mánudagur, 17. desember 2012

luxembourg: jólamarkaður á place d'armes


Ég fór inn í borg á laugardaginn og ætlaði að festa jóladýrðina á filmu en áttaði mig á því að ég hafði gleymt að hlaða batteríið. Ég náði því ekki að taka nema þessar fjórar myndir áður en vélin fór að hætta að vinna eðlilega. En hvað um það, þær fanga stemninguna á Place d'Armes torgi. Það er torgið sem er í kjarna borgarinnar og út frá því liggja hellulagðar götur með verslunum. Kosturinn við borgarkjarnann í Luxembourg er sá að bílaumferð er mjög takmörkuð og engin í helstu verslunargötunum. Fyrstu myndina tók ég fyrir utan blómabúð á Rue Philippe II, sem er rétt hjá torginu. Það eru alltaf svo sætar skreytingar fyrir utan þessa búð og á laugardaginn var einstaklega jólalegt hjá þeim. Þessi tré með gervisnjó heilluðu mig einna helst.

Ef þið eruð að ferðast um Evrópu á þessum árstíma þá mæli ég með að fara til Luxembourg. Borgin er svo fallega skreytt og allt er frekar lítið og kósí í sniðum.

Þetta var annars notaleg helgi. Þarna á laugardeginum fórum við á bókasafnið og svo kippti ég með sushi á leiðinni heim og át á mig gat. Í gær fórum við að sjá The Hobbit: An Unexpected Journey (2012) og við urðum ekki fyrir vonbrigðum. Þetta var ekkert annað en 3D veisla fyrir augað; Peter Jackson og allir þeir sem komu að þessari mynd eru ekkert annað en helv... bölv... snillingar, eins og bóndinn myndi orða það. Nú er ég ekki mikið fyrir svona ævintýramyndir en við erum miklir aðdáendur Lord of the Rings myndanna og vorum búin að bíða spennt eftir þessari. Núna bíðum við enn þá spenntari eftir framhaldinu.

myndir:
Lísa Hjalt

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.