þriðjudagur, 9. apríl 2013

parís: notre dame kirkjan á île de la cité eyjunni

Myndunum sem ég tók í París í október í fyrra hef ég póstað samtímis á bloggunum og í dag geri ég enga undantekningu á því. Ég á enn eitthvað af myndum í skránum mínum og var ekki búin að ákveða hvort ég ætti að deila þeim eða ekki. Einhvern veginn var tíminn aldrei réttur. Í dag rigndi aðeins hér í Luxembourg og mér fannst eilítið dimmt yfir öllu og mundi þá eftir myndunum sem ég tók af Notre Dame kirkjunni.

Því er ekki að neita að gotneskur arkitektúr kirkjunnar er stórfenglegur en fyrir mér eru sumir hlutar hennar myrkir, allt að því hrollvekjandi. Hafið þið lesið Hringjarinn í Notre Dame eftir Victor Hugo? Sæmilegt myrkur í henni! (Skáldsagan er ekkert í líkingu við Disney teiknimyndina, bara svo það sé á hreinu!)

Síðustu myndina tók ég þegar ég stóð á Place du Parvis Notre-Dame og horfði inn í Rue du Cloître Notre Dame. Það er alveg sama hvar maður er í París, það er alltaf einhver úti að ganga með hundinn sinn, einhver með blóm í fanginu eða ferðalangar með kort og myndavél. Jafnvel bæði.

myndir:
Lísa Hjalt
- myndir teknar í október 2012


Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.