miðvikudagur, 29. ágúst 2012

tískuþátturinn

Henry Clarke, Vogue, september 1955

Á ensku útgáfu bloggsins er ég með vikulega tískuumfjöllun sem ég kalla NOTES À LA MODE. Stundum pósta ég myndum úr tískuþáttum glanstímaritanna eða því nýjasta af tískupöllunum eða þá að ég fjalla um ákveðinn tískuhönnuð. Ég leyfi aðallega myndunum að tala og oft bæti ég við safni af tenglum sem tengjast efninu á einhvern hátt. Í dag ætla ég að leyfa mér endurtaka færslu dagsins að hluta hér á íslensku útgáfunni. Ég bæti að vísu aðeins við textann, nota aðrar myndir og sleppi tenglasafninu.

Edward Steichen, Vogue, nóvember 1924

Í dag vék ég að septemberútgáfum tískutímaritanna. Nú veit ég ekki hvenær nákvæmlega þessi tölublöð birstast í hillum verslana á Íslandi en hér á meginlandi Evrópu eru flest nú þegar fáanleg. Ég er búin að fletta ansi mörgum og verð að segja að það eru fáar forsíður og tískuþættir sem virkilega gleðja augað. Stundum undrast ég metnaðarleysið. Vogue Paris, eða franska útgáfan af Vogue, er með nýju sniði þennan mánuð. Þeir eru búnir að breyta broti blaðsins og það er hægt að velja um þrjár forsíður af tölublaði septembermánaðar. Ég keypti blaðið með Kate Moss á forsíðunni og get fullyrt að það er mikið um flottar ljósmyndir í því, þá einkum svarthvítar. Franskan mín er ekki mjög sterk en mér finnst menningarhluti blaðsins áhugaverður og nýt þess að lesa hann þó það taki mig svolítinn tíma með hjálp orðabókar. [Ég verð að koma því að hér að ég skil ekki verðmuninn á franska Vogue hér á meginlandinu og á Íslandi. Ég kaupi blaðið á rétt rúmar 5 evrur úti í búð en það kostar rúmar 3000 krónur á Íslandi (var tæpar 4000 fyrir ekki löngu síðan)! Gengi krónunnar útskýrir ekki þennan svakalega verðmun.] Ég keypti líka þýska Vogue en leikkonan Salma Hayek prýðir forsíðuna og tískuþátt í blaðinu. Að mínu mati, fyrir utan tvær myndir, þessa og þessa, er þetta allt að því pínlegur tískuþáttur. Salma, þessi annars flotta kona, er svo uppstillt og lítur út eins og illa gerður hlutur á flestum myndunum. Þið getið skoðað þær á vefsíðu þýska Vogue og dæmt sjálf. Sama hver er á forsíðunni þá er ég farin að kaupa þýska Vogue svo til í hverjum mánuði því þeir eru yfirleitt með góð viðtöl og menningartengt efni er alltaf áhugavert.

En það sem skil ekki í þessum tímaritaheimi er ofurdýrkunin á fræga fólkinu og að það skuli vera notað á forsíður í stað þess að nota flottar og reyndar fyrirsætur sem vita hvað þær eru að gera. Við skulum svo ekki fara út í breytingarnar sem gerðar eru á myndum í tölvum til að afmá allt sem heitir eðlilegar línur og hrukkur, það er reyndar sér kapítuli, eitthvað sem ég er fyrir löngu búin að fá meira en nóg af. En hvað um það, ég til dæmis næ því engan veginn að ritstjóri ameríska Vogue, Anna Wintour, skuli hafa valið Lady Gaga af öllum til að prýða septemberútgáfuna í ár. Hvað á það eiginlega að þýða?!! Mig langar næstum því til þess að sniðganga blaðið en það er bara gamall vani að kaupa það í september þannig að ég læt mig hafa það. En í dag var byrjað að dreifa ítalska Vogue í verslanir og ég hlakka til að tryggja mér eintak. Ítalska útgáfan er yfirleitt alltaf flott.

Sem mótvægi við þessa tískuþætti nútímans sem gera yfirleitt lítið fyrir mig þá fór ég í smiðju Condé Nast vefverslunarinnar, í Vogue hlutann, og valdir nokkrar gamlar og góðar tískuljósmyndir eftir Clarke, Steichen og Horst.

Edward Steichen, Vogue, janúar 1933
Horst P. Horst, Vogue, nóvember 1936

myndir: 
1 Henry Clarke / 2-3 Edward Steichen / 4 Horst P. Horst fyrir Vogue US af vef Condé Nast vefverslunarinnar

Engin ummæli:

Skrifa ummæli

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.