miðvikudagur, 10. apríl 2013

innlit: vínekra í norðurhluta kaliforníu

Þetta innlit kemur úr nóvembertölublaði Architectural Digest frá árinu 2011 en blaðið heimsótti hjón sem eiga þetta fallega hús sem stendur á vínekru í Napa-dalnum í norðurhluta Kaliforníu. Arkitekt hússins var Bobby McAlpine. Ég valdi bara nokkrar myndir og ef þið viljið sjá restina þá fylgið þið tenglinum neðst í færslunni.

Nú er ég mikið fyrir hráan stíl og vil helst hafa viðarbita í loftum og breið gólfborð og náttúrulegar flísar á gólfum. Í þessu húsi er stíllinn hrár en um leið fágaður. Mér líkar lofthæðin og þessir gluggar og hurðir eru mér að skapi.

Eins og sjá má er eldhúsið ansi rúmgott (persónulega myndi ég kjósa eilítið hrárri stíl í eldhúsið) og birtan inni í því er dásamleg. Mér finnst smart að sjá opnar hillur með fallegum borðbúnaði.


Ein hurðin í eldhúsinu er máluð þannig að hún þjónar sem krítartafla og þarna má sjá tvo ömmu- og afastráka að dunda sér. Barnagestaherbergið á myndinni að ofan til hægri kallast Heiðukrókurinn, sem á vel við.

Útisturtan af hjónaherberginu þykir mér frábær og takið eftir arninum í herberginu. Mikið væri nú notalegt að vera með arinn í svefnherberginu þegar það er hvað kaldast úti ... og á baðherginu líka!

Eins og sjá má er húsið - þrjár byggingar sem tengjast - með stórkostlegu útsýni og landareignin er öll hin glæsilegasta. Þarna má svo sjá húsbóndann keyra með hundinn um vínekrurnar á Chevrolet pallbíl frá 1949.

myndir:
Roger Davies fyrir Architectural Digest, nóvember 2011


Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.