þriðjudagur, 23. október 2012

parís: le café chinois í 3. hverfi


Ég deildi myndum frá torginu Place des Vosges í færslu fyrr í dag og lofaði að deila með ykkur þessu huggulega te- og kaffihúsi sem er að finna í 3. hverfi Parísar. Það heitir Le café chinois og stendur í götunni Rue du Béarn, sem liggur út frá torginu. Við gengum fram hjá því á leið okkar í Merci búðina en þá var ekki búið að opna þannig að við ákváðum að kíkja aftur. Við þurftum að bíða eftir borði í svolítinn tíma og karrílyktin sem barst út á götu ætlaði að fara með okkur. En biðin var þess virði.

Staðurinn er frekar lítill og nokkuð hrár í útliti en er samt hlýlegur. Þetta er sem sagt te- og kaffihús og handan eins veggjar er lítil búð með asískum munum og vefnaðarvöru. Hádegisverður - 'slow lunch' - er í boði á milli klukkan 12 og 15 og á töflunni má finna nokkra grænmetisrétti. Mér sýndist vera einn túnfisksréttur líka, en það er ekkert kjöt. Fyrir utan kaffi og te má fá alls kyns ferska safa og við fengum okkur engifer- og hibiscus drykk (held að hibiscus kallist stokkrós á íslensku) sem var ljómandi ferskur og góður. Ég pantaði karrí- og baunarétt með grænmeti á grjónabeði sem var virkilega bragðgóður. Fram til þessa vorum við búin að borða ekkert nema ekta franskan mat og því var þetta gott mótvægi. Þetta bragðaðist svo vel og var alls ekki dýrt. Maturinn fyllti okkur auk þess orku.

Stemningin á staðnum var heimilisleg og um leið alþjóðleg því það mátti heyra frönsku í bland við ensku, spænsku og önnur tungumál. Ef þið eigið leið um þetta svæði í Mýrinni í París þá mæli ég hiklaust með þessum stað. Hann er líka vænn fyrir budduna.

Le café chinois, 7 rue du Béarn, 75003 Paris
opið þriðjudaga - laugardaga frá 12-18:30
'slow lunch' frá 12-15

myndir:
Lísa Hjalt

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.