veður leyfir. (Má ekki alltaf kippa teppi með?)

Þegar ég las að myndirnar fyrir auglýsingaherferðina voru teknar í Tulum, Mexíkó, mundi ég eftir myndinni hér að neðan í ferðamöppunni minni. Ég hef aldrei komið til Mexíkó en ég væri ekkert á móti því að vera stödd einmitt núna á þessum stað í Tulum.

Hvað sem þú tekur þér fyrir hendur í sumar, gerðu sumarið eftirminnilegt!

myndir:
1: Nuevo Estilo / 2: Lovely Leaf Studio af síðunni Style Me Pretty / 3-4: William P. Steel fyrir Country Living / 5: Aina af blogginu Modern Country / 6-7: Anders Schønnemann / 8: Terry Richardson fyrir H&M, auglýsingaherferð sumar 2013 | fyrirsæta: Doutzen Kroes / 9: Mattias Olsson af Condé Nast Traveler (Playa Mambo, Tulum, Mexíkó)

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.