mánudagur, 24. desember 2012

gleðileg jólJæja, nú eru jólin heldur betur að fara að koma. Bóndinn er búinn að setja hangikjötið í pottinn og lyktin berst um allt hús. Börnin koma reglulega niður og taka einn hring í eldhúsinu - þau bókstaflega elska hangikjöt og við borðum það jú bara einu sinni á ári. Ég er búin að gera grautinn fyrir risalamande-ið og kirsuberjasósuna, sem við berum fram með grautnum.

Við vorum alltaf með kalkúnamáltíð á aðfangadag og vorum þá meira og minna í eldhúsinu allan daginn að undirbúa. Svo gerðist það ein jól þegar við fjölskyldan vorum í Kaupmannahöfn að ofninn í íbúðinni sem við vorum í reyndist bilaður og því ekki hægt að elda kalkún. Það var ekkert annað í stöðunni en að fá sent hangikjöt frá Íslandi. Þennan dag fannst okkur við eiga allan tímann í heiminum því þetta var svo einföld eldamennska. Við ákváðum síðar að taka upp þennan sið, nota aðfangadag til að slaka á í eldhúsinu og stússast meira yfir pottum og pönnum á jóladag.

Hjá mér verða þetta bókajól. Eftir matinn í kvöld hyggst ég koma mér þægilega fyrir á legubekknum og á borðinu bíður mín sæmilegur stafli af bókum. Hluti af þeim er á myndinni. Ég er að vísu búin að lesa appelsínugula doðrantinn, sjálfsævisögu Grace Coddington, sem ég talaði um fyrr á blogginu (er í raun ekki doðrantur því letrið í bókinni er stórt.) Hún var skemmtileg aflestrar en mér fannst vanta meiri dýpt í hana. Hún fer hratt yfir sögu og eyðir yfirleitt ekki mörgum orðum í erfið tímabil í lífi sínu. Hún lýsir vel starfi sínu innan tískugeirans og hún lætur það eiga sig að segja slúðursögur, sem ég kann vel að meta. Mér leiðist það ógurlega að lesa ævisögur fólks sem eru fullar af slúðri um aðra. En eins og ég sagði, það vantar dýpt í bókina.

Bókin sem ég ætla að byrja á eftir matinn og pakkana í kvöld heitir Balenciaga and Spain og er rituð af Hamish Bowles (sá sami og skrifar fyrir Vogue US). Mig hefur lengi langað til að lesa um tískuhönnuðinn Cristóbal Balenciaga (1895-1972) en ég vissi eiginlega ekki hvaða bók ég ætti að velja. Það var svo góð bloggvinkona mín, Ada sem heldur úti blogginu Classiq, sem mælti sérstaklega með þessari. Ég lét eiginmanninn gefa mér hana í jólagjöf og mér líst mjög vel á hana. Hún er stútfull af spænskri menningu og list, akkúrat eins og ég vil hafa tískubækur. Ég ætla svo að klára að lesa Anna Karenina eftir Tolstoy og á bókasafninu um daginn rak ég augun í The Great Gatsby eftir Fitzgerald og ákvað að lesa hana aftur. Ég hugsa að ég komist varla yfir meira þessi jól.

Ég óska ykkur öllum gleðilegra jóla og enda færsluna á einu af mínum uppáhaldsjólalögum, hér í flutningi Coldplay.mynd:
Lísa Hjalt

You Tube: Coldplay / Have yourself a merry little Christmas

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.