fimmtudagur, 16. ágúst 2012

listakonan kathe fraga


Á vafri mínu um netið fyrir ekki svo löngu rakst ég á verk listakonunnar Kathe Fraga og heillaðist af litunum í verkum hennar og chinoiserie stílnum, sem á íslensku er best að kalla bara skreytingar í kínverskum stíl. Kathe býr og málar í eldgömlu steinhúsi við sjóinn á eyjunni Bainbridge Island í Washington á vesturströnd Bandaríkjanna. Hún vinnur á striga og notast við akrýl, blek, grafít og gifs og lýkur hverju verki með lakkáferð.

Um verk sín segist Kathe vera "innblásin af fegurð og rómantík þess gamla" og nefnir í því samhengi "gamla kimono silkisloppa, útsaum, lítil box með lakkáferð, gamalt veggfóður og panil, sem eru farin að láta á sjá en hafa samt ekki misst sjarmann." Hún hefur búið á ýmsum stöðum í Suður-Ameríku, Danmörku, Englandi og Frakklandi og segir að áhrif þess megi finna í verkum sínum.

Á vefsíðu hennar má skoða nýjustu verkin og þau sem þegar hafa verið seld. Hún heldur einnig úti bloggi sem hún kallar The Art of Kathe Fraga.

Hægt er að kaupa gjafakort með áprentuðum myndum eftir listakonuna sem eru prentuð á mattan pappír og eru án texta. Þau eru seld stök og í settum. Það gæti verið skemmtileg hugmynd að ramma þau inn.

myndir: 
Remembering I og Remembering II eftir Kathe Fraga (birt með leyfi)

1 ummæli:

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.