þriðjudagur, 8. janúar 2013

bók: ævisaga yves saint laurent eftir alice rawsthorn


Þessa dagana er ég að lesa bók sem hefur algjörlega fangað mig, Yves Saint Laurent: A Biography eftir Alice Rawsthorn og segir frá ævi tískuhönnuðarins í máli og myndum. Bókin var gefin út árið 1996 og ég vissi af tilvist hennar en hafði aldrei flett henni. Ég sá hana á bókasafninu á laugardaginn og var fljót að kippa henni úr hillunni. Ég fjallaði aðeins um bókina á ensku útgáfu LatteLisa í dag og bætti við ýmsum tilvísunum. Ég ætla ekki þýða þá færslu og birta hér en mig langaði að segja nokkur orð um bókina.

Ég vissi að Yves Saint Laurent glímdi við kvíða og önnur andleg veikindi eftir að hafa verið kvaddur skyndilega í franska herinn árið 1960 þegar hann hafði starfað sem aðalhönnuður Dior tískuhússins í tæp þrjú ár. Ég las formálann í lestinni á leiðinni heim og gerði mér þá strax grein fyrir því að hans ástand var mun alvarlega en ég hélt.


Ég vissi ekki um veikindi hans í neinum smáatriðum og því brá mér mjög við lesturinn. Hann fékk taugaáfall eftir aðeins nítján daga í herbúðum fyrir utan París, var fluttur á hersjúkrahús og missti starfið hjá Dior í kjölfarið. Eftir fimmtán daga var hann útskrifaður og sagður tilbúinn fyrir herinn aftur. En til að komast hjá slæmri fjölmiðlaumfjöllun ef hann skyldi fá taugaáfall aftur (hann var jú þekktur í Frakklandi) þá ákvað herinn að senda hann frekar á geðsjúkrahús og þar upplifði hann hluti sem hann jafnaði sig í raun aldrei á.

Hann reis aftur sem tískuhönnuður og stofnaði sitt eigið tískuhús, YSL, ásamt Pierre Bergé, sem þá var kærasti hans, en það er augljóst að þessi lífsreynsla haustið 1960 markaði hann fyrir lífstíð.

myndir:
Lísa Hjalt

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.