mánudagur, 3. júní 2013

eftirminnilegt sumar

Ég er komin aftur eftir smá bloggfrí með nýja seríu sem ég ætla að vera með á mánudögum á báðum bloggunum í sumar: EFTIRMINNILEGT SUMAR (SUMMER LIVING | VIVE L'ÉTÉ á ensku útgáfunni). Við fengum nokkra yndislega sólardaga í fríinu sem ég notaði til að sinna garðinum. Ég var að dreifa lavender plöntunni minni (veit að það heitir lofnarblóm á íslensku en bara get ekki vanist því að nota það orð, fyrir mér er lavender bara lavender) á milli kera þegar sumarserían tók á sig endanlega mynd. Það hefur sennilega verið himneskur ilmurinn sem hjálpaði til.

Á blogginu í sumar langar mig að færa stemninguna frá innhússhönnun og út í garð, skoða fallegar verandir og náttúruna í allri sinni dýrð. Í seríunni á mánudögum verður brot af þessu öllu en aðra daga vikunnar verður efnið hnitmiðaðra með myndum úr einni átt. Innlitin á blogginu verða meira tengd útiveru og görðum og RÝMIÐ serían verður notuð til að pósta fallegum veröndum og slíku. Það verður mín leið til að fagna sumri. Margt af þessu miðast kannski við þá stemningu sem gengur og gerist erlendis en með góðri skjólgirðingu á Íslandi er allt hægt, tala nú ekki um þegar sólin skín og hitinn fer upp á við. Ég er svo með nokkra ferðapósta í huga og mig langar að sýna ykkur meira af Luxembourg. Föstudagsblómin verða að sjálfsögðu áfram hér á íslensku útgáfu bloggsins.

Áfram með færsluna!

Blómamarkaðir eins og þeir þekkjast erlendis eru kannski ekki á hverju strái á Íslandi en fyrir mér eru þeir ómissandi hluti af sumrinu. Ef þið eruð á leiðinni til útlanda athugið þá endilega hvar er blómamarkaður í nágrenninu. Gangið hægt á milli bása og virkilega njótið þess sem fyrir augu ber og verið ófeimin að spyrja spurninga. Blómabændur eru tilbúnir að monta sig af blómunum sínum hvenær sem er. Ef þið eigið þess kost kaupið þá endilega búnt af blómum og helst fötur! Myndin hér að ofan er tekin á Columbia Road Flower Market, blómamarkaðnum sem kenndur er við götunum Columbia Road í London. Ef þið eruð stödd í London á sunnudegi þá er kjörið að skella sér.

Næst þegar veður leyfir bjóðið þá góðum vinum í hádegisverð eða bröns í garðinum eða úti á svölum ef pláss leyfir. (Það má þá alltaf færa stemninguna inn ef veðrið bregst.) Ef börn eru með þá gerið ráð fyrir að þau hafi eitthvað fyrir stafni. Ég mæli með því að kaupa ódýrar ljóslitaðar diskamottur úr bómull og leyfa þeim að lita eða mála þær. Þau geta dundað sér heillengi yfir því og geta svo tekið diskamottuna með sér heim sem minningu um góða stund.

Og þá frá blómum og görðum að sjávarsíðunni og fatastíl.

Fyrir mér snúast sumrin um náttúrulegan stíl og þægindi - föt úr mjúkri bómull eða líni, sólgleraugu og leðursandala. Það er algjör óþarfi að eyða tíma í hárið á sér, það má alveg vera smá tjásað og út um allt svona á sumrin. Bara skella á sig flottum hatti og brosa ef hárið er aðeins of villt.

Til að brjóta náttúrulega útlitið aðeins upp þá vil ég benda á töskurnar frá Mary Jo Matsumoto (framleiddar í Kaliforníu). Efst í huga eru töskur og aukahlutir úr Salt Creek eða Balboa Island línunum hennar. Liturinn á Crystal Cove töskunni er líka fullkominn fyrir sumarið og ég er mjög skotin í nýja Bougainvillea Beach veskinu. Ég viðurkenni að ég er ekki alveg hlutlaus því Mary Jo er vinkona mín. Ég veit að hún setur hjarta sitt og sál í hönnunina. Efnin sem hún velur einkennast af gæðum og leðrið sem hún notar er svo mjúkt og fallegt. Með Mary Jo tösku í sumar ertu tilbúin fyrir hvað sem er, það getur ekkert klikkað!


Ef þú átt ekki bát þá er ekkert annað í stöðunni en að kaupa hann! Eða velja ódýrari leið og taka með sér nesti niður á næstu höfn eða bryggju, setjast á bekk og fylgjast með siglingafólki og sjómönnum athafna sig. Það er eðal að grípa espresso einhvers staðar á leiðinni eða koma með minnstu flöskuna af rósavíni og fá sér eitt glas. Afslöppun er lykilatriði og það er allt í lagi að láta sig dreyma.

Hvað sem þú tekur þér fyrir hendur í sumar, gerðu sumarið eftirminnilegt!

myndir:
1: Lene Bjerre vor 2013 / 2: Kit Lee - Style Slicker af blogginu United Blogs of Benetton. UK / 3: Jade + Matthew Take Pictures af síðunni Style Me Pretty Living / 4: François Halard fyrir Vogue US / 5: Salt Creek Collection taska frá Mary Jo Matsumoto / 6: Organic by John Patrick vor 2013 af Vogue US / 7: Isabel Marant vor 2013 af Vogue US / 8: The Cherry blossom girl (St. Tropez, Frakklandi)

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.