þriðjudagur, 21. ágúst 2012

falleg bréfsefni og hönnun frá besotted brand


Í nútímanum þar sem tölvupóstar og smáskilaboð eru yfirráðandi veit ég um fátt sem vermir hjartað betur heldur en handrituð orðsending, hvort sem það er kort eða bréf. Það minnir mig á gamla góða tíma þegar reglulega mátti finna bréf í póstkassanum frá pennavinum víðsvegar um heiminn. Ég get auðveldlega gleymt stund og stað þegar ég skoða bréfsefni eða prentverk og sem betur fer má finna vefverslanir sem bjóða upp á slíkt. Sú nýjasta í tenglasafni mínu er Besotted Brand LLC í Los Angeles, sem hefur virkilega fallegt úrval af bréfsefnum, stimplum, merkimiðum, tvinnum og hreinlega öllu því sem þarf til að koma frá sér einhverju handskrifuðu. Viðskiptavinurinn getur einnig óskað eftir sérhönnuðum vörum sem gerir handverkið enn persónulegra.

Settið hér að ofan kallast Calligraphy Thank You Hand-Printed Stationery Set. Kortin eru innflutt frá Ítalíu og pappírinn er unninn úr 100% bómull. Orðsendingin 'thank you' er handprentuð á kortin og þess vegna eru engin tvö kort nákvæmlega eins, sem eykur sjarma þeirra. Í settinu eru 10 kort og 10 umslög sem er búið að pakka fallega í kassa og því er þetta frábær tækifærisgjöf.

Það sama á við um settið að neðan til vinstri sem kallast Heart of Gold Hand-Printed Stationery Set. Gullhjörtun eru úr málmi og eru handprentuð á kortin þannig að engin tvö kort eru nákvæmlega eins.


Það má einnig kaupa sett með kortum, umslögum, merkimiðum og stimpli eins og D.I.Y. Stationery Kit with Calligraphy Hello Stamp. Settið inniheldur allt sem þarf til að búa til sitt eigið bréfsefni sem verður um leið mjög persónulegt. 'Hello' stimpillinn var handskrifaður af Danae Hernandez sem starfar sem skrautskrifari.


Á heimasíðu Besotted Brand er vinnustaðnum skemmtilega lýst sem galdraheimi þar sem blöð sópa sér sjálf í ruslatunnur, lok á pennum virðast smella án nokkurrar hjálpar og engar kökur skilja eftir sig mylsnur.

Það er fröken Tristan B sem stjórnar aðgerðum og hún vill hafa allt hreint og fínt hjá sér.

Þess má geta Besotted Brand heldur líka úti áhugaverðu bloggi.


Orðið 'besotted' í ensku þýðir að vera bálskotinn, að elska einhvern eða eitthvað svo mikið að það eiginlega gengur út yfir alla skynsemi. Ég veit ekki með ykkur en ég er bálskotin í þessum vörum nú þegar!

myndir: 
Besotted Brand LLC (birt með leyfi)

1 ummæli:

  1. Þetta gæti maður nú hreinlega étið, svo girnilegt er það.

    SvaraEyða

Ummæli birtast á blogginu eftir samþykkt. Ummæli með sölutenglum eru tilkynnt og síðan er þeim eytt.