þriðjudagur, 2. apríl 2013

í heimsókn á landareign stellu mccartney

Tískuhönnuðurinn Stella McCartney og fjölskylda hennar eiga glæsilegt hús í enskri sveit, rautt múrsteinshús í georgískum stíl. Vogue US leit í heimsókn og tekið var viðtal við Stellu sem birtist í nóvemberútgáfu tímaritsins árið 2010. Fyrir suma eru þetta gamlar fréttir en ég fæ ekki nóg af myndunum sem ljósmyndarinn Bruce Weber tók af lífinu á landareigninni. Nokkrir garðar tilheyra húsinu og þau eru með hesta líka.

Ég stend mig að því að skoða þessar myndir reglulega og skil ekkert í mér að hafa ekki póstað þeim fyrr. Ég birti þær á ensku útgáfu bloggsins í dag og ákvað að skrifa sama texta hér og þýða tilvísanirnar úr viðtalinu yfir á íslensku.


Það ættu allir að vita að Stella er dóttir Paul McCartney og Lindu, sem lést árið 1998. Árið 1995 útskrifaðist hún frá Central Saint Martins College of Arts and Design í London og árið 1997 var hún orðin listrænn stjórnandi Chloé tískuhússins í París. Núna rekur hún sitt eigið tískuhús farsællega og það sem aðgreinir það frá öðrum er að Stella notar hvorki leður né loðfeldi í hönnun sína.

Það var Hamish Bowles sem tók viðtalið við Stellu fyrir Vogue árið 2010 og þar skrifar hann:
Eins og í hönnun sinni er Stella lítið fyrir rauða og gula liti en dregst að mildum pastellitum sem hún elskar. Í reynd þá lét hún meira að segja Tyler [Anthony Tyler yfirgarðyrkjumaður] fá prufur af efnum þegar þau voru að skipuleggja hvað ætti að gróðursetja. „Þú færð ekki alltaf það sem þú vilt,“ segir hún hlæjandi. „Við vorum með túlipana sem áttu að vera hvítir en sprungu út gulir.“ Ég var bókstaflega eins og drottningin í Lísu í Undralandi: ,Málið þá hvíta!’ “

Árið 2003 gekk Stella í hjónaband með Alasdhair Willis, sem stofnaði og gaf út tímaritið Wallpaper til ársins 2002. Síðar sneri hann sér að húsgagnahönnun og stofnaði fyrirtækið Established & Sons. Þegar þau giftu sig þá báðu þau gestina að gefa sér tré í stað hefðbundinna gjafa og þeim var plantað á landareigninni. Garðurinn á vinstri myndinni að ofan nefnist Engagement-garðurinn (Trúlofunargarðurinn), þar sem Alasdhair fékk útrás fyrir formfræði, og á hægri myndinni er brot úr Anniversary-garðinum (Brúðkaupsafmælisgarðurinn), sem hefur sérstaka þýðingu fyrir hjónin:
Anniversary-garðurinn við austurframhliðina er sá glæsilegasti, en hann liggur innan gamalla múrsteinsveggja sem áður voru hluti af upprunalegu aukaeldhúsi [potager] hússins. Hann var hannaður árið 2009 og tilbúinn áður en hjónin héldu upp á sex ára brúðkaupsafmælið. Eins og sést á áletraðri plötu á veggnum þá var hann gjöf Alasdhair til „fallegu eiginkonu minnar Stellu.“ Hér er það efsta lag Miðjarðarhafsgróðurs (snúnar greinar fornra ólífutrjáa sem fundust í Písa gnæfa yfir þistilhjörtum og lárviði frá Belgíu) og burknar í skjóli sem horfa niður á blá og bleik beð sem mynda tíglamunstur. Af klifurgrindum steypast ,Constance Spry' [klifur]rósir og blómabeðin eru full af fingurbjargarblómum, bóndarósum og íris, sem er nýjasta ástríða Stellu („bara bestu litirnir“).

Á myndinni að neðan sést sólskífa og í hana eru greyptar línur úr ljóði eftir Robert Louis Stevenson sem birtist í verki hans A Child’s Garden of Verses.

Ef þið hafið velt því fyrir ykkur hvaðan tískuhönnuðir sækja innblástur og hvað ákvarðar val þeirra á litum fyrir fatalínurnar á teikniborðinu hverju sinni þá hafið þið kannski gaman af þessum hluta viðtalsins:
Stundum finn ég lit í garðinum sem ég allra jafna spáði ekki í ... ég nýt þeirra meira í náttúrunni og það veldur því að ég vil nota þá í fatalínurnar. Í vor varð ég svolítið þreytt á að skoða tískumyndir og þess vegna fór ég að skoða gróðurrit frá sjötta áratugnum og fann þessar gömlu teikningar af plöntum sem veittu mér innblástur. Það varð stór hluti af vorlínunni.

Við kveðjum Stellu með því að dást að bláregninu á austanverðri framhlið hússins.

myndir:
Bruce Weber fyrir Vogue US, nóvember 2010

vefsíða Stellu McCartney


Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.