mánudagur, 6. maí 2013

Innlit: hlýlegt sænskt heimili í Suður-Afríku

Ég rakst á þetta innlit á netinu um daginn. Húsið er í eigu sænskra hjóna sem búa í Somerset West í nágrenni Cape Town í Suður-Afríku. Húsið sjálft er byggt í hollenskum stíl og eins og sjá má þá er heimilið hlýlegt með fallegum viðarhúsgögnum og gólfborðum.

Myndirnar af innganginum og svefnherberginu fóru ekki úr huga mér. Það var svo ekki fyrr en um helgina að ég kveikti, ég hafði séð þær áður hjá einni bloggvinkonu sem býr í Suður-Afríku. Athyglisvert samt að þegar hún póstaði þeim fyrir um ári síðan þá var það meira húsið sjálft sem sat í mér. Kannski merki þess að smekkur okkar mótast og tekur breytingum með tímanum.

Yfirleitt eru svefnherbergi höfð frekar aftarlega í innlitum en ég leyfi mér að brjóta þær óskrifuðu reglur. Þegar ég var að skoða þessar fyrstu tvær ljósmyndir þá datt mér í hug kvikmyndin Out of Africa (1985) í leikstjórn Sydney Pollack þar sem Meryl Streep túlkar Karen Blixen. Það var einhver hlýleiki á heimili hennar í Afríku í myndinni sem rifjaðist upp fyrir mér þegar ég var að virða þessi tvö rými fyrir mér.

Ég er svo búin að ákveða að stela einni hugmynd úr þessu innliti. Ég ætla að finna lítið borð, eða láta eiginmanninn smíða það, fyrir innganginn okkar og hafa nokkrar bækur á því. Það er eitthvað svo notalegt við þessa uppsetningu. Það hlýtur að vera ljúft að sjá bækur um leið og maður opnar dyrnar að heimili sínu.

Kannski að ég ætti að koma mér upp svona fínu hattasafni líka og geyma fyrir ofan þær?

Eins og oft áður þá pósta ég ekki öllu innlitinu. Fylgið tenglinum að neðan ef þið viljið sjá nokkrar myndir til viðbótar.

myndir:
Micky Hoyle fyrir House and Leisure af blogginu Roses and Rust


Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.