fimmtudagur, 23. maí 2013

innlit: landareign í suðurhluta Wales

Ég pósta því sama á báðum bloggunum í dag en samt ekki sömu myndunum, þessar koma annars staðar frá. Áður en ég segi ykkur frá þessari landareign í Wales þá vildi ég láta ykkur vita að ég verð í bloggfríi þar til í byrjun júní. Börnin eiga vikufrí í skólanum og við erum að vonast til þess að það hætti að rigna á okkur þannig að við getum eytt næstu viku í að skemmta okkur utandyra. Það er spáð rigningu en það má alltaf láta sig dreyma.

Og þá að þessu húsi í Wales. Það er í eigu Arne Maynard sem er einn virtasti garðhönnuður Bretlands og skrifar dálk með garðráðleggingum fyrir tímaritið Gardens Illustrated. Maynard og sambýlismaður hans keyptu þetta sögulega hús sem kallast Allt-y-bela, en það stendur í Usk í suðurhluta Wales. Það var fjallað um það í janúartölublaði Garden Design. Bókstafleg merking nafnsins á ensku væri „high wooded hillside of the wolf“ sem myndi hljóma skelfilega í beinni íslenskri þýðingu: há tré í hlíð úlfsins eða eitthvað svoleiðis - ég veit, skelfilegt en samt flott merking! En það sem er sérstaklega áhugavert við garðinn sjálfan er sú staðreynd að hann er ólíkur öllum þeim glæsilegu og rómantísku görðum sem Maynard hefur hannað í gegnum tíðina.

Fyrir garðinn í Wales valdi Maynard látlausa hönnun. Húsið sjálft er gamalt sveitasetur frá 15. öld og það var aldrei skipulagt neitt sérstaklega heldur bættu fyrrum eigendur við rýmum eftir hentugleika. Það sama gerðist eiginlega með garðinn í höndum Maynard. Hann byrjaði á því að fjarlægja allar girðingar, limgerði og slíkt á sinni eigin landareign þannig að garðurinn rynni saman í eitt og félli vel saman við nánasta umhverfi. Það var bara í kringum húsið sjálft þar sem hann hélt ákveðinni formfræði, eins og sést á myndunum.

Mér finnst landslagið þarna ákaflega fallegt. Þeir félagar eru með matjurtagarð og einnig eru þeir með hænsni sem þið getið séð á myndum í færslunni á ensku útgáfu bloggsins. Þar er einnig að finna tvær myndir sem voru teknar innandyra.

Sjáumst aftur í byrjun júní!

myndir:
Arne Maynard Garden Design

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.