þriðjudagur, 31. desember 2013

Gleðilegt ár

Kæru lesendur og bloggvinir, ég þakka ykkur fyrir heimsóknirnar á árinu sem er að líða og óska ykkur gæfu og friðsældar á nýju ári!

Ég kveð ykkur í bili með Auld Lang Syne. Sjáumst aftur árið 2014!

myndir:
1: Trouvé Magazine af síðu Erin Kate Gouveia á Pinterest / 2-3: Aristocrat Kids vor 2014
_
Click for LATTELISA ENGLISH VERSION

mánudagur, 30. desember 2013

uppskrift: skonsur + bakstur + handgerð jólagjöf

Jæja, hvernig eruð þið búin að hafa það um jólin? Ég fann jólaskapið þegar við settumst niður til að borða kalkúnamáltíð á aðfangadagskvöld, en ég viðurkenni að þessi desembermánuður var ólíkur öllum öðrum sem ég hef upplifað hingað til. Ég kenni flutningunum um og kannski rauðum jólum líka.

Ég er búin að vera nokkuð dugleg að baka í fríinu og í gær bauð ég fjölskyldunni upp á skonsur í morgunmat og setti auk þess uppskriftina á matarbloggið. Í fríinu bakaði ég líka bananabrauðið með valhnetunum og notaði tækifærið til þess að uppfæra uppskriftina eilítið. Í dag er ég búin að lofa kryddbrauði, sem er klassík á þessu heimili.

Ég fékk margar fallegar bækur í jólagjöf en verð að segja að þessi litla minnisbók sem yngri dóttir mín bjó til handa mér var sú gjöf sem mér þótti einna vænst um. Stærðin á henni er á við þumalfingur og hún inniheldur 20 rúðustrikaðar síður. Hvað er betra en kaffi og hjörtu?

myndir:
Lísa Hjalt
_
Click for LATTELISA ENGLISH VERSION

þriðjudagur, 24. desember 2013

Gleðileg jólÉg er byrjuð að sjóða möndlugrautinn fyrir kvöldið og vanillulyktin berst um allt hús. Dásamlegt! Mér finnst gaman að sjá að möndlugrauturinn er sú uppskrift sem flestir eru að skoða á matarblogginu þessa dagana, einnig sætkartöflumúsin með pekanhnetunum og rósakálið góða sem Nigella Lawson heillaði mig með hér um árið. Allt þetta verður að sjálfsögðu á jólaborðinu okkar í kvöld með kalkúninum. Það sem ég hlakka til að setjast niður og borða veislumat!

Ég keypti mér nýjan hvítan dúk í John Lewis og tauservíettur líka (kíkið endilega á krúttlegu jólaauglýsinguna þeirra í ár, um dýrið sem hafði aldrei séð jólin). Ég tók nokkrar myndir í gær þegar ég var að undirbúa borðið. Ég keypti greinarnar með berjunum á Íslandi fyrir mörgum árum og þær voru eitt af því fáa sem ég tók með þegar við fluttum út.


Ég gæti varla hugsað mér jól án bókapakka frá Amazon. Í ár gaf eiginmaðurinn mér nokkrar á óskalistanum: tvær á borðið í setustofunni, Ralph Lauren (risastór og full af myndum) og The Natural Home eftir stílistann Hans Blomquist. Ég verð að fá bókmenntir líka og núna fékk ég fallega innbundna útgáfu af Persuasion eftir Jane Austen, en ég er einmitt að safna þessum útgáfum frá Penguin bókaforlaginu. Það var svo líka smá Downton Abbey í pakkanum (hlakka til að sjá jólaþáttinn sem verður sýndur í sjónvarpinu hér á morgun). Pósturinn færði mér svo þrjá pakka í gær frá vinum á Íslandi með bókum þannig að það verður enginn skortur á lesefni þessi jól.


*Vantar þig hugmyndir fyrir jólin? Kíktu á jólaborðið mitt á Pinterest.

Ég óska ykkur öllum gleðilegrar og friðsælar hátíðar!

mynd:
Lísa Hjalt

_
Click for LATTELISA ENGLISH VERSION

mánudagur, 23. desember 2013

dagdraumar um fannhvít jól

Ég var að fá mér smá kaffi þegar veslings póstmaðurinn mætti niðurrigndur með jólapakka. Það er víst lítið annað í boði en rigning og smá vindur hérna á West Midlands svæðinu í dag og yfir jólin. Ég væri alveg til í hvít jól; það jafnast ekkert á við að sjá snjókorn falla hægt og þekja jörðina á aðfangadag. En ég verð víst að láta mig dreyma um fannhvít jól með hjálp auglýsingaherferðar Fresh fyrir jólin 2013. Það er einhver gleði í þessum myndum hennar Laurie Frankel sem fangar mig og bætir upp fyrir rigninguna.

Ég vona að jólaundirbúningurinn gangi vel og að þið njótið Þorláksmessunnar án nokkurs stress!

*Vantar þig hugmyndir fyrir jólin? Kíktu á jólaborðið mitt á Pinterest.

myndir:
Laurie Frankel fyrir Fresh jól 2013 auglýsingaherferð

_
Click for LATTELISA ENGLISH VERSION

föstudagur, 20. desember 2013

miðvikudagur, 18. desember 2013

þriðjudagur, 17. desember 2013

rýmið 47

Því miður veit ég engin nánari deili á þessari borðstofu en myndin er hluti af innliti á bloggi finnska ljósmyndarans Krista Keltanen. Ég væri alveg til í að eiga skápinn.

mynd:
Krista Keltanen af Pinterest/Krista Keltanen

_
Click for LATTELISA ENGLISH VERSION

mánudagur, 16. desember 2013

uppskrift: marengstoppar (súkkulaði)

Í dag birti ég uppskrift að marengstoppum (með eða án súkkulaðis) á matarblogginu. Eins og flestir vita sem fylgjast með blogginu þá nota ég allra jafna ekki mikinn hrásykur í uppskriftirnar en eftir allar tilraunirnar mínar þá komst ég að því að það var ógerlegt að baka marengs með skemmtilegri áferð nema að hafa ákveðið magn sykurs á móti eggjahvítunum. Þetta verður því líklega sykraðasta uppskriftin á blogginu.

Ég er annars búin að vera að tala um það að ég hreinlega finn ekki jólaskapið í ár. Það meira að segja dugði ekki til að skreyta tréð um helgina! En áðan bærðist eitthvað innra með mér þegar ég fór á leiksýningu í skóla sonarins. Það voru fagrar raddir barnanna sem komu mér svei mér þá í rétta gírinn. Ég meira að segja setti svuntuna á mig og bakaði þegar ég kom heim, orkuhnullungana hennar (Cafe)Sigrúnar, og nú angar húsið af jólailmi.

*Vantar þig hugmyndir fyrir jólin? Kíktu á jólaborðið mitt á Pinterest.

myndir:
Lísa Hjalt


föstudagur, 13. desember 2013

fimmtudagur, 12. desember 2013

uppskrift: súkkulaðikrem eða -sósa

Ég var löglega afsökuð í gær vegna afmælis yngri dótturinnar og birti því enga færslu. Ég var auk þess með soninn lasinn heima (sem betur fer bara smá kvef). Þar sem við erum bara við fimm við borðið þessa dagana þá var þetta nú frekar einfalt afmæli (gaman samt að sjá öll afmæliskortin sem hún kom með heim úr skólanum. Nýju skólasysturnar voru duglegar að nota Google þýðingarvélina til að skrifa íslenskar afmæliskveðjur sem voru stundum skrautlega rangar). Ég skellti í marengstoppa, sem hún elskar, og bar fram með þeyttum rjóma, ferskum berjum og heimagerðri súkkulaðisósu. Ég var búin að setja saman uppskrift að nýrri súkkulaðisósu og -kremi sem ég nota á skúffukökur og marengstoppa og birti hana á matarblogginu í morgun.

Hvernig gengur annars jólaundirbúningurinn? Ég verð að viðurkenna að ég er ekki enn búin að finna jólaskapið, alveg sama hvað ég leita. Það að vísu rétt glitti í það við baksturinn í gær en sá neisti varð ekki að báli. Það hlýtur að koma upp úr einhverjum kassa fljótlega. Eða ég vona það því þetta er svo ólíkt mér. Ég kenni bara þreytu um eftir flutningana. Það er eina skýringin.

*Vantar þig hugmyndir fyrir jólin? Kíktu á jólaborðið mitt á Pinterest.

mynd:
Lísa Hjalt

_
Click for LATTELISA ENGLISH VERSION

þriðjudagur, 10. desember 2013

tískuþátturinn

Ég kom auga á janúartölublað breska Vogue í búðinni áðan og kippti því með (er að reyna að kaupa færri tímarit því ég setti +50 kíló í endurvinnsluna fyrir flutninga en það var á tilboði á tvö pund). Ég er ekki komin í gegnum það allt en fann þennan skemmtilega tískuþátt með dönsku fyrirsætunni Freja Beha Erichsen, sem mér þykir ein sú flottasta í geiranum. (Nú til dags veit ég varla hvað allar þessar stelpur heita því mér finnst margar þeirra líta svo til eins út, en það er eitthvað í fari hennar sem setur hana á stall með fyrirsætum eins og Kate Moss og Christy Turlington.) Myndirnar voru teknar á Dragsholm á Sjálandi þar sem móðir hennar á sumarhús.

Ég á annars nokkrar uppáhaldsmyndir af henni, eins og þessa haustlegu sem var tekin fyrir Reserved og náttúrlega myndina úr auglýsingaherferð Bottega Veneta síðastliðið vor þar sem hún gerði þennan kjól ódauðlegan. Það var alveg sama hversu margir reyndu að stílisera hann í tískuþætti, engin sló þessari mynd við enda meistari Peter Lindbergh með myndavélina í hendi. Ég held annars að það sé óhætt að fullyrða að fyrstu tvær myndirnar í þessari færslu fari í uppáhaldsflokkinn.

myndir:
Cass Bird fyrir British Vogue, janúar 2014 | fyrirsæta: Freja Beha Erichsen í ,Shore Leave' | stílisering: Francesca Burns
af síðunni Photoshoot

_
Click for LATTELISA ENGLISH VERSION

föstudagur, 6. desember 2013

fimmtudagur, 5. desember 2013

rýmið 46

- hvítt, bjart svefnherbergi í íbúð í Stokkhólmi sem er til sölu
- í eigu sænska tískubloggarans Elin Kling (ég pinnaði mynd af henni fyrir stuttu þar sem hún er smart í svörtu eingöngu)

mynd:
Per Jansson af blogginu My Scandinavian Home

_
Click for LATTELISA ENGLISH VERSION

miðvikudagur, 4. desember 2013

Nivôse eftir Romme

Ég varð að fá jólalegan tískuskammt á bloggið í dag því ég hef áhyggjur af því að finna hreinlega ekki jólaandann í ár, sem er mjög óvenjulegt ástand fyrir mig. Ég er ein af þeim sem bókstaflega elska desember; elska komu jólanna. Ég þóttist viss um að þegar Last Christmas með Wham hljómaði í útvarpinu í dag að þá myndi þetta koma. En nei, það gerðist ekki neitt.

Kannski ef ég horfi nógu lengi á þessa fallegu tískuteikningu frá árinu 1919, Nivôse eftir Marthe Romme, fer eitthvað að bærast hið innra. Vonandi! Verð annars að fá að benda á eitt í teikningunni fyrst ég er að birta hana. Nú er kápan í öndvegi en takið eftir hvernig glittir í rendur þarna vinstra megin.

*Vantar þig hugmyndir fyrir jólin? Kíktu á jólaborðið mitt á Pinterest.

mynd:
Marthe Romme af Pinterest (uppgötvað í gegnum bloggið Classiq)

_
Click for LATTELISA ENGLISH VERSION

miðvikudagur, 27. nóvember 2013

í leit að jólaskapi

Ég sit á Starbucks (enn netlaus heima) og hafði ætlað mér að birta nokkrar jólamyndir í dag í þeirri von að komast í jólaskap en það virðist ekki vera hægt að nota nettenginguna hér til þess að hlaða inn myndum. Ég notaði því bara þessa mynd af jólaglervörum frá Holmegaard sem ég póstaði á ensku útgáfuna í dag. Jólaflaska frá þeim er búin að vera lengi á óskalistanum og ég viðurkenni fúslega að ég segði nú ekki nei við glösum og kertastjökum líka.

Ég þurfti annars að líta tvisvar í dagbókina í morgun til þess að trúa því að næsti sunnudagur væri fyrsti í aðventu. Ég er engan veginn tilbúin fyrir jólin enda er ég enn að taka upp úr kössum og raða dótinu okkar. Kannski finn ég jólaskapið pakkað ofan í einhvern kassa, hver veit. Ég er mikil jólakona en er sem betur fer ekki týpan sem stressar sig fyrir jólin og ég held öllu jólaskrauti í lágmarki. Blikkljós í gluggum er ekki minn stíll. Ég hef nokkra skrautmuni á sjálfu jólaborðinu og svo er það bara jólatré og aðventukrans.

*Vantar þig hugmyndir fyrir jólin? Kíktu á jólaborðið mitt á Pinterest.

mynd:
Holmegaard

_
Click for LATTELISA ENGLISH VERSION

föstudagur, 22. nóvember 2013

góða helgi

Eru ekki allir að komast í smá jólaskap? Yfirleitt er ég með hvíta túlipana á borðum um jólin en mér finnst það góð tilhugsun að velja bleik blóm, ef mögulegt er, og blanda saman bæði hlýjum og eilítið köldum tónum eins og er gert hér.

Ef þið hafið þegar kíkt á ensku útgáfu bloggins í gær þá hafið þið væntanlega lesið að nú er ég að blogga frá Englandi (ég tala á svipuðum nótum á þessu bloggi í dag þar sem ég varð netlaus í gær.). Við kvöddum Luxembourg nýverið í leit að nýjum ævintýrum og búum núna á West Midlands svæðinu, ekki langt frá Birmingham. Þetta gerðist nú allt hraðar en ég átti von á því ég var ekki búin að sjá fyrir mér flutningana sjálfa fyrr en kannski í kringum áramótin. En svo fóru hjólin að snúast verulega hratt og við vorum allt í einu á hvolfi að pakka. Áður en við vissum af þá sátum við í ferjunni frá Calais til Dover með góðan hluta búslóðarinnar. Ég viðurkenni að ég var dauðuppgefin!

Þetta leggst allt saman vel í okkur enda erum við óhrædd að takast á við breytingar. Ný heimkynni skapa ný tækifæri og þetta er bara spurning um að sleppa taki á óttanum við hið óþekkta. Ef það er einhver að lesa þetta sem hefur langað til að búa erlendis þá segi ég bara: kýldu á það! Ekki láta hugann hræða þig með óþarfa áhyggjum. Ef þú hefur vott af hugrekki þá er þetta ekkert mál.

Ég veit ekki hversu dugleg ég verð að blogga á næstunni því ég er jú upptekin að koma okkur fyrir; að breyta húsi í heimili og að koma börnunum í skóla. Það tekur alltaf smá tíma að fá þessa ég er komin heim tilfinningu. Ég held að það gerist í smáum skrefum og tilfinningin dýpkar með hverju skrefi. Þegar ég var að raða bókunum mínum í gær þá fannst mér ég einmitt finna hvernig hún dýpkaði, en kannski voru það bara bækurnar sem höfðu þessi áhrif á mig. Ég elska jú bækur.

Í augnablikinu þarf ég að styðjast við nettenginu sem er til bráðabirgða. Ég get ekki alveg stólað á hana þannig að það eru kannski einhverjir dagar þar til ég get bloggað reglulega. En nýju heimkynnin hafa veitt mér innblástur og ég er þegar byrjuð að merkja við staði í Staffordshire og Warwickshire sem mig langar að skoða og jafnvel deila með ykkur. Kannski á ég eftir að falla svo vel inn í umhverfið hérna að ég verð ofur-bresk, hætti að drekka latte og breyti heiti bloggsins í EarlGreyLísa. Maður veit aldrei!

*Vantar þig hugmyndir fyrir jólin? Kíktu á jólaborðið mitt á Pinterest.

mynd:
Johan Carlson fyrir Sköna hem

_
Click for LATTELISA ENGLISH VERSION

miðvikudagur, 23. október 2013

innlit: enskt sveitasetur

Ég veit ekki í hvaða tímariti þessi umfjöllun um sveitasetrið hans John Roger birtist, en þar sem Carol Prisant skrifar greinina var það líklega World of Interiors eða House Beautiful. Roger stjórnar antíkmunadeild Sibyl Colefax & John Fowler, sem er enskt hönnunarfyrirtæki stofnað upp úr 1930. Það fyndna er að hann starfaði sem lögmaður þegar hann einn daginn gekk inn í sýningarsal þeirra í leit að skrifborði og starfsferill hann breyttist snarlega. Þið sjáið hluta af skrifborðinu hér fyrir neðan og svo getið þið séð það í horninu á myndinni úr stofunni. Mér finnst þetta sveitasetur hans heimilislegt en um leið smekklegt - ég er lítið fyrir ofhlaðinn sveitastíl. Garðhönnunin finnst mér ákaflega falleg og ekki of formleg. Ég vildi geta sagt ykkur eitthvað meira um húsið en ég fann þessar skönnuðu myndir á netinu án viðtalsins við Roger.

Á persónulegum nótum, vegna anna á næstu vikum þá verð ég í fríi frá bloggskrifum og veit ekki alveg hvenær ég sný aftur, kannski undir lok nóvember. Ég lofa smá fréttum þegar ég kem til baka. (Ef þið notið Pinterest þá er ég þar og kem til með að pinna í kaffipásum.) À bientôt!

myndir:
Elizabeth Zeschin (skannaðar) af blogginu Kitchens I Have Loved

_
Click for LATTELISA ENGLISH VERSION

fimmtudagur, 17. október 2013

París: fyrir ári síðan við Palais Royal

Ég var með París í huganum þegar ég vaknaði í morgun og þegar ég leit á dagatalið áttaði ég mig á því með bros á vör að ég var í París á þessum degi fyrir akkúrat ári síðan. Ég átti enn nokkrar myndir úr ferðinni sem ég var ekki búin að deila á blogginu. Myndin hér að ofan sýnir stemninguna fyrir utan Le Nemours kaffihúsið, sem er við Palais Royal í 1. hverfi. Við settumst ekki niður til að fá okkur kaffi þar sem við vorum nýbúin að borða hádegisverð og eftirrétt á veitingastað hinum megin við Signu. En það var grenjandi rigning og göng Palais Royal veittu skjól.

mynd:
Lísa Hjalt

_
Click for LATTELISA ENGLISH VERSION